Meðferð

Þrátt fyrir að þekkingu á vefjagigt hafi fleygt mikið fram þá er ekki til nein meðferð sem hefur áhrif á öll einkenni hennar. Vísindarannsóknir benda til að meðferð sem felur í sér fræðslu, þátttöku sjúklinga, betri svefn og betra líkamsástand gefi góðan árangur. Einnig benda margar rannsóknir til að sálfræðimeðferð, einkum hugræn atferlismeðferð ( e. cognitive behavioral therapy) bæti líðan og ástand vefjagigtarsjúklinga.
Til að sem bestur árangur náist þarf sjúklingur að afla sér þekkingar á sjúkdómnum, finna meðferðaraðila sem hafa þekkingu á vefjagigt og vera virkur í meðferðinni. Mikilvægt er að hver og einn finni sinn eigin lífstíl sem að bætir líðan og ástand. Einstaklingsbundið er hvaða meðferðar er þörf, en algengt er að nota lyfjameðferð, sjúkraþjálfun, líkamsþjálfun, sálfræðimeðferð, slökun og streitustjórnun. Hnykklækningar, osteopathy, iðjuþjálfun, nudd, nálastungur, verkjasprautur, breytt mataræði og ýmsar náttúrulækningar geta einnig verið hluti af meðferð.