Vefjagigt


Fréttir

Töfralyf og mýtur í vefjagigt

Ég hef  unnið með og lifað meðal vefjagigtarfólks í yfir 30 ár og gæti því allt eins titlað mig mannfræðing í dag en ég er sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur. Ég hef hlustað, greint, frætt og meðhöndlað þúsundir með þennan sjúkdóm.  Ég fer ár hvert á verkjaráðstefnu eða gigtarráðstefnu og drekk í mig allt það nýjasta sem hefur verið rannsakað í vefjagigt.

En það er enn engin fullnaðar lækning við vefjagigt í sjónmáli og lyf í vefjagigt eru til bóta en langt í frá því að veita nægilegan árangur.   En endurteknar  rannsóknir  hafa þó sýnt fram á  árangur með hinum ýmsu  meðferðarúrræðum, en grunnurinn að bata er aukin þekking á sjúkdómnum, að þekkja sinn eigin líkama og að nota úrræði í daglegu lífi sem efla þrek og líkamlegt atgerfi, nærast vel, tryggja sem bestan svefn, læra að draga úr streituálagi og tryggja sem mesta reglu og jafnvægi í lífinu. Þetta veitist mörgum erfitt en auðveldara undir góðri handleiðslu þverfaglegs teymis.

Þetta úrræðaleysi veldur því að þessi stóri sjúklingahópur er ginkeyptur fyrir "töfralausnum" og ekki vantar þær. Ég veit ekki hversu oft fólk hefur sagt mér frá einhverju nýju á markaðnum sem eigi bara að "lækna" vefjagigtina og  fólk er að sjálfsögðu til í að borga hvað sem er fyrir betri heilsu. En í nær öllum tilfellum er batinn bara tímabundinn og spurning hvort að "placebo" áhrifin réðu mestu um batann.

Listinn yfir töfraráðin er langur en mig langar að deila með ykkur töfraráðum frá tveimur skjólstæðingum:

-  Leiðrétta rafsegulsmengun í húsinu

- Testa fyrir myglusvepp

-  Live wafe plástrar

- Zin Zino

- Benecta

- Alovera jús

- Hvítlaukur marineraður í ákavíti

- Asta zan

- Hampolía

- Krillolía

- Turmerik

- LDN

- CBT olía

Þið getir rétt ímyndað ykkur hvað þeir eru búnir að eyða í "töfraráðin" en eru samt með vefjagigt á illvígu stigi ( vil samt taka það fram að einstaka vefjagigtarsjúklingar segja að þeim líði betur á einhverju af ofantöldu en engar eða litlar vísindalega sannanir liggja fyrir um árangur). 

Það koma alltaf af og til fram vefjagigtarsjúklingar sem telja sig hafa læknast af vefjagigt og er það frábært en það sem er oft slæmt í þeirra framsetningu er að þeir tala eins og allir geti læknast ef þeir geri það sama og þeir. Vefjagigt getur legið niðri í langan tíma og oft líður fólki með vefjagigt á vægari stigum þannig að þeir hafi losnað við vefjagigtina en þeir sem eru svo óheppnir að vera með vefjagigt á illvígara stigi eru  að kljást við allt annað sjúkdómsástand. Ég hef haft fólk sem líður bara þokkalega vel við litlar úrbætur á lífsstíl, fengið sjúkraþjálfun og etv lyf tímabundið,  en  ég segi það satt að það  eru flestir að díla við sína vefjagigt ævilangt þrátt fyrir  að hafa prófað öll töfraráðin.

Sigrún Baldursdóttir

Sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur

Til baka