Svefntruflanir

Meira en 90% vefjagigtarsjúklinga telja sig eiga við svefntruflanir að stríða (9,10). Svefntruflanir eru taldar geta verið einn af orsakavöldum vefjagigtar og síþreytu og mörg af einkennum vefjagigtar er hægt að rekja til truflaðs svefns. Svefn vefjagigtarsjúklinga er iðulega grunnur og óendurnærandi. Góður og nærandi svefn er mikilvægur heilsu manna og er starfsemi líkamans að verulegu leyti tengd því sem fer fram í svefni m.a. framleiðslu á taugaboðefnum. Svefntruflanir eru einnig algengur fylgikvilli langvinns verkjaástands og langvinnra sjúkdóma meðal annars ýmissa gigtarsjúkdóma (7,8). 

Rannsóknir með heilarafritun (e. EEG, electroencephalography) sem er taugalífeðlisfræðileg mæling á rafvirkni í heilanum hafa leitt í ljós að mikil truflun er á svefnmunstri fólks með vefjagigt. Truflanirnar geta verið mismunandi svo sem að viðkomandi er: 

• Lengi að sofna 
• Vaknar oft upp á nóttu 
• Og/eða jafnvel vaknar mjög snemma morguns 
• Minnkaður djúpsvefn 

Algengustu svefntruflanirnar eru verulega minnkaður djúpsvefn vegna truflana á alfabylgjum í heila (e. alpha (7.5-11 Hz) EEG sleep arousal disorder) og margar uppvakningar yfir nóttina (11,12). Sumir gera sér ekki grein fyrir að þeir séu haldnir svefntruflunum því að þeir sofa alla nóttina. Helstu merki um svefntruflun eru að vakna dauðþreyttur, finna fyrir dagsyfju og orkuleysi.