Er vefjagigt nýr sjúkdómur?

Vefjagigt er ekki nýr sjúkdómur, hún hefur vafalítið fylgt mannkyninu frá örófi alda. Vefjagigt var fyrst lýst árið 1816 af skurðlækni við Edinborgarháskóla, dr. William Balfour (18). Í mörg ár fjallaði læknastéttin um þennan sjúkdóm og kallaði hann hinum ýmsu nöfnum má þar nefna festumeinagigt (e. enthesopathia), (e. chronic rheumatism) og hugsýki (e. hysteria). Margir læknar töldu að hér væri einungis um hugsýki að ræða, að viðkomandi væri í raun bara að ímynda sér að eitthvað væri að sér. Ástæðan var ef til vill skiljanleg á þeim tíma því að öll hefðbundin læknisskoðun og rannsóknir sýndu ekkert óeðlilegt. Úrskurðurinn var því oft sá að “ Það er ekkert að finna að þér, þetta er allt ímyndun ein”.

Ef vel er að gáð þá má víða finna gamlar heimildir um þennan sjúkdóm. Í bókinni BÝR ÍSLENDINGUR HÉR - Minningar Leifs Muller(19), Íslendingsins, sem lifði af fangavist í útrýmingabúðum nasista segir hann frá KZ-heilkenni, sem hrjáði fjóra af hverjum fimm fyrrverandi föngum. Lýsing hans á einkennum KZ-heilkennis svipar mjög til vefjagigtarheilkennisins, en þar segir hann m.a.: “Eftir stríð voru margir svo illa farnir að þeim var fyrirmunað að standa sig í fullri vinnu. Yfirleitt var þó enginn einn sjúkdómur nægilega alvarlegur til að réttlæta hvíld frá vinnu. Menn voru með sitt lítið af hverju; taugatruflanir, magabólgur, niðurgang, öndunarerfiðleika, höfuðverk og svima. Engum sérfræðingi fannst sitt tilfelli nógu alvarlegt til að gefa út læknisvottorð. Þeir vísuðu sjúklingum á milli sín og virtust ekki skilja að veikindi þeirra voru svo víðtæk að í mörgum tilfellum var útilokað að þeir stæðu sig í vinnu.” 

Og myndir mexíkönsku listakonunnar Fridu Kahlo lýsa betur en mörg þúsund orð hvað vefjagigt er. Hún glímdi alla ævi við viðvarandi sjúkleika og verki eftir að hafa slasast illa í slysi 18 ára gömul. Sjálfsmyndir hennar lýsa á ótrúlegan hátt angist og verkjum og er líklegt að hún hafi fengið vefjagigt vegna afleiðinga áverkanna (e. posttraumatic fibromyalgia) (20).