Svefntruflanir

Svefntruflanir

Talið er að um 80% - 90% vefjagigtarsjúklinga eigi við einhverskonar svefntruflanir að stríða (13). Svefntruflanir valda einkennum eins og dagsyfju, þreytu og einbeitingaskorti og draga úr líkamlegri og andlegri hæfni til að takast á við álag. Svefnvandamál eru af mörgum og ólíkum toga. Áhyggjur, kvíði og streita trufla svefn þannig að erfitt getur verið að sofna. Svefninn grynnist og minnstu áreiti vekja viðkomandi endurtekið yfir nóttina. Verkir meðal annars vegna áverka, álags, grindargliðnunar eða einhverra undirliggjandi sjúkdóma geta truflað svefninn. Ungabörn trufla oft svefn foreldra sinna, tíð þvaglát og slæmar svefnvenjur eru einnig dæmi um orsakaþátt fyrir svefnvandamálum. Til eru nokkrar gerðir svefntruflana og hafa sumir fleiri en eina gerð af þeim.

Truflun á djúpsvefni (e. EEG-alpha anomaly)
Algengasti svefnvandi vefjagigtarsjúklinga er truflun á djúpsvefni (EEG-alpha anomaly) (13-14). Í djúpsvefni (e. non-REM) sjást nær eingöngu stórar og hægar bylgjur, delta-bylgjur, á heilalínuriti. Í léttari svefnstigum sést blanda af alfa- og delta bylgjum. Það sem er einkennandi fyrir svefn vefjagigtarfólks er skortur á djúpsvefni þar sem delta-bylgjur eru ráðandi (14). Endurteknar alfa-bylgjur trufla djúpsvefninn og halda þannig viðkomandi í léttari svefnstigum. Þessi truflun dregur úr gæðum svefnsins, þannig er hægt að sofa löngum svefni en hvílast næstum ekki neitt.

Svefnleysi (e. insomnia)
Meðal algengustu svefntruflana er ástand sem kallað er “insomnia” eða svefnleysi. Um er að ræða þrjú megin form þessarar svefntruflana:

• Erfiðleikar með að sofna (e. sleep onset insomnia)
• Að vakna oft yfir nóttina (e. maintenance insomnia)
• Vakna upp mjög árla morguns og geta ekki sofnað aftur (e. early a.m. insomnia)

Meðferð/ráð 

Kæfisvefn (e.  sleep apnea)
Kæfisvefn getur verið orsakaþáttur svefntruflana hjá fólki með vefjagigt og síþreytu (15-17). Kæfisvefn er það ástand kallað þegar loftflæði í lungum hindrast, í svefni, að því marki að súrefnisflutningur frá lungum til vefja minnkar. Í svæsnum kæfisvefni getur viðkomandi farið í endurtekin öndunarstopp yfir nóttina. Það sem einkennir kæfisvefn eru háværar hrotur með hléum, en í kjölfar þeirra grípur viðkomandi andann á lofti og heldur svo áfram að hrjóta. Öndunarstoppin geta verið reglubundin yfir alla nóttina og varað í margar sekúndur jafnvel yfir mínútu hverju sinni. Kæfisvefn veldur miklum truflunum á nætursvefni, öndunarstoppin geta vakið viðkomandi upp eða sent hann upp í léttari svefnstig, þannig nær hann ekki mikilli hvíld út úr svefninum og er jafnvel úrvinda eftir nóttina.


Fótaóeirð/fótapirringur (e. restless leg syndrome)
Fótaóeirð getur verið eitt af einkennum vefjagigtar og veldur svefntruflunum (15,18). Fótaóeirð einkennist af ónotatilfinningu í fótleggjum, einkum kálfum þannig að viðkomandi getur ekki verið kyrr. Fótaóeirð er hvað mest áberandi þegar viðkomandi leggst til hvíldar. Að sparka eða hrista fæturna linar aðeins ónotin, en það er erfitt að sofna á meðan. Fótaóeirð getur einnig komið af og til yfir nóttina og þá er viðkomandi allur á iði.

Sinadráttur (e. noctural cramps)
Að vakna upp við sinadrátt er nokkuð algengt hjá einstaklingum með vefjagigt, vöðvi einhvers staðar í líkamanum herpist í krampa. Algengast er að fá sinadrátt í kálfavöðvana eða fótavöðva undir ilinni.

Að gnísta tönnum (e. bruxism) og kjálkakvillar (e. temporomandibular joint syndrome, TMD)
Þeir sem gnísta tönnum á nóttunni finna oft fyrir þreytu þegar þeir vakna. Ekki er vitað um undirliggjandi orsök fyrir því að fólk gnístir tönnum, en tanngníst getur fylgt kjálkakvillum sem er sérstakt sjúkdómsheiti yfir vandamál sem tengist kjálkaliðum og tyggingarvöðvum. Sterk tengsl eru á milli vefjagigtar og kjálkaliðsraskana, en um 25% vefjagigtarsjúklinga hafa einkenni frá kjálkaliðum og bitvöðvum (19-21).