Svefnbætandi lyf

Höfundur:
Arnór Víkingsson, gigtarlæknir


Svefnrythmi og gæði svefns hjá vefjagigtarsjúklingum er í mörgu ábótavant og eitt af frumskilyrðum þess að ná árangri í meðferð vefjagigtar er að bæta svefninn. Þó að margir vefjagigtarsjúklingar séu sér þess meðvitaðir að svefn er slakur eru einnig mörg dæmi þess að einstaklingurinn telji svefn sinn viðunandi þegar honum er í raun ábótavant. Í slíkum tilfellum telur sjúklingurinn sig sofa alla nóttina en vaknar samt þreyttur og orkulaus. Aukin svefngæði geta dregið úr stoðkerfisverkjum, þreytu og depurð.
Áður en gripið er til svefnbætandi lyfja er mikilvægt fyrir einstaklinginn að skoða svefnvenjur sínar. Í mörgum tilfellum er með einföldum aðgerðum hægt að bæta svefnmynstrið án lyfjagjafar (sjá undir Svefn). Stundum getur svefnbætandi atferlismeðferð hjá sálfræðingi eða öðrum sérfróðum aðila gefið góða raun.

1. Þríhringlaga geðdeyfðarlyf 
Þríhringlaga geðdeyfðarlyf er sá lyfjaflokkur sem mest hefur verið rannsakaður í meðferð vefjagigtar. Lyfin hafa gefið ágæta raun í að dýpka svefn og draga úr stoðkerfisverkjum. Virkni lyfjanna er þó mjög einstaklingsbundin. Samkvæmt rannsóknum gagnast lyfin 25-40% sjúklinga.(2)
Nafnið “þríhringlaga geðdeyfðarlyf” vísar til efnafræðilegrar samsetningar þeirra (þríhringlaga) og upphaflegs notagildis þeirra í meðferð geðdeyfðar. Áhrif lyfjanna í vefjagigt eru ekki í gegnum jákvæð áhrif þeirra á þunglyndi heldur er talið að lyfin verki einkum með því að dýpka svefn og hækka sársaukaþröskuld í miðtaugakerfinu þannig að verkjaboð berast síður frá stoðkerfi líkamans til heilans.
Í meðferð á geðdeyfð er algengt að sjúklingar taki 75-200 mg á dag af þríhringlaga geðdeyfðarlyfi en í meðferð vefjagigtar eru lyfjaskammtar á bilinu 10-50 mg á dag. Ein megin hindrunin í notkun þessara lyfja í vefjagigt eru aukaverkanir þeirra. Allmargir vefjagigtarsjúklingar kvarta yfir munnþurrki, hægðatregðu, sljóleika, þyngdaraukningu eða hraðari hjartslætti.
Mikilvægt er að hafa í huga að aukaverkanirnar eru einstaklingsbundnar og mjög sjaldan hættulegar. Því ættu vefjagigtarsjúklingar með svefntruflanir að gefa þessum lyfjum “séns” frekar en að ákveða fyrirfram að þau muni ekki virka eða þolast.
Algengur byrjunarskammtur er 10-25 mg á dag, gjarnan tekið 2-3 klst áður en viðkomandi fer að sofa. Þennan skammt má hækka í samráði við lækni, allt eftir þörf og þoli.
Algengasta þríhringlaga geðdeyfðarlyfið sem notað hefur verið í vefjagigt er amitryptilín (Amilin®). Önnur lyf eru t.d. trimipramine (Surmontil®), nortryptiline (Noritren®) og doxepine (Sinquan®).

2. Histamín mótvirkandi lyf
Histamín er framleitt í miklum mæli í líkamanum, bæði í miðtaugakerfinu og í öðrum líffærakerfum, s.s. húð, þar sem efnið miðlar kláða og ofnæmisviðbrögðum. Fjölmörg lyf eru á markaði í dag sem mótvirka verkun histamíns í húð, þ.e. svokölluð ofnæmislyf. Sum þessara lyfja mótvirka einnig áhrif histamíns í miðtaugakerfinu. Slík lyf eru gjörn á framkalla syfju en sú verkun getur gagnast einstaklingum með svefntruflanir. Praktískt notagildi þessara lyfja í meðferð svefntruflana felst í því að áhrif lyfjanna eru yfirleitt mild og aukaverkanir fátíðar. Lyfin eru ekki ávanabindandi.
Til þessara lyfja telst promethazine (Phenergan®). Lyfið getur þannig nýst í meðferð á svefnleysi, kláða og ógleði. Phenergan er notað í 25-50 mg skammti að kvöldi. Ýmsar aukaverkanir geta komið fram en þær eru sjaldgæfar.

Lyfið Levomepromazin (Nozinan®) er af sama lyfjaflokki og phenergan en hefur í gegnum tíðina einkum verið notað í meðferð geðklofa. Lyfið mótvirkar ýmis viðtæki í miðtaugakerfinu, einkum dópamínviðtæki en einnig histamín. Við geðklofa þarf að nota háa skammta af lyfinu en í ljós hefur komið að í lágum skömmtum (5-10 mg) verkar lyfið syfjandi og slakandi sem getur reynst mjög gagnlegt í sjúkdómum eins og vefjagigt. Ýmsar aukaverkanir geta komið fram við háa lyfjaskammta, s.s. réttstöðu lágþrýstingur, sljóleiki, slen, munnþurrkur eða ósjálfráðar hreyfingar, en allar þessar aukaverkanir eru fátíðar í þeim skömmtum sem notaðir eru í vefjagigt.

3. Svefnlyf
Fjölmörg svefnlyf eru á markaði. Lyfin eru yfirleitt kröftug í að innleiða og viðhalda svefni og eiga fullan rétt á sér við margar aðstæður. Mikilvægt er að hafa í huga að svefnlyf eru fyrst og fremst hugsuð sem skammtíma meðferð við svefnleysi, þ.e. til að bæta svefn eina og eina nótt eða í nokkra daga eða vikur í senn, en ekki í langtíma viðhaldsmeðferð á svefnleysi. Þannig er óljóst hvort svefnlyf hafi einhver bætandi áhrif á vefjagigt þegar þau eru notuð að staðaldri. Langtímameðferð eykur einnig líkurnar á því að þol myndist gegn verkun þeirra.
Zopiklón (Imovane®, Zópiklón®)og Zolpidem (Stilnoct®, Zolpidem®) eru mest notuðu svefnlyfin í dag. Frumniðurstöður rannsókna benda til að lyfin bæti svefn og dragi úr þreytu hjá vefjagigtarsjúklingum.(3) Samanborið við mörg önnur svefnlyf eru þau mildari og minna ávanamyndandi.
Benzodíazepam afleidd svefnlyf þarf stundum að nota, sérstaklega hjá kvíðasjúklingum. Algengt er að þol myndist gegn lyfhrifum benzodiazepam-sambanda og ávanahætta er nokkur. Slík lyf skal einungis nota við svefnleysi að vel ígrunduðu máli. Dæmi um slík lyf er oxazepam (Sobril®), flunitrazepam (Rohypnol®, Flúnítrazepam®), nitrazepam (Mogadon®), og flurazepam (Dalmadorm®).