Sjálfshjálp

Líta má á vefjagigt sem viðamikið verkefni, eins og að púsla stórt púsluspil, þar sem hvert skref, hvert púsl skiptir máli fyrir lokaútkomuna.
  
Njóttu ferðarinnar og lifðu hvern dag eins og hann væri sá síðasti
- Robin S. Sharma


Öll berum við ákveðna ábyrgð á eigin heilsu, meðan við ráðum litlu um hvað hendir okkur í lífinu. Sjálfshjálp snýst ekki um að taka sig saman í andlitinu, heldur um að skilja líkamsástand sitt, taka réttar ávarðanir og nota meðferðarúrræði sem til eru.

Eftirfarandi þættir eru mikilvægir í að ná tökum á vefjagigtinni:

*  Lærðu um vefjagigt, um einkenni og framgang sjúkdómsins og meðferðarúrræði.
    Fræddu vini og aðstandendur um vefjagigt og fáðu þá til að styðja þig og hvetja í
    meðferðinni.

*  Agaðu sjálfan þig. Hlustaðu á líkama þinn og lærðu að þekkja mörk hans þ.e. 
    hvað gerir einkenni verri og hvað bætir.

*  Finndu meðferðaraðila sem hjálpar þér til að setja upp meðferðaráætlun og veitir þér
   stuðning og aðhald í meðferðinni.

*  Leitaðu til meðferðaraðila sem geta veitt þér hjálp til að ná bata t.d. heimilislæknis,
    gigtarlæknis, geðlæknis, sjúkraþjálfara, sálfræðings.

*  Leitaðu allra leiða til að bæta svefn þinn.

*  Hvíldu þig daglega.

*  Lærðu djúpslökun og stundaðu hana daglega.

*   Einfaldaðu líf þitt og reyndu að draga úr andlegu áreiti. 

*  Bættu líkamsástand þitt með reglulegum þol-, styrktar- og teygjuæfingum.
    Þjálfun þarf að vera fjölbreytt og skemmtileg til að hún verði hluti af daglegu
    lífi en ekki bara kvöð.

*  Borðaðu hollan mat og forðastu fæðutegundir sem innihalda koffein, áfengi, 
    sykur og hvítt hveiti.

*  Taktu bætiefni.

Settu þig og heilsu þína í forgang

Haltu dagbók
Skráðu niður:
                           Hvernig var dagurinn
                           Svefn 
                           Verkjaástand 
                           Andlega líðan 
                           Vinnuþrek
                           Hvað þú gerðir fyrir þig

Notaðu orku þína skynsamlega- Forgangsraðaðu 
Skipulegðu vinnu þína vel og daglegar athafnir og taktu tillit til ástands þíns hverju sinni. Orka þín er af skornum skammti, því er mikilvægt að nota hana skynsamlega.

Leitaðu eftir hjálp
Lærðu að leita eftir hjálp frá aðstandendum og vinum. Aðstandendur og vinir eru fúsir til að hjálpa til ef eftir því er leitað á jákvæðan hátt.

Ekki áfella sjálfa þig – Vefjagigt er ekki aumingjaskapur!
Hafðu ávallt í huga að einkenni vefjagigtar koma vegna starfrænnar truflunar í ýmsum líffærakerfum líkamans. Mundu að einkennin koma í köstum og versna við álag.

Lærðu að segja nei án þess að fá samviskubit
Veikindi eins og vefjagigt sem takmarka getu þína krefjast þess að þú virðir mörk líkama þíns. Því er mikilvægt að læra að segja nei, að hafa kjark til að segja nei, þegar þú veist að það er þér fyrir bestu.

Taktu einn dag í einu
Njóttu góðu daganna og mundu á að á eftir slæmum tímum koma góðir tímar.