Áverkar/Verkir

Slæmir áverkar á hálsi og/eða baki eftir bílslys eða annarskonar slys þar sem einstaklingur er með verki í langan tíma eru taldir geta hrint vefjagigtarferlinu af stað (19-22). Áverki er ekki talinn vera beinn orsakavaldur heldur er talið að hann vekji upp vefjagigtarferlið hjá einstaklingum sem séu útsettir vegna erfðafræðilegra þátta, sálfélagslegra þátta og/eða ýmissa annarra undirliggjandi þátta (22). Fáar haldbærar rannsóknir eru þó til um tengsl áverka við vefjagigt, en til eru margar frásagnir af einstaklingum sem hafa fengið vefjagigt eftir mikla áverka (24,25). 

Nýlegar rannsóknir benda til að aukin tíðni sé á vefjagigt meðal einstaklinga sem hafa fengið hálsáverka samanborið við einstaklinga sem hafa orðið fyrir öðrum áverkum (25). Sterkar vísbendingar um það komu fram í niðurstöðum ísraelskrar rannsóknar en þar reyndist vera 13 sinnum meiri líkur á að fá vefjagigt innan árs eftir áverka á hálsi borið saman við einstaklinga sem höfðu brotnað á neðri útlim (24). Bresk rannsókn frá 2002 styður þá kenningu að líkamstjón geti átt þátt í að koma vefjagigtarferlinu af stað (26). Komið hefur í ljós að karlmenn sem fá vefjagigt upp úr áverka virðast ná sér betur af vefjagigtareinkennum en konur (27). 

Líklegt má telja að langvinnir verkir af hvaða toga sem er, má þar nefna langvinna bakverki og slæma grindargliðnun á meðgöngu, geti átt þátt í að koma vefjagigtarferlinu af stað.