Vefjagigt


Fréttir

Fólk með vefjagigt er með mælanlegar sambandstruflanir í heila

Stöðugt fleytir þekkingu okkar á vefjagigt fram og síðust ár þá hafa rannsóknir beinst í æ ríkara mæli að heilanum og truflaðri starfsemi hans. Nú hafa nokkrar rannsóknir með starfrænum segulómunum (fMRI) og magnetoencephalography (MEG), sem er nýjasta og mest þróaða aðferðin til að skoða starfsemi heilans, leitt í ljós að  vefjagigtarsjúklingar eru með truflað samband milli heilasvæða (e. decreased brain connectivity) sem þurfa að vinna saman að úrvinnslu ýmissa boða.

Það má kannski líkja þessu við að netið hafi dottið út. Stöðugt er leitað eftir svörum eða send út boð en tengingin er rofin –ekkert svar fæst.

Þessar sambandstruflanir eru meðal annars í svæðum sem hafa með skynúrvinnslu að gera ( e. insula, the default mode network,DMN ofl. svæðum ), í kjörnumog heilasvæðum sem hafa með verkjaúrvinnslu að gera og  svæðum sem vinna með hugræna þætti. Niðurstöður þessara rannsókna bæta við þekkingu okkar á truflunum sem finnast í miðtaugakerfi fólks með vefjagigt og gefur okkur betri skilning á t.d. heilaþoku sem margir vefjagigtarsjúklingar þjást af.

Þessi nýja þekking á sambandstruflunum milli heilakjarna gefur okkur nýja sýn og hjálpar okkur að skilja betur þennan flókna sjúkdóm.  Hvert einasta boð sem kemur til heilans krefst flókinnar úrvinnslu frá mörgum deildum heilans. En þegar boðin berast ekki á milli deilda þá verður útkoman röng – boð eru mögnuð upp, berast ekki rétt frá heila til úttauga, sum boð eru viðvarandi og sum boð berast ekki í nægilegu magni.

Þessar niðurstöður beina rannsóknum á meðferðarúrræðum inn á nýjar brautir, því nú viljum við vita hvernig hægt sé að endurtengja heilann. Nokkrar rannsóknir á þekktum meðferðarúrræðum hafa verið gerðar með  starfrænum segulómunum með það að markmiði að skoða áhrif þeirra á  starfsemi heilans. Og viti menn, meðferðarúrræði sem við erum að nota eins og þjálfun og hugræn meðferð eru að endurtengja heilann.

Á nýlegri verkjaráðstefnu  EFIC 2017 voru þessar fMRI rannsóknir kynntar m.a. rannsóknir á áhrifum þjálfunar, áhrifum hugrænnar meðferðar og lyfjameðferðar (Milnacipram) á heilann. Allar þessar rannsóknir sýndu fram á endurtengingar og bætta úrvinnslu milli heila kjarna, en þó mismikið og til að mynda þá hefur hugræn meðferð bætandi áhif  á hugræna úrvinnsu en ekki á verkjaúrvinnslu ( mynd.1).

Vafalaust á margt eftir að koma fram í rannsóknum næstu ára sem hjálpar okkur að skilja orsakir þessarar “tengslaröskunar” í heilanum og áframhaldandi rannsóknir með fMRIog MEG eiga eftir að hjálpa okkur að finna meðferðir sem virka.

Þekking á þessari “tengslaröskun” heilans er bara eitt skref í áttina að því að skilja vefjagigtina betur.

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjáfari MT´c, MPH

 

Heimildir:

- Fyrirlestrar á EFIC 2017: Eva Kosek MD, professor  ( Sweden) og J. Sierra (Spain)

- Fibromyalgia Patients Have Decreased Brain Connectivity in Some Regions, Study Reports by Stacy Grievesótt 21.10.2017 af https://fibromyalgianewstoday.com/2017/10/16/fibromyalgia-patients-have-decreased-brain-connectivity-in-some-regions-study-reports/

- Petzke/Jensen et al. Scand J Pain 2013

- Jensen et al. J Pain 2014

- Larson et al. Arthritis Res & Ther 2015

- Gerdle et al. Plos ONE 2016
 

- Martines et al. Clinical physiol funct Imaginge 2017
 

- Wicksell et all Eur J Pain 2012, Jensen et al Pain 2012
 

- Mynd 1.  úr glærusýningu: J. Sierra á EFIC 2017

Til baka