Ofálag

Of mikið álag
Hluti þeirra vefjagigtarsjúklinga sem ég hef fengið til meðferðar hefur ofgert líkama sínum, einkum konur. Margar þeirra eru að gera allt á sama tíma eiga börn, vera í langskólanámi eða á fullu að ná frama í starfi, ásamt því að halda heimilinu fullkomnu og jafnvel að vera á fullu í félagsstarfi. Þess á milli skreppa þær í líkamsræktina til að halda sér í formi.

Nútíma þjóðfélagið einkennist af miklum hraða og álagi og ekki síst kröfum. Allir vilja eiga allt, gera allt og við viljum gjarnan týna okkur í veraldlegum gæðum. Sumir einstaklingar þola mikið álag og ekkert virðist bíta á þá, meðan það kemur niður á heilsufari annarra. Það má líkja þessu við að öll rafmagnstæki væru sett í gang á heimilinu í einu og allt í einu þá þolir kerfið það ekki og vararofinn slær út. En vandamálið er að við erum hætt að hlusta á boð líkamans, þegar þreyta gerir vart við sig hellum við í okkur kaffi og tökum inn verkja- og bólgueyðandi lyf þegar líkaminn kvartar yfir verkjum. Það gefur augaleið að fyrr eða síðar fer eitthvað að gefa sig og fyrstu einkennin eru þreyta og verkir sem hverfa ekki við hvíld.