Augu/Munnur


Augn- og munnþurrkur

Augn- og munnþurrkur er algengur fylgikvilli vefjagigtar, en hann er einnig aukaverkun þríhringlaga geðdeyfðarlyfja sem mikið eru notuð til að dýpka svefn vefjagigtarsjúklinga. Ef augn- og munnþurrkur er mikill og viðvarandi þá er mikilvægt að útiloka að hann stafi af sjúkdómi í munnvatns- og tárakirtlum. Augn- og munnþurrkur er eitt sýnilegasta einkenni Sjögren heilkennis (e. Sjögren syndreome) sem er sjálfsónæmis-sjúkdómur sem leggst meðal annars á munnvatns- og tárakirtla og eyðileggur þá. Augnþurrkur veldur særindum í augum og langvarandi munnþurrkur getur valdið tannskemmdum.

Sjóntruflanir
Önnur einkenni frá augum geta verið sjóntruflanir t.d. óskýr sjón og erfiðleikar með að fókusera augun. Sjóntruflanir eru meiri í vefjagigtarköstum og eftir langvarandi einbeitingu augna. Litlir vöðvar sem stýra hreyfingum augna eru viðkvæmir fyrir álagi líkt og aðrir vöðvar vefjagigtarsjúklinga. Þegar þeir spennast og þreytast þá geta þeir ekki lengur stýrt augunum af þeirri nákvæmi sem þarf til. Margir vefjagigtarsjúklingar þola því illa að horfa lengi á sjónvarp eða að lesa lengi. Spenna og þreyta í augnvöðvum geta valdið augnverkjum.
Birtufælni er algeng og getur tengst mígren höfuðverk, en er það alls ekki alltaf. Margir vefjagigtarsjúklingar þola ekki að vera úti í mikilli birtu án sólgleraugna, þola illa mjög skær inniljós og jafnvel ekki flöktandi kertaloga.