Hugræn atferlismeðferð


Höfundur: 
Magnús Baldursson, sálfræðingur


Hugræn atferlismeðferð
Forsenda meðferðarinnar er sú hugsun að hægt sé að hjálpa skjólstæðingum með því að koma auga á og fást við hugsanir sem eru neikvæðar, óraunhæfar, og niðurbrjótandi, og endanlegt markmið er að reyna breyta inngrónum viðhorfum (e. core beliefs) sem eru að valda viðkomandi andlegum erfiðleikum, orsaka þunglyndi, viðhalda kvíða. Í meðferðinni er oftast verið að vinna með það sem er að gerast hér og nú. Byrjað er á að reyna finna út hvenær kvíðin eða depurðin brýst fram, og hvaða ósjálfráðu hugsanir liggi þar að baki. Skjólstæðingum er hjálpað að bera kennsl á þessar niðurrifshugsanir sem oft eru ósjálfráðar og aðeins undirliggjandi. Hugsanir sem þessar eru vegnar, metnar og gagnrýndar, fólk fer smám saman að upplifa hversu órökstuddar þær eru, og þá fara að gefast færi á að móta með sér nýjar aðferðir/hugsanamynstur til að fást við það sem áður olli ugg og depurð.
Í meðferðinni er lagt áherslu á virkni skjólstæðingsins, hann hefur sjálfur mikið hlutverk í viðtölunum og fær með sér breytileg heimaverkefni þar sem tekist er á við þætti sem eru að valda honum andlegum erfiðleikum. Talsvert er lagt upp úr matsferli, bæði varðandi heimaverkefni (sérstök skráningarblöð) og hvernig kvíða og þunglyndiseinkenni eru að þróast eftir því sem líður á meðferðina (skimunarlistar varðandi kvíða og þunglyndi). Meðferðarferlið er lifandi og sveigjanlegt, sálfræðingur og skjólstæðingur semja sameiginlega í upphafi meðferðaráætlun sem síðan kemur reglulega til endurskoðunar eftir því sem á meðferðarvinnuna líður.
Kostnaðarvitund og árangur eru hugtök sem tengjast þessu meðferðarformi. Meðferðin er yfirleitt ekki löng, 10-15 skipti, og ferlið mjög markmiðsbundið. Lærðar eru nýjar aðferðir til lausnar vandamálum, túlkun atburða og þær aðlagaðar daglegu lífi viðkomandi. Skjólstæðingnum eru smám saman færð eins konar vopn í hendur til að fást við þær hugsanir/viðhorf sem áður höfðu slík áhrif að viðkomandi varð kvíðinn og þungur í hugsun og líðan. Þessi þekking og færni á að nýtast viðkomandi verði um afturför að ræða, jafnvel svo vel að ekki sé nauðsynlegt að fara aftur í eiginlega meðferð, hugsanlega sé nóg að taka aðeins aftur upp þráðinn - kannski í 2-3 skipti.
Oft kemur líka til að nauðsynlegt er samfara þessu að endurskoðun fari fram á lífsstíl viðkomandi, hugsanlega þarf kvíðasjúklingur að forgangsraða og læra að slappa af. Ýmsir sem glíma við almenna kvíðaröskun eru yfirkeyrðir, alltaf á fullu - þarna getur þurft að finna betra jafnvægi milli starfsframa, fjölskyldunnar, áhugamála, félagsstarfs og svo framvegis. Hjá hinum þunglynda getur myndin verið algjörlega á hinn kantinn, og þá þarf að hjálpa viðkomandi í þrepum í að ná meiri, eðlilegri og heilbrigðari virkni varðandi hluti eins og þessa hér að ofan.