Sýkingar

Lengi hefur verið talið að veirur eða bakteríur gætu átt þátt í orsakaferli vefjagigtar og síþreytu (30). Vitað er um nokkra veirufaraldra sem að hafa valdið viðvarandi einkennum vefjagigtar og síþreytu. Einn þeirra er Akureyrarveikin (e. Icelandic disease) sem greindist í stórum hópi fólks í nágrenni Akureyrar á árunum 1948-1949. Um 25% þeirra sem Akureyraveikina fengu náðu ekki góðum bata. Sverrir Bergmann og félagar rannsökuðu sérstaklega stóran hóp þeirra sem aldrei hafa jafnað sig að fullu eftir veikindin (31). Nánast allir í þeim hópi greindust með vefjagigt og eru oft þreyttir bæði andlega og líkamlega.

Epstein - Barr veiran sem veldur m.a. einkyrnissótt (e. mononucleosis) er talin valda síþreytufári í einstaka tilfellum, en erfitt hefur verið af færa sönnur á þátt þeirrar veiru í þessu sjúkdómsferli (32). Tengsl vefjagigtar og síþreytu við fleiri veirur hafa fundist m.a. við hepatitis C veiruna og eyðni veiruna (33).

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt tengsl milli sýkinga að völdum örveru er nefnist berfrymingur (e. mycoplasma) og vefjagigtar og síþreytu. Rannsóknarniðurstöður hafa þó verið misvísandi (33). Ýmsar bakteríur eru einnig hugsanlegir orsakavaldar. Það er t.d. þekkt að fólk reki upphaf einkenna til matareitrunar og þar eru campylo- og salmonellusýkingar hvað þekktastar. Lyme sjúkdómur er smitsjúkdómur sem berst með blóðmaurum sem bera bakteríu (e. borrelia burgdorferi) sem veldur sjúkdómnum í mönnum. Sjúkdómseinkennum svipar mjög til einkenna vefjagigtar og síþreytu. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru milli vefjagigtar og Lyme sjúkdómsins. Hægt er að ráða niðurlögum Lyme sjúkdómsins með kröftugri sýklalyfjameðferð, en svo virðist sem að þeir einstaklingar sem greinast með vefjagigt samfara Lyme sjúkdómnum læknist ekki af vefjagigtareinkennunum þrátt fyrir meðferð (33).

Sníkjudýr svo sem amömbur, sem fólk sýkist stundum af í framandi löndum hafa einnig verið nefnd sem hugsanlegir orsakavaldar vefjagigtar (34).

Mikið hefur verið fjallað um þátt bóluefnis í sjúkdómsferli vefjagigtar, eftir að stór hluti hermanna sem tóku þátt í Persaflóastríðinu veiktist af sjúkdómi sem svipar mjög til vefjagigtar og síþreytu. Þessi sjúkdómur hefur gengið undir heitinu Persaflóaveiki (e. Gulf war disease). Líklegt er talið að bóluefni fyrir hinum ýmsu sjúkdómum, sem hermennirnir voru sprautaðir fyrir, ásamt mikilli streitu sem fylgir þátttöku í stríði hafi orsakað Perasaflóaveikina í hermönnunum (33). Bóluefnið var margþætt og notað til að verja þá gegn ýmsum kvillum svo sem kíghósta, drepsótt, miltisbrandi, taugaveiki, stífkrampa og kóleru.