Trigeminal neuralgia


 

Trigeminal neuralgia
Andlits- og kjálkaverkir Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) - II. Hluti
Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, MTc, MPH


Vangahvot -Trigeminal neuralgia
Þrenndartaug er grein frá heilataug sem liggur til andlits og greinist í þrjár greinar. Taugaverkir í andliti, vangahvot (trigeminal neuralgia, tic douloureux) er heiti yfir langvinna taugaverki frá þessari taug. Algengast er að vangahvot sé öðrumegin í andliti á kjálkasvæði. Verkir koma í köstum og geta þau varað í nokkra daga, vikur eða jafnvel mánuði og þá geta verkir legið niðri í mánuði eða jafnvel ár. Um er að ræða skerandi, bruna- eða nístandi verki sem koma skyndilega og vara í nokkrar sekúndur eða mínútur í hvert sinn. Kveikja að verkjaköstum getur verið snerting við verkjasvæðið, rakstur, andlitsþvottur, förðun, bursta tennur, tyggja, tala eða fá kaldan vindblástur í andlitið.

Vangahvot finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið a.m.k. tvær konur á móti einum karli. Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt eftir 50 ára aldur en getur byrjað á hvaða aldurskeiði sem er.
Orsakir eru ekki þekktar en talið er að þrýstingur á taugina og/eða blóðæðar sem næra hana hrindi af stað þessum langvinnu taugaverkjum. Vangahvot er nokkuð algengt einkenni í MS sjúkdómnum og tengist þá líklega eyðileggingu sjúkdómsins á myelínslíðri sem umlykur taugina.

Meðferð:
Meðferð með lyfjum þ.e. flogveikislyfjum og/eða þríhringlaga geðdeyfðarlyfjum er algengasta meðferðarformið. Önnur meðferð eins og verkja – og stoðkerfiskerfismeðferð sjúkraþjálfara, nálastungur, raförvun (TNS) er algengur valkostur í meðferð ásamt lyfjameðferð.
Algengustu lyfin eru Tegretol (carbamazepine), Phenytoin (Dilantin), Neurontin (Gabapentin) og Baclofen (Lioresal) og amilín (amitriptyline). Til að þessi lyf virki sem best þá verður að taka þau reglulega og til að draga úr aukaverkunum þeirra þá er lyfjaskammtur aukinn hægt og ef hætta á lyfjatöku þá verður einnnig að draga smám saman úr skammtastærðinni.
Í þeim tilvikum þar sem að ekki næst nægilegur árangur með fyrrnefndum meðferðum þá er skurðaðgerð stundum beitt. Nokkrir valkostir eru í boði má þar nefna sprautumeðferð (glyerol), frysting (cryotherapy) eða hitun (thermocoagulation, radiofrequency rhizotomy) taugar til að blokkera hana þannig að ekki berist verkjaboð eftir henni, meðferð með geislum og opin skurðaðgerð þar sem að létt er á þrýstingi á taugina.


Einkenni vanghvots koma og fara í köstum og vara í mislangan tíma. Svefntruflun, þreyta og þunglyndi eru algengir fylgifiskar vangahvots og það ásamt verkjum og vanlíðan getur haft mikil áhrif á líf viðkomandi og þátttöku í daglegum athöfnum. Yfirleitt næst þó góður árangur í meðferð við vangahvoti með fyrrnefndum meðferðum.

Heimildir

NINDS Trigeminal Neuralgia Information Page. Sótt 7.05.2008 af http://www.ninds.nih.gov/disorders/trigeminal_neuralgia/trigeminal_neuralgia.htm

Okeson, J.P. (2005). Orofacial Pains. The Clinical Management of Orofacial Pain . Canada, Quintessence Publishing Co, Inc.

Sex and Gender Differences in Orofacial Pain. Sótt 4.04.2008 af http://www.iasp-pain.org/AM/Template.cfm?Section=Fact_Sheets&Template=/CM/ContentDisplay.cfm&ContentID=4498

TN-The Condition. Sótt 11.05.2008 af http://www.tna.org.uk/pages/what_treatments_are_available.html