Einkenni frá vöðvum

Eitt af höfuð einkennum vefjagigtarinnar er vöðvaverkir, vöðvastífni, festumein og magnleysi. Vöðvarnir eru spenntir og aumir viðkomu, það er eins og þeir séu sárir og bólgnir. Allar vöðvafestur, þ.e. þar sem vöðvi tengist beini, eru helaumar. Við þreifingu þá finnast þrimlar í vöðvum og/eða harðir hnútar á víð og dreif. Þessir þrimlar og hnútar í vöðvunum eru kallaðir “trigger punktar”. Ólíkt “kvikupunktunum” sem notaðir eru við greiningu á vefjagigt þá geta “trigger punktar” gefið fjarverk. Þegar þrýst er á “trigger punkt” þá getur verkurinn leitt fjarri upptökunum. “Myofascial pain syndrome” er heiti sem notað er yfir einkenni sem eru að mestu leyti bundnin við vöðva, bandvef og festur (8). Stór hluti fólks (30-85%) sem er haldið langvinnum verkjum greinist með “myofscial pain syndrome” (9). “Myofascial pain syndrome” er algengt einkenni vefjagigtar en ekki séreinkenni fyrir hana. “Trigger punktar” líkamans, verkjadreifing og leiðni hvers punkts hefur verið kortlögð (10).

“Trigger punktar”
“Trigger punktar” geta myndast í öllum vöðvum líkamans, en þeir finnast líka í bandvef, einkum þeim sem umlykur vöðva, í liðböndum og jafnvel í beinhimnum (10). Þeir myndast vegna streituviðbragða líkamans vegna, t.d. ýmiskonar álags, einhæfra hreyfinga, slæmra vinnustellinga, áverka og andlegs álags. Skekkjur í líkamanum eins og mislangir fótleggir, hryggskekkja eða bitskekkja geta valdið misálagi á vöðva og þannig orsakað “trigger punkta”. Virkir “trigger punktar” valda verkjum og draga úr styrk vöðva, samhæfingu þeirra og úthaldi. Höfuðverkir, kjálka- og andlitsverkir, brjóstverkir, bakverkir eru dæmi um verki sem virkir “trigger punktar” geta valdið. Verkur skynjast sem óljós, djúplægur fjarverkur. Hann getur verið stöðugur, getur birst í hvíld eða jafnvel bara við ákveðnar hreyfingar.

Vöðvabólga
Vöðvabólga er heiti sem er notað yfir spennta og auma vöðva. Algengast er að vöðvabólga sé bundin við háls og herðasvæðið, en sömu einkenni geta komið í hvaða vöðva líkamans sem er ef að þeir verða fyrir óeðlilega miklu álagi. Allir fá einhvern tíman vöðvabólgu við álag og stress, en sumir eru útsettari fyrir að fá vöðvabólgu og eiga erfitt með að losna við hana. Það má eiginlega líkja vöðvaeinkennum vefjagigtarsjúklinga sem vöðvabólgu frá toppi til táar, því að flestallir vöðvar eru spenntir og aumir og alsettir “trigger punktum”.

Spennuhöfuðverkur
Yfir 70% vefjagigtarsjúklinga þjást reglulega af höfuðverk (11). Margar gerðir eru til af höfuðverk m.a. spennuhöfuðverkur, höfuðverkur vegna kjálkakvilla (e. temporomandibular joint syndrome) og mígrenihöfuðverkur. Spennuhöfuðverkur orsakast af mikilli spennu í vöðvum í hnakka, hálsi, herðum og í andlits- og tyggingarvöðvum. Ástæður fyrir aukinni spennu í þessum vöðvum geta verið margvíslegar m.a. slæm líkamsstaða – framdregið höfuð, hástæðar axlir og aukin sveigja í brjóstbaki, slæm vinnustaða, einhæf vinna, tvískipt gleraugu, bitskekkja, streita ofl..

Vöðvaslappleiki
Orsakir fyrir magnleysi og úthaldsleysi í vöðvum eru líklega fleiri en ein. Virkir “trigger punktar” geta verið ein skýringin, en svo eru til einstaklingar sem eru ekki með neina virka “trigger punkta”, en þó með mikla kraftminnkun í vöðvum. Algengar kvartanir eru örmögnunartilfinning í vöðvum við álag og erfiðleikar með að framkvæma vinnu þar sem vöðvar eru í stöðugri spennu eins og við að blása á sér hárið eða pússa. Viðbrögð við þessari örmögnunartilfinningu í vöðvum er að hvíla vöðvann, stoppa og hlaða vöðvafrumurnar orku að nýju. Sumir geta hvílt í mínútu eða svo og þá haldið áfram í smá stund, meðan aðrir þurfa hvíld í langan tíma. Einnig er algengt að fólk finni aðallega fyrir þreytu eftir átök og eru þá verkir og eymsli í vöðvunum, líkt og þeir séu allir undirlagðir af harðsperrum.
Vöðvakippir
Flestir hafa fundið fyrir vöðvakippum eða fjörfiski í auga, sem koma og fara upp úr þurru. Margir vefjagigtarsjúklingar finna endurtekið fyrir vöðvakippum og vöðvatitringi sem getur orðið hvimleiður kvilli til lengdar. Endurteknir vöðvakippir geta verið í einum vöðva eða stakir kippir í vöðvum vítt og breytt í líkamanum. Vöðvakippir og vöðvatitringur koma bæði í stóra vöðva og smáa, eins og í stóru lærvöðvana eða í litlu vöðvana sem stýra hreyfingum augnloka. Ekki er vitað með vissu ástæðuna fyrir vöðvakippum, en líklega er um ofurnæmi í taugum til vöðva. Vöðvarannsóknir hafa sýnt að óeðlilega mikil virkni er í vöðvum vefjagigtarsjúklinga (12).