Þunglyndi- Kvíði

Höfundur: 
Magnús Baldursson, sálfræðingur


Vestræn samfélög hafa þróast frá landbúnaðarsamfélögum sem einkenndust af stórum fjölskyldum og mjög nánum tengslum milli fólks, í átt að borgar- og tæknivæddum samfélögum sem byggjast upp af smærri fjölskyldum og ekki eins þéttum og öruggum félagslegum tengslum. Okkur er hættara en áður að týnast í fjöldanum og verða ein á báti. Samfara þessari þróun hefur tíðni skilnaða tvöfaldast og sá tími sem foreldrar hafa til aflögu eða gefa sér með börnum sínum minnkað til muna. Á Bretlandi voru 92% barnafjölskyldna með báða foreldra til staðar árið 1972, þegar komið var fram á árið 2001 var þessi tala kominn niður í 72%(1). Bumpass og Sweet (1989) (2) áætluðu að 44% af öllum börnum í Bandaríkjunum muni búa hjá einstæðu foreldri áður en þau nái 16 ára aldri. Minni stuðningur frá samfélaginu og stór fjölskyldunni hefur vafalaust leitt til uppbrots á sjálfsmynd einstaklinga, sem síðan hefur orðið til þess að þeim hættir meira til að þróa með sér kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Þunglyndi
Kvíði og þunglyndi eru útbreiddir andlegir sjúkdómar sem taka mikinn toll, bæði tilfinningalegan en einnig efnahagslega sem bitnar bæði á einstaklingum og samfélaginu í heild sinni. Líkur þess að einstaklingur fari í djúpt þunglyndi á æviskeiðinu er um 12% fyrir karla og um 20% fyrir konur (3). Á hverjum tíma má áætla að 5% af samfélaginu glími við alvarlegt þunglyndi, 25% af þeim tilfellum varir í minna en mánuð, en önnur 5% ná sér innan þriggja mánaða. Ef þunglyndið er viðvarandi yfir lengri tíma þróast oft langvinnt ástand, þ.e. hætta er á að þunglyndið eigi eftir að taka sig upp aftur og aftur.
Í vægu þunglyndi er einstaklingurinn bundinn við neikvæðar og niðurdrepandi hugsanir. Viðkomandi er hefur eftirsjá vegna ýmissa hluta, er oft pirraður og reiður, glímir við sjálfsvorkun og sjálfsásakanir, og þarf stundum mjög stöðugt á stuðningi og huggun frá nákomnum að halda, en einnig getur verið að viðkomandi reyni að ýta allri hjálp frá sér (3-6). Þegar ástandið versnar koma fram skýrari þunglyndiseinkenni, meðal annars:

• Líðan sem einkennist af mikilli depurð/sorg og vonleysi - sem stundum leiða til 
  sjálfsvígshugsana og jafnvel tilraunar
• Breytingar á hugsanamynstri - minnkað sjálfstraust, sektarkennd, erfiðleikar 
  með minni og einbeitingu
• Breytingar í hegðun, drift og frumkvæði - líðan einkennist ýmist af því að vera 
  í uppnámi ( e. agitated) eða hægur og algerlega orkulaus
• Minnkaður áhugi á samskiptum - tilhneiging til að einangra sig
• Líkamleg einkenni - svefnerfiðleikar, breyttar matarvenjur, minni áhugi á kynlífi, 
  almennt orkuleysi

Ef þunglyndið er svo mikið að það taki til fimm eða fleiri af þessum einkennum í meira en tvær vikur er það greint sem alvarlegt þunglyndi (2,7,8).
Það er mikilvægt að gera greinarmun á alvarlegu klínísku þunglyndi og annars konar óhamingju eða tímabili vonbrigða. Veltum fyrir okkur sem dæmi manneskju sem eðlilega er í sorg eftir fráfall náins vinar eða ættingja. Greiningarkerfi bandaríska geðlækna- félagsins, DSM-IV, miðar við að ekki eigi að greina alvarlegt þunglyndi nema ef sorgarferli með einkennum þunglyndis hefur staðið í meira en tvo mánuði. Ber svo á að líta að þessi aðgreining sé eigindleg eða megindleg? - það er að segja að þeir sem séu þunglyndir séu einfaldlega óhamingjusamari en meðalmaðurinn, eða að hér sé um óskylda hluti að ræða? Í DSM-kerfinu er þetta leyst með því að hafa vægari greiningu, depurð (e. dysthymia), sem er í raun mitt á milli alvarlegs þunglyndis og eðlilegar líðunar að þessu leyti. Í þessum flokki eru einstaklingar sem eru oft með langvarandi þunglyndiseinkenni en ekki nógu mikil til að uppfylla greiningarviðmið alvarlegs þunglyndis (9). Það má því segja að í þunglyndi felist sammannleg einkenni, sem geti þó leitt okkur í ógöngur ef þau verða of sterk. 


Kvíði
Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að kvíði er algengasta geðheilbrigðis vandamálið í Bandaríkjunum (7), auk þess er hann fylgikvilli og jafnvel orsakavaldur í mörgum öðrum veikindum.
Almenn kvíðaröskun (e. genealized anxiety disorder) er geðheilbrigðis vandamál sem hrjáir 5% til 30% manna einhverntíma á ævinni, eftir því hvaða viðmið eru notuð (10). Gera má ráð fyrir að 3-8% manna glími við almenna kvíðaröskun á hverjum tíma. Kvillinn er algengari meðal kvenna, taka þær til 55-60% hópsins. Á milli 60 og 80% af þessum einstaklingum lýsa því að þeir hafi verið áhyggjufullir eða kvíðnir allt sitt líf (11). Almennri kvíðaröskun hefur verið lýst sem grunn- eða kjarna kvíðaferlum (e. basic core/anxiety disorder). Það er ef til vill óljós lýsing, en gefur þó til kynna að röskunin feli í sér í tiltölulega hreinni mynd þau hugrænu ferli sem gera fólk varnarlausar fyrir því að lenda í kvíðaástandi, t.d.: áhyggjur og kvíði varðandi framtíðina - sífelld leit að váboðum (e. negative rumination), sjálfsmynd og sjálfsþekking broguð og vinnur oft gegn viðkomandi í daglega lífinu, og ákveðin mynstur í því hvernig upplýsingar er túlkaðar og síðan geymdar í minni. 

Það sem er mest áberandi í almennri kvíðaröskun er mikill og yfirdrifin kvíði og áhyggjur, að eiga von á hinu versta, einnig oft erfiðleikar með einbeitingu - eins og að hugurinn verði bara tómur. Þá eru oft til staðar: líkamleg einkenni: vöðvaspenna, skjálfti, þreyta og eirðarleysi, verkir í baki og hálsi, spennuhöfðuðverkur; varðandi ósjálfráðataugakerfið: stuttur andardráttur, hraður hjartsláttur, svimi, hita- og kuldaköst, tíð þvaglát; loks einkenni frá meltingarfærum: magaverkir, ógleði, brjóstsviði. Hegðunareinkenni er meðal annars oförvun - vera eins og hengdur upp á þráð: sífellt á verði, pirringur, manni bregður óeðlilega mikið, erfiðleikar með svefn, að sofna ekki, og/eða vakna oft yfir nóttina (9).
Til að almenn kvíðaröskun sé greind, þá þurfa kvíðinn, áhyggjurnar og líkamlegu einkennin að valda greinanlegu uppnámi eða valda erfiðleikum í þeim skyldum sem felast í daglega lífinu, og að eðli kvíðans tengist öðrum kvíðaröskunum eins og til dæmis félagsfælni, flemstursröskun (fóbía), áráttu-þráhyggju, og að einkennin hafa ekki átt sér stað vegna áfallastreitu 
(11, 2) .


Tengsl þunglyndis og kvíða 
Almenn kvíðaröskun og þunglyndi eiga það sameiginlegt að vera oft langvinnir kvillar þar sem líðan einstaklings getur verið mjög sveiflukennd, þá er talsverð tilhneiging að kvíðinn einstaklingur glími einnig við þunglyndiseinkenni og öfugt. Um 25-30% þeirra sem hafa almenna kvíðaröskun eru einnig þunglyndir og 20-30% þeirra sem greindir eru þunglyndir uppfylla einnig greiningar viðmið fyrir almenna kvíðaröskun.
Það er að minnsta kosti tvennt sem greinir á milli þunglyndis og almennrar kvíðaröskunar, þrátt fyrir að mjög algengt sé að þessir kvillar mætist á einhverjum punkti. Einstaklingar haldnir þunglyndi er mjög bundnir við að þeir séu á einhvern hátt misheppnaðir - séu jafnvel vondar manneskjur, og dvelja mikið við það sem aflaga hefur farið í fortíðinni, frekar en að þeir séu að leita eftir öllum neikvæðum upplýsingum sem geti falist í umhverfinu. Þunglyndi einkennist því mjög af depurðartilfinningu og atburðum sem hafa átt sér stað, frekar en einhverju slæmu sem hugsanlega geti gerst í framtíðinni. Kvíðinn, hins vegar, hefur sterk tengsl við ótta- og hræðslutilfinningu, hræðslan hefur í grunninn þann tilgang að greina hættuna sem fyrst, og að við forðum okkur svo undan því sem geti ógnað okkur á einhvern hátt. Þetta þarf því alls ekki vera alltaf svo að þetta eigi við um einhvern sérstakan greinanlega hlut/atburð í umhverfinu sem rís upp og líður svo út. Í almennri kvíðaröskun er oft miklum erfiðleikum bundið að greina upptökin, tilfinningin og orsakirnar eru mjög fljótandi og óljósar - þannig að í því samhengi má segja að þetta eldforna viðvörunarkerfi mannsinns sé gengið sér til húðar og farið að snúast gegn honum sjálfum.
Munurinn er því að sá þunglyndi horfir meira inná við og brýtur sjálfan sig niður með svartsýni yfir því liðna og mikilli og óraunsærri sjálfsgagnrýni, þunglyndi er afturvirkt. Líðan þess kvíðna flöktir oft milli þess að vona það besta og fara svo yfir í hreina örvæntingu, upptökin eru meira utanaðkomandi og leiða stundum til þess að viðkomandi forðast vissar aðstæður - kvíðinn er framvirkur, horfir til þess sem koma skal. 


Heimildir
1. Frean, A. (2002). Children suffer mental fallout from decline of nuclear family. Time, 28. January.
 
2. Bumpass, L. L., and Sweet, L. L. (1989). Children’s experience in single-parent families: Implications of cohabitation and maritial transitions. Family Planning Perspectives, 6, 256-260.

3. Williams, J. M. G. (2000). Depression. In: Clark, D. M., and Fairburn, C. G. (Eds.), The science and practice of cognitive therapy (pp.259-284), Oxford: Oxford University Press.

4. Beck, A. T. (1976). Cognitive therapy and the emotional disorders. New York: International Universities Press.

5. Beck, A. T., Rush, A. J., Shaw, B. F., and Emery, G. (1979). Cognitive therapy of depression. New York: The Guilford Press.

6. Sacco, W. P., and Beck, A. T. (1995). Cognitive theory and therpy. In: Beckham, E. E., and Leber, W. R. (Eds.), Handbook of depression (2th. edition, pp. 329-351), New York: The Guildford Press.

7. Wilson, G. T., O’Leary, K. D., and Nathan, P. (1992). Abnormal Psychology. New Jersey: Prentice Hall.

8. Beckham, E. E., Leber, W. R., and Youll, L. K. (1995). The diagnostic classification of depression. In: Beckham, E. E., and Leber, W. R. (Eds.),Handbook of depression (2th edition, pp. 36-60), New York: The Guildford Press.

9. American Psychiatrist Association (1994).Handbook of psychiatric measures. Wasington: American Psychiatrist Association.

10. MacLeod, C., Tata, P., and Mathews, A. (1987). Perception of emotionally valenced information in depression. British Journal of Clinical Psychology, 26, 67-68.

11. Wells, A, and Butler, G. (2000). Generalized anxiety disorder. In: Clark, D. M., and Fairburn, C. G. (Eds.), The science and practice of cognitive therapy (pp. 155-178), Oxford: Oxford University Press.

12. Brewin, C. R. (1998). Anxiety, Hove: Psychology Press.