Kenning Dr. Amands

Kenning Dr. St. Amand´s
Dr. St. Amand´s er læknir sem hefur komið með nýja kenningu um orsakir vefjagigtar og síþreytu (37). Hann telur að uppsöfnun verði á ákveðum efnum inni í frumum sem veldur því að þær geta ekki framleitt næga orku til þess að starfa eðlilega. Í raun sé um að ræða truflun í efnaskiptum fruma. Hann telur að uppsöfnunin hefjist strax við fæðingu og á mislöngum tíma er uppsöfnunin orðin það mikil að frumur viðkomandi líffæris hætta að geta starfað eðlilega vegna skorts á orku og það er þá sem sjúkdómurinn fer að gera vart við sig. Fyrst eru einkennin frá fáum líffærakerfum, en smám saman fjölgar einkennum.
Kenning hans er sú að það verði uppsöfnun á fosfötum í frumunum. Ofgnótt af fosfötum hefur hamlandi áhrif á hvatbera frumanna (e. mitochondria), en hvatberar spila mikilvægt hlutverk í orku-efnaskiptum fruma líkamans. Þetta veldur því að frumurnar geta ekki framleitt nægilega mikið af efninu ATP sem er aðal orkuefni þeirra, einskonar eldsneyti líkamans. Heilinn og vöðvar eru hvað viðkvæmust fyrir skorti á ATP.

Fáar rannsóknir eru til sem sýna fram á skort á ATP í frumum, en í einni rannsókn frá 1989 fannst 20% minna af ATP í vöðvasýnum og í blóði vefjagigtarsjúklinga (38) .