Hvarmakrampar


Hvarmakrampar/Augnviprur (Blepharospasm)
Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, MTc, MPH

Margir vefjagigtarsjúklingar finna endurtekið fyrir vöðvakippum og vöðvatitringi sem getur orðið hvimleiður kvilli til lengdar. Endurteknir vöðvakippir geta verið í einum vöðva eða stakir kippir í vöðvum vítt og breytt í líkamanum. Vöðvakippir og vöðvatitringur koma bæði í stóra vöðva og smáa, eins og í stóru lærvöðvana eða í litlu vöðvana sem stýra hreyfingum augnloka. Flestir hafa fundið fyrir vöðvakippum eða fjörfiski í auga, sem koma og fara upp úr þurru.
Augnviprur/hvarmakrampar (Blepharospasm) byrja oft með óeðlilega miklu augnblikki og stundum fylgir því pirringur og særindi í augum. Skært ljós, þreyta, mikið álag og streita er oft undanfari þessa kvilla. Yfirleitt hægist á augnviprum við að hvíla yfir nótt , en síðan aukast einkennin smám saman eftir því sem líður á daginn. Ljósáreiti eins og vinna við skært ljós eða við tölvuskjá er líklegt til að auka á einkennin.

Hjá flestum eru hvarmakrampar og aðrir vöðvakippir tímabundin einkenni og geta þau varað í mislöng tímabil, en hjá einstaka þá eru hvarmakrampar viðvarandi og hverfa jafnvel ekki í hvíld og í einstaka tilfellum geta einkenni verið svo svæsin að viðkomandi er ómögulegt að beita augunum þegar líða tekur á daginn.

Hvað veldur hvarmakrömpum?
Hvarmakrampar/augnviprur eru ósjálfráðar hreyfingar í augnloki sem stafa af vöðvaspennutruflun (dystonia) sem veldur óeðlilegum samdrætti í litlu augnvöðvunum sem stýra hreyfingum augnloka og hreyfingum augans. Vöðvaspennutruflun (dystonia) er samheiti yfir truflun á vöðvaspennu af ýmsum orsökum og er til margir flokkar kvilla og heilkenna sem stafa af vöðvaspennutruflun.
Ekki er vitað með vissu um ástæðuna fyrir vöðvakippum, en líklega er um ofurnæmi í taugum til vöðva þ.e. óeðlileg rafboð flytjast með taugum til augnvöðva og örva vöðvana til endurtekinna samdrátta og slökunar til skiptis.
Eftirfarandi þættir eru taldir geta átt þátt í að koma þessum kvilla af stað og að viðhalda honum:

• Vöðvaþreyta/ofálag á vöðva
• Áverkar/slys
• Andlegt álag/ langvinnt streituástand
• Kvillar í taugakerfi m.a. vefjagigt
• Kaffein
• Einstaka lyf meðal annars lyfið Nozinan® sem stundum er gefið til að bæta svefn vefjagigtarsjúklinga

Vægir vöðvakippir eru afar algengt einkenni í vefjagigt og eru þeir taldir tengjast ýmsum einkennum sjúkdómsins meðal annars svefntruflunum, tanngnísti og fótaóeirð.

Meðferð
Líkt og með aðra meðferð við einkennum sem stafa af truflun í taugakerfi þá er meðferð við hvarmakrömpum skammt á veg komin. Almennt gildir að meðferð við hvarmakrömpum fer fyrst og fremst eftir alvarleika kvillans, en ætíð er mikilvægt er að byrja á að bæta lífstíl sinn með það að markmiði að draga úr álagi á taugkerfið.

Hvarmakrampar – væg einkenni
• Einkenni koma og fara án sýnilegrar ástæðu
• Minnkað álag dregur úr einkennum
• Einkenni hverfa gjarnan við hvíld

Hvarmakrampar– svæsin einkenni
• Lyfjameðferð, oftast til að slaka á vöðvum
• Botox sprautumeðferð
• Skurðaðgerð aðeins ef að augnviprur hamla sjón

Lífstíll – Draga verður úr andlegu áreiti, stunda reglulega slökun og passa vel upp á hvíld. Hugræn atferlismeðferð getur verið góð hjálp til að takast á við þennan hvimleiða kvilla, sjúkraþjálfun getur verið nauðsynleg til að meðhöndla stoðkerfi andlits og kjálka og koma viðkomandi í sem best líkamlegt form. Að læra að forðast aðstæður sem að auka á kvillann er mjög mikilvægt.

Lyfjameðferð – Ekkert lyf er til við augnviprum sem að gagnast öllum þ.e. lyf sem virka vel á suma hafa enga verkun á aðra. Því er mikilvægt að vera undir eftirliti sérfræðings á þessu sviði t.d. taugalæknis meðan verið er að finna út hvaða lyf verkar best.

Botox sprautumeðferð – Botox (Botox®) innspýting í ofvirka vöðva getur gagnast vel við hvarmakrömpum
og er tiltölulega örugg meðferð. Botoxi er sprautað inn í augnvöðvana með hárfinni nál, en botoxið hefur hamlandi áhrif á taugaboðin sem örva vöðvakippina.
Efninu er sprautað á tveggja til þriggja mánaða fresti í vöðvana í fyrirfram ákveðnum skömmtum. Þetta dregur talsvert úr einkennum hjá yfir 80% sjúklinga.
Síðastliðin ár hefur botox meðferð verið beitt í vaxandi mæli á aðra kvilla og sjúkdóma sem stafa af vöðvaspennutruflun m.a. síbeygjukrampa (spasticity), meðfædda heilalömum (cerebral palsy), hvarmakrampa/augnviprur (blepharospasm), vangakrampa (hemifacial spasm) og staðbundna truflun á vöðvaspennu þeim tengdum.

Skurðaðgerð - Ekki valkostur fyrr en augnviprur hamla sjón og engin önnur meðferðarúrræði eru eftir.


Heimildir:

Hilmir Ásgeirsson, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir. Vöðvaspennutruflun Yfirlitsgrein
Læknablaðið 2003; 89: 943-48

Eye Twitching or Blepharospasm. What is Eye Twitching or an Eye Twitch? Sótt 5.03.08 af http://www.eyecaresource.com/conditions/eye-twitching/

How to treat an eye twitch. Sótt 5.03.08 af
http://www.eyecaresource.com/conditions/eye-twitching/treatment.html

Muscle twitching and weakness Sótt 5.03.08 af
http://www.fibromyalgia-symptoms.org/fibromyalgia_dysmen.html M.

SAMANTEKT Á EIGINLEIKUM LYFS. Sótt 5.03.08 af http://vefpostur.lyfjastofnun.is/focal/gnh52.nsf/TOC/
F7D81939AF454861002572C1004BC062/$FILE/Botox.doc