Mataræði

Góð næring og eðlileg upptaka á næringarefnum er grunnur þess að frumur líkamans geti starfað eðlilega. En matur er ekki bara nauðsynlegur fyrir okkur til að vaxa, dafna og halda heilsu, heldur hefur hann sterkt félagslegt gildi.
Mikil breyting hefur orðið á mataræði Íslendinga sem og margra annarra þjóða á síðustu áratugum. Við Íslendingar eigum heimsmet í sykurneyslu og er meðalneysla um 52 kílógrömm á mann á ári. Einnig eigum við met í neyslu á nýmjólk og skyndibitafæði og mikið unnar matvörur eru að verða æ stærri hluti að mataræði okkar. Til þessara breyttu neysluhátta má rekja hrattvaxandi offitu í heiminum í dag og fjölgun ýmissa velmegunarsjúkdóma. Þeir sem vilja bæta heilsuna ættu því að byrja á því að skoða mataræði sitt og lífsmynstur.
Fáar haldbærar rannsóknarniðurstöður eru til um áhrif ákveðins mataræðis á sjúkdóma. Nokkrar rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til að hráfæði og grænmetisfæði hafi bætandi áhrif á gigtarsjúkdóma. Einnig að forðast ákveðnar fæðutegundir og aukaefni í matvælum. Einhæfni í fæðuvali og neysla á mikið unnum matvælum sem innihalda rotvarnarefni, litarefni og önnur auka efni geta vart talist góður kostur fyrir nokkurn mann.

Mörgum vefjagigtarsjúklingar finnst þeim ekki verða gott af öllum mat. Helstu einkenni tengd ákveðinni fæðu eru svefntruflanir, magaóþægindi, útblásinn kviður, vindverkir, bjúgur, höfuðverkur, liðverkir, þreyta, syfja og streita. Einstaklingsbundið er hvaða fæðutegundir auka á einkenni vefjagigtar, en það geta jafnvel verið fæðutegundir sem eru mjög hollar.

Fæðutegundir sem þolast illa
Eftirfarandi eru dæmi um fæðutegundir sem að margir vefjagigtarsjúklingar þola illa.

• Kaffein - Allir drykkir sem innihalda kaffein svo sem kaffi, te (sem inniheldur kaffein) og kóladrykkir.
Aukaverkanir: Svefntruflanir, streitueinkenni, magaverkur.

• Sykur - Sælgæti, gosdrykkir, kökur og aðrar fæðutegundir sem innihalda hátt hlutfall sykurs.
Aukaverkanir: Truflun á stjórnun blóðsykurs, tímabundin örvun, þreyta, fíkn í sætindi.

• Hröð kolvetni – Matvæli svo sem brauð, kökur og pasta sem innihalda hvítt hveiti.
Aukaverkanir: Truflun á stjórnun blóðsykurs, þreyta, fíkn í mat sem inniheldur hvítt hveiti og sætindi.

• Mjólkurafurðir – Algengt er að ákveðnar mjólkurvörur þolist verr en aðrar. Sumir þola illa fituríkar mjólkurafurðir t.d. nýmjólk, rjóma, smjör og aðrir þola illa próteinríkar mjólkurafurðir t.d. skyr og jógúrt. Einstaka þola engar mjólkurafurðir.
Aukaverkanir: Magaóþægindi, uppþemdur kviður, vindgangur, ristilkrampi, mígren höfuðverkur.

• Aukaefni - Margar matvörur eru mikið unnar og innihalda ýmis aukaefni t.d.  litarefniefni, efni til að auka geymsluþol og bragðbæta m.a. MSG (monosodium glucomat, E-621, þriðja kryddið, bragðaukandi efni).
Aukaverkanir: Aukin vanlíðan, magaverkur, mígren höfuðverkur.

• Áfengi – Sumir vefjagigtarsjúklingar þola illa áfengi jafnvel í litlu mæli. Bjór og léttvín, einkum rauðvín þolist yfirleitt verst.
Aukaverkanir: Svefntruflun, timburmenn í langan tíma, versnun á vefjagigtareinkennum.


 Mikilvægt er að hver og einn leitist við að finna út hvaða fæðutegundir eru að valda aukinni vanlíðan, en tryggja þarf um leið að fæðuvalið sé fjölbreytt og ríkt af næringu. Best er að elda allan mat frá grunni, borða mikið af ávöxtum, grænmeti og grófum kornvörum. Neyta próteinríkrar fæðu, svo sem fisks, kjöts, eggja, bauna og mjólkurafurða, daglega. Nota mjúka fitu í stað harðrar og drekka mikið af vatni.

Fjölbreytni í fæðuvali er grunnur að heilsusamlegu mataræði og að vera meðvitaður um næringargildi og hollustu matvæla. Lýðheilsustöð hefur gefið út nýjar ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Þær ráðleggingar byggja á niðurstöðum vísindarannsókna á sviði næringar og heilsu og niðurstöðum könnunar á mataræði Íslendinga 2002. Hægt er að panta bæklinginn hjá Lýðheilsustöð eða að ná í hann á rafrænuformi á vefslóðinni
http://www.lydheilsustod.is/media/manneldi/utgefid//mataraedi-lowres.pdf