Sjúkraþjálfun-Meðferð


Meðferðir sjúkraþjálfara

Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á þekkingu á stoðkerfi og á hreyfikerfi líkamans. Hlutverk sjúkraþjálfara er að greina, meta og meðhöndla misvægi í stoðkerfi, truflun á starfrænni færni og verkjum. Meðferð byggir á greiningu vandans. Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand og draga úr verkjum. Markmið meðferðar er m.a. að bæta líkamsstöðu, bæta styrk og úthald vöðva, viðhalda eðlilegum liðleika liða, mýkt og lengd vöðva, bæta hreyfistjórn sem og almenna líkamlega færni.

Dæmi um meðferðir sjúkraþjálfara eru:

Alhliða endurhæfing
Leiðrétting líkamsstöðu
Hreyfistjórnun
Mjúkpartameðferð
Liðlosun
Stöðugleikaþjálfun
Bylgjumeðferð
Rafstraumsmeðferð
Nálastungur

Alhliða endurhæfing
Sjúkraþjálfarar líta á einstaklinginn í heild sinni og samspil hans við sitt nánasta umhverfi þ.e. athafnir daglegs lífs og umhverfi. Í endurhæfingu er tekið mið af þörfum hvers og eins, því þarfir einstaklinga eru ólíkar. Dæmi um það eru að fimleikastúlka þarf t.d. að hafa meiri liðleika en almennt gerist og vöruflutningamaður þarf að hafa meiri vöðvastyrk en t.d. skrifstofumaður.
Endurhæfing felur í sér þrjá meginþætti: greiningu, meðferðaráætlun og meðferð/aðgerðir.

Greining byggir á sögu og nákvæmri skoðun á hreyfi- og stoðkerfi líkamans. Nákvæm greining er gerð á vandamálum einstaklingsins, athugun á getu hans, þörfum og væntingum.

Meðferðaráætlun er sett upp miðað við niðurstöður skoðunar. Markmið verða að vera miðuð við getu og þarfir einstaklingsins. Hann þarf að sjá tilgang í því sem stefnt er að. Jafnframt þarf einstaklingurinn að vera virkur og ábyrgur í öllum ákvörðunum varðandi áætlunina.

Meðferð er fólgin í aðgerðum til að ná fram markmiðum. Aðgerðir felast meðal annars í breyttum lífsháttum, líkamsþjálfun og einstaklingsmeðferð. Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum í einstaklingsmeðferð.

Leiðrétting líkamsstöðu
Að leiðbeina og æfa réttstöðu er grunnur að því að leiðrétta misvægi í hreyfi- og stoðkerfi líkamans. Nokkuð algengt er að líkamsstaðan sé afleit þ.e. að viðkomandi haldi sér vart uppi. Djúplægir “tónískir” líkamsstöðuvöðvar sem hafa það hlutverk að halda okkur uppi eru þá hættir að vinna og allt álag lendir á liðböndum og “fasískum” hreyfivöðvum sem ekki eru gerðir til að vinna þessa stöðuvinnu. Afleiðingin verður að sumir vöðvar verða stuttir, spenntir og aumir vegna ofálags en aðrir verða slappir og ofteygðir. Einnig stuðlar röng líkamsstaða að misvægi í hreyfingum liða hryggsúlu þar sem sumir liðir stirðna meðan aðrir liðir verða ofhreyfanlegir. Hér gildir því að liðka upp stirða liði, auka stöðugleika þeirra ofhreyfanlegu, styrkja slappa vöðva, teygja spennta og auma vöðva og skapa þeim eðlileg vinnuskilyrði.

Hreyfistjórnun
Stór hluti verkja orsakast af truflun í hreyfistjórnun líkamans.
Eðlileg hreyfistjórnun byggir á:

Eðlilegu stoðkerfi – Bein, vöðvar, liðir, liðbönd, bandvefur.
Eðlilegu taugakerfi – Heili, mæna, úttaugar.
Aflfræði (e. biomechanical) – Stöðuvinna, hreyfivinna, líkamsstaða, vinnustellingar ofl.
Heilbrigði -  Hjarta, lungna og efnaskiptakefis líkamans.

Ef truflun verður á einhverjum af þessum þáttum veldur hún rangri hreyfistjórnun og ef ástandið varir í langan tíma þá getur það leitt til langvinnra verkja. Meðferð byggir á greiningu á þáttum sem hafa farið úrskeiðis, að leiðrétta þá og leiðbeina um rétta hreyfistjórn. Sjálfsæfingar eru mjög mikilvægar til að rétt hreyfimunstur verði eðlilegt og ómeðvitað með tímanum.

Mjúkpartameðferð
Nudd hefur verið notað í aldanna rás til að minnka verki og auka á vellíðan. Flestir sjúkraþjálfarar nota nudd sem hluta af meðferð. Hefðbundið nudd, nudd með vibrator, bandvefslosun (e. myofascial release/connective tissue manipulation) eru meðferðir sem reynast vefjagigtarsjúklingum vel. En mjög kröftugt nudd getur aukið á verkina. Markmiðið með nuddi er að mýkja upp og losa um vefina, auka blóðflæðið til svæðisins og fylla taugabrautir af jákvæðum boðum, boðum um vellíðan en ekki auka á verkjaboðin sem fyrir eru.
Nýlega voru birtar niðurstöður rannsóknar sjúkraþjálfara (Citak-Karakaya og félaga, 2006) á áhrifum bandvefsnudds og hljóðbylgjumeðferðar á einkenni vefjagigtar. Meðferð var gefin í 20 skipti á 4ra vikna tímabili. Meðferðin dró úr verkjum, bætti svefn og jók starfræna virkni einstaklinganna. Árangur varaði í 3 mánuði hjá flestum, en 3 (21%) einstaklingar töldu sig enn lausa við fyrrnefnd einkenni einu ári eftir meðferð. Fleiri rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður.

Liðlosun
Liðlosun (e. manipulation/manual therapy) felst í að liðka upp stirða eða læsta liði með sértækum aðferðum. Ákveðnir liðir hryggsúlu stirðna gjarnan, einkum efstu liðir háls, brjóstbaksliðir, liðir á mótum háls og brjóstbaks og liðir á mótum brjóst- og mjóbaks. Sértæk liðlosun er til þess ætluð að bæta hreyfingar og starfræna færni liða, létta á þrýstingi á taugar og æðar.

Stöðugleikaþjálfun
Stöðugleikaþjálfun er beitt til að auka styrk djúplægra vöðva hryggsúlu til að bæta líkamsstöðu og stöðugleika ofhreyfanlegra hreyfieininga í hryggsúlu. Stöðugleikaþjálfun er hægt að beita á alla ofhreyfanlega liði, en þá eru ákveðnir vöðvahópar þjálfaðir í að halda lið í eðlilegri stöðu.

Bylgjumeðferð
Hljóðbylgjur, stuttbylgjur, lágorku laser og háorku laser eru tæki sem notuð eru til að minnka bólgur í vefjum, minnka spennu og eymsli í vöðvum og til að auka gróanda vefja. Virkir “trigger punktar” geta oft verið svo sárir að erfitt reynist að meðhöndla þá með nuddi, en bylgjumeðferðir verka vel á þá og auka ekki á sársaukaboð. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að bylgjumeðferðir dragi úr sumum einkennum vefjagigtar. Lágorku lasermeðferð á kvikupunkta og meðferð með samsettum hljóðbylgjum og blandstraumi á verkjasvæði hafa t.d. gefið marktækt betri árangur á verki, vöðvaspennu borið saman við viðmiðunarhóp.

Rafstraumsmeðferð
Rafstraumsmeðferð er algeng verkjameðferð, en er einnig beitt til að örva blóðflæði, draga úr bólgum, minnka spennu í vöðvum og styrkja vöðva. Tvær gerðir rafstraumstækja eru aðallega notaðar af sjúkraþjálfurum, blandstraumur (e. interferential) og TNS (e. trascutaneus nerve stimulation). Rafstraumurinn dregur úr verkjaboðum með því að loka fyrir verkjaboð frá afturhorni mænu til heila. Rannsóknir hafa sýnt að TNS meðferð dregur verulegar úr verkjum. Einungis ein rannsókn hefur verið birt um áhrif TNS meðferðar á vefjagigtarsjúklinga og hafði meðferðin bætandi áhrif á 70% þátttakenda.
TNS er lítið og handhægt rafstraumstæki sem sumir verkjasjúklingar hafa keypt til eigin nota.

Nálastungur
Nálastungur eru viðurkennd verkjameðferð sem margar fagstéttir beita, meðal þeirra eru sjúkraþjálfarar.
Ítarlegri umfjöllun um meðferð með nálastungum er að finna undir Nálastungur.