Sjúkraþjálfun

Stór hluti verkja vefjagigtarsjúklinga er frá stoðkerfi líkamans. Sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar í meðferð á því og er sjúkraþjálfun því oft nauðsynlegur þáttur í meðferðarferli vefjagigtarsjúklinga.
Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand og draga úr verkjum. Meðferð sjúkraþjálfara byggist á greiningu vandans. Þannig er leitast við að bæta starfræna færni líkamans, draga úr álagi á vefi líkamans og minnka með því verki.
  
Rannsóknir gefa vísbendingu um að ákveðin meðferðarform sjúkraþjálfara séu áhrifarík meðferð fyrir fólk með vefjagigt. Fræðsla og þjálfun, einkum þolþjálfun og styrktarþjálfun hefur gefið hvað bestan árangur. Æfingar í vatni, meðferð með laser, hljóðbylgjum og bandvefslosun/nuddi, nálastungum hefur einnig sýnt fram á árangur.

Vefjagigtarsjúklingar þurfa á alhliða endurhæfingu að halda, þar sem markmiðið er að koma líkamanum í sem best form. Meðferð er m.a. fólgin í að bæta líkamsstöðu, auka styrk vöðva og úthald, bæta eða viðhalda eðlilegum liðleika liða, mýkt og lengd vöðva.


Meðferðir sem sjúkraþjálfarar beita eru m.a.:
Fræðsla
Leiðrétting líkamstöðu
Mjúkpartameðferð
Liðlosun
Stöðugleikaþjálfun
Hreyfistjórnun
Bylgjumeðferð
Rafstraumsmeðferð
Nálastungur
Þolþjálfun
Styrktarþjálfun
Liðleikaþjálfun
Vöðvateygjur
Færnisþjálfun