Geðdeyfðar lyf

Höfundur:
Arnór Víkingsson, gigtarlæknir


Sterkt samband er á milli geðdeyfðar (þunglyndis) og langvinnra verkja. Þunglyndissjúklingar kvarta oft um stoðkerfisverki og sjúklingar með ýmis konar langvinna stoðkerfisverki (s.s. vefjagigt, bakverki, höfuðverki) hafa talsvert aukna tíðni þunglyndis. Talið er að verkun flestra lyfja við geðdeyfð byggist á áhrifum þeirra á magn ýmissa boðefna í taugakerfinu, sérstaklega serotóníns og norepinefríns. Þessi sömu taugaboðefni gegna einnig mikilvægu hlutverki í flutningi verkjaboða um taugakerfið. Þó er athyglisvert að verkjadeyfandi áhrif geðdeyfðarlyfja er óháð áhrifum þeirra á þunglyndi.(4) 

Geðdeyfðarlyf skiptast í þrjá megin flokka: Þríhringlaga geðdeyfðarlyf, serotónin sértæk endurupptöku hamlandi lyf (SSRI lyf; selective serotonin re-uptake inhibitor) og serotónín + norepinefrín endurupptöku hamlandi lyf (DRI; dual re-uptake inhibitors). Seinni flokkarnir tveir hafa það einkum fram yfir þríhringlaga geðdeyfðarlyf að aukaverkanir eru mun fátíðari. Í frekar litlum rannsóknum á áhrifum SSRI eða DRI lyfja í vefjagigt hafa komið fram vísbendingar um að lyfin bæti líðan sjúklinga nokkuð en endanlegar niðurstöður um gagnsemi þeirra liggja þó ekki fyrir (5). Mjög einstaklingsbundið er hvernig fólk þolir þessi lyf. Algengustu aukaverkanirnar eru vægur svimi og ógleði – sérstaklega fyrstu dagana eftir að lyfjataka hefst. Einnig geta lyfin orsakað lystaleysi, þyngdartap eða –aukningu, munnþurrk, hægðatregðu, fínan titring í líkamanum, svitamyndun og kyndeyfð. Þó að lyfin séu notuð gegn þunglyndi og kvíða geta þau stundum aukið á kvíða. Einnig geta þau valdið svefntruflunum. Þar sem mörg ofantalinna einkenna geta fylgt vefjagigt óháð lyfjatöku, er stundum erfitt að skilja á milli áhrifa af lyfjatöku versus einkenna vefjagigtar. Með því að hætta lyfjatöku tímabundið er þó yfirleitt hægt að skera úr um það. Mikilvægt er að hafa samráð við lækni ef vefjagigtarsjúklingur vill hætta töku þessara lyfja. Ef lyfjatöku er hætt of hratt getur það framkallað ýmis fráhvarfseinkenni.

Helstu lyf í SSRI flokki eru:
Fluoxitin (Fontex®, Seról®, Flúoxetin®)
Seroxat (Sertraline (Zoloft®, Sertral®), citalopram (Cipramil®, Oropram®)
Paroxetin (Paxetin®, Seroxat®)
Escitalopram (Cipralex®)

Helstu lyf í DRI flokki eru:
Venlafaxine (Efexor®)
Duloxetine (Cymbalta®, Yentreve®)
Mirtazapine (Remeron®, Míron®)