Bætiefni

Bætiefni eins og vítamín, steinefni og fitusýrur, eru líkamanum nauðsynleg til að starfa eðlilega. Hann getur ekki framleitt þau sjálfur, nema að örlitlum hluta, og verður því að fá þau úr fæðu. Líkaminn getur heldur ekki framleitt nokkrar amínósýrur sem eru okkur lífsnauðsynlegar. Eina leiðin til að fá þessar lífsnauðsynlegu amínósýrur er með fæðunni.
Fyrir heilbrigt fólk á rétt samsett fæða að innihalda nægilegt magn bætiefna. Með rétt samsettri fæðu er átt við að hún hafi mikinn fjölbreytileika og að hún sé úr öllum 6 fæðuflokkunum þ.e. prótein (fiskur, kjöt, egg, baunir ofl.), grænmeti, ávextir, kornvörur, mjólkurvörur, feitmeti (fita, jurtafita, lýsi, matarolíur, smjör ofl.).

Þegar líkaminn er undir líkamlegu og/eða andlegu álagi, eða haldinn langvinnum sjúkdómi þá getur þörf hans fyrir bætiefni margfaldast. Minni matarlyst, meltingartruflanir eða niðurgangur geta einnig valdið lélegri nýtingu á bætiefnum úr fæðunni. Erfitt getur þá reynst að fá nægilegt magn næringarefna úr daglegri fæðu og því ráðlegt að taka inn fæðubótarefni. Fáar haldbærar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum bætiefna á heilsu vefjagigtarsjúklinga, en til eru margar frásagnir af einstaklingum sem hafa fengið ákveðna bót með því að taka inn fæðubótarefni.


Ráðleggingar
Mörg bætiefni eru talin hafa góð áhrif á einkenni vefjagigtar. Ekki er þó hægt að ráðleggja öllum það sama, heldur ber að hafa til hliðsjónar hvaða einkenni eru mest áberandi og hvaða bætiefni eru ráðlögð við þeim einkennum. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að vefjagigtarsjúklingar hafi marktækt minna af magnesíum og andoxunarefnum (m.a. selenum) en heilbrigðir.
Framleiðsla á fæðubótarefnum er gríðarlega stór iðnaður, ýmiskonar efni eru á markaði sem eiga að bæta heilsuna, því getur verið erfitt að velja úr bætiefni við hæfi. Á vef Heilsuhússins er t.d. fjallað um tæp 150 bætiefni. Best er að kynna sér skortseinkenni bætiefna. Ef skortseinkenni eru líkleg þá er ráðlegt að taka inn viðkomandi fæðubótarefni eða auka við fæðutegundir sem innihalda viðkomandi efni.

Almennt er þó mælt með að taka inn A, D, B, C og E vítamín, og omega 3 og 6 fitusýrur, magnesíum, sínk og selenum. Til eru mörg góð bætiefni sem innihalda helstu vítamín og málma, en fitusýrur verður að taka inn sérstaklega. Lýsi og hörfræjaolía innihalda omega 3 og kvöldvorrósarolía omega 6.