Hitastjórn


Hitastjórnun líkamans
Óeðlileg svitamyndun hrjáir marga vefjagigtarsjúklinga, einkum á nóttunni (35). Slík svitaköst geta verið það slæm að skipta þarf um á rúminu nótt eftir nótt. Líkamshitanum er stjórnað af undirstúku heilans (e. hypothalamus) sem er stjórnstöð ósjálfráða taugakerfisins (e. autonomic nervous system). Undirstúka nemur líkamshita og heldur honum stöðugum meðal annars með svitamyndun og auknu blóðflæði til húðarinnar eða skjálfta og minnkuðu blóðflæði til húðarinnar (46).
Líkamshiti er ekki alveg stöðugur yfir sólarhringinn og telst hann eðlilegur á bilinu 36.5 °C til 37.5 °C (47). Margir vefjagigtarsjúklingar finna fyrir truflun á hitastjórnun (35). Sumir eru með 36 °C líkamshita sem er lægri hiti en eðlilegt getur talist en aðrir fá hitavellu af og til með tilheyrandi slappleika.
Ég hef haft nokkra sjúklinga sem svitna óeðlilega yfir daginn eru jafnvel eins og nýkomnir úr sturtu með hárið rennblautt og svitadropar á enni.