Flogaveikislyf

Höfundur:
Arnór Víkingsson, gigtarlæknir


Vefjagigt er ekki flogaveiki en á svipaðan hátt og geðdeyfðarlyf hjálpa í vefjagigt þótt engin sé depurðin, geta sum flogaveikislyf gefið góða raun í vefjagigt. Flogaveiki einkennist af tímabundinni of mikilli rafspennu í taugavef sem flogaveikislyf draga úr eða hemja. Í vefjagigt er örlítið aukin virkni í rafboðum, samt ekki nálægt því sem gerist í flogaveiki. Engu að síður virðast þessi stillandi áhrif sumra flogaveikislyfja geta haft jákvæð áhrif í vefjagigt.
Pregabalin (Lyrica ®) hefur mest verið rannsakað í vefjagigt. Í rannsókn á 529 einstaklingum með vefjagigt kom fram marktæk minnkun í verkjum og þreytu, og svefn batnaði. Þessi áhrif komu einkum fram við stærstu lyfjaskammtana sem voru 450 mg á dag. (6)
Upphafsskammtur pregabalin er 75 – 150 mg á dag en hámarksskammtur 600 mg á dag. Lyfið er ýmist tekið einu sinni á dag að kvöldi eða tvisvar á dag, bæði morgna og kvölds.
Náskylt pregabalin er Gabapentin (Neurontin® , Gabapentin® ) en það er gefið á skammtabilinu 300 mg til 2400 mg á dag.
Aukaverkanir af pregabalini og gabapentini eru alltíðar, sérstaka fyrstu dagana eftir að lyfjagjöf hefst eða þegar nýbúið er að auka lyfjaskammtinn. Helstu aukaverkanir eru svimi, óstöðugleiki, þreyta eða þyngsli, ógleði, aukin matarlyst, bjúgur, þyngdaraukning, munnþurrkur og hægðatregða. Aukaverkanir koma síður ef lyfjaskammtur er aukinn hægt.