Blóðsykursfall


Blóðsykursfall

Blóðsykursfall (e. hypoglycemia) er það kallað þegar blóðsykur (glúkósi), lækkar óeðlilega mikið (8,23,45). Blóðsykursfall á sér stað þegar of hröð nýting verður á blóðsykri, þegar of hæg losun er á sykri út í blóðið eða þegar of mikið af insúlíni er losað út í blóðrásina. Insúlín er hormón sem er framleitt í briskirtli og hefur það hlutverk að stýra sykri inn í frumur líkamans en við það lækkar blóðsykurinn. Þegar blóðsykur er kominn niður fyrir ákveðið mark örvast nýrnahetturnar til að framleiða adrenalín sem verkar á móti insúlíni og hindrar að blóðsykurinn falli frekar (23,45).
Adrenalín er aðal streituhormón líkamans og þetta skyndilega aukna magn af adrenalíni sem losað er út í blóðrásina til að hindra frekari losun á insúlíni, veldur einkennum sem fólk finnur við skyndilega lækkun á blóðsykri (23). 

Einkenni um blóðsykursfall koma mjög skyndilega og eru helstu þeirra :
Skyndileg hungurtilfinning
Kröftugur hjartsláttur
Óeðlilega hraður hjartsláttur eða hjartsláttaróregla
Kvíðakast
Martröð eða verulegar svefntruflanir
Yfirlið
Skjálfti í höndum eða innri skjálfti
Sviti
Höfuðverkur eða þyngsli framan til í höfði

Mælingar á blóðsykri hjá fólki með vefjagigt eru yfirleitt innan eðlilegra marka, þrátt fyrir að það hafi öll einkenni um blóðsykursfall (23). Því hafa þessi einkenni vefjagigtarsjúklinga verið kölluð kolvetna óþol (e. carbohydrate intolerance), sem vísar til þess að kolvetnarík fæða þolist illa eða auki á vanlíðan. Mikil neysla á kolvetnaríkri fæðu og koffeindrykkjum, óreglulegar máltíðir og slæmt líkamsástand eykur líkur á blóðsykursfalli (23).
Meðferð við blóðsykursfalli er vel þekkt og skilar góðum árangri, án þess að lyf séu notuð. Meðferðin er fólgin í sérstöku fæðuvali.

Meira um blóðsykursfall er að finna á vefsíðunni,
http://www.healthline.com/adamcontent/hypoglycemia