Verkjameðferðir

Vefjagigt er verkjasjúkdómur og geta verkir verið af ýmsum toga. Greina verður orsakavalda verkja til að geta meðhöndlað þá. Algengir orsakavaldar eru svefntruflanir, lélegt líkamsástand, slæm líkamsstaða eða röng líkamsbeiting, einhæft álag, stöðuvinna, of mikið álag, streita, kvíði, andlegt álag, líkamlegir áverkar eða aðrir undirliggjandi sjúkdómar.
Til að ná stjórn á verkjum þarf að kalla til þá hjálp sem möguleg er. Hér geta læknar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, næringarfræðingar, hnykkjarar, osteopatar, nuddarar og fleiri fagaðilar gert mikið gagn. En hafa ber í huga að þátttaka sjúklings er mikilvægasta meðferðin.

• Sjálfsmeðferð
• Verkjameðferð með hjálp fagaðila
• Verkjameðferð með óhefðbundnum meðferðum 
 

Sjálfsmeðferð
• Húðburstun
• Heit böð
• Heitir og kaldir bakstrar, innrauðir hitalampar
• Sjálfsnudd
• Að halda líkamanum í sem bestu formi
• Að draga úr varnarspennu
• Að ofgera sér ekki
• Slökun 
 
Húðburstun
Gott er að byrja daginn með því að nudda lífi í stirðan og verkjaðan skrokkinn. Gott er að bursta líkamann hátt og lágt með þurrum bursta eða hrjúfum hönskum. Best er að byrja á tánum og vinna sig svo upp að mjöðmum. Síðan frá höndum og upp að herðum og taka svo kvið, bak og brjóst. Þetta eykur blóðflæðið til húðarinnar og gefur vellíðunar boð upp til heilans. Á eftir er svo gott að baða sig í heitri sturtu og bera svo krem eða olíu á sig á eftir. Þetta tekur smá tíma en er þess virði.

Heit böð
Heit böð hafa verið stunduð frá örófi alda til að lina verki og bæta heilsufar. Hér á landi erum við svo heppin að hafa gnógt af heitu vatni. Að slaka á í heitu baði daglega eða stunda heitu pottana eða gufuböðin í sundlaugunum er frábær leið til að draga úr verkjum. Sumir heitu pottanna eru með kröftugu vatnsnuddi sem gott er að láta nudda aum svæði og aðrir eru með “bubbli” sem hristir líkamann til, örvar blóðflæði til húðar og undirliggjandi vefja.
Þar sem að vefjagigtarsjúklingar þurfa að spara orku sína þurfa þeir að varast að stunda heit böð of lengi í einu, eins ber að varast að hafa vatnið of heitt. Það þarf að stunda heitu böðin reglulega til að þau séu hluti af meðferð.

Heitir og kaldir bakstrar, innrauðir hitalampar
Til að lina verki á ákveðnum svæðum er gott að nota heita eða kalda bakstra. Ísbakstrar eru frekar notaðir á nýlega áverka, en heitir bakstrar á gigtarverki. Það er svolítið einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum og bara ágætt að prófa sig áfram.
Ísbakstur dregur meira úr sárum verkjum en heitur bakstur, hann linar líka mikla spennu í vöðvum. En sumir þola illa að setja svona kalt á sig og spennast allir upp. Þá er heitur bakstur mun ákjósanlegri.
Ísbakstur á ekki að hafa lengur á en 15 mínútur í senn og alls ekki að setja ísbaksturinn beint á húðina heldur setja blautt stykki á milli. Ef að hann er settur beint á húðina þá getur myndast kalblettur. Lyfjaverslanir selja handhæga ísbakstra sem eru mjúkir og meðfærilegir, en einnig er hægt að mylja ís í plastpoka eða nota poka af frosnu grænmeti.
Heitir bakstrar eru til í margskonar formi, gömlu góðu vatns-hitapokarnir, rafmagns hitapokar í ýmsum stærðum og gerðum, gel-hitapokar, leir-hitapokar, grjónapokar svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir bakstrar eru góðir, en passa verður vel upp á hitastig bakstursins og að hann komi ekki við bera húðina svo að hann brenni ekki. Það er góð regla að vera ekki með baksturinn á sér lengur en í 20 mínútur í senn, en allt í lagi að setja hann á sig nokkrum sinnum yfir daginn.
Hitalampar með innrauðu ljósi eru einnig handhægir til að hita upp afmörkuð svæði og draga þannig úr verkjum. Það hafa einnig verið til lítil nuddtæki með innbyggðu innrauðu ljósi. Innrautt ljós hitar dýpra en heitir bakstrar. Meðferð með infrarauðum hitalampa er því einnig góð til að lina þrautir frá meltingarvegi og jafnvel þvagblöðru, en þá er hitalampanum haldið yfir aumum svæðum á kvið. 

Sjálfsnudd
Hægt er að lina staðbundnar þrautir með því að nudda viðkomandi svæði. Hægt er að beita ýmsum aðferðum við að nudda. Hægt er að nudda með þumlinum eða fingurgómum vísfingurs, löngutangar og baugfingurs eða með hæl handarinnar. Gott er að þrýsta aðeins niður á svæðið og nudda svo létt í hringi, án þess þó að renna á húðinni. Gæta verður að nudda ekki of fast og alls ekki að bora inn í verkinn því þá verður svæðið bara spenntara og sárara á eftir.
Það er líka gott að beita þrýstinuddi á hnúta í vöðvunum (“trigger punkta”). Þá þrýstir maður niður á svæðið í 3-4 sekúndur og slakar í 3-4 sekúndur á víxl. Tennisbolti er upplagt verkfæri til að nota við þrýstinudd.
Til eru boltar á stærð við handbolta sem eru með hrjúfu yfirborði. Það er einstaklega gott að nota þess konar bolta til að nudda á sér brjóstbakið. Þá stendur maður upp við vegg með hnén aðeins bogin og staðsetur boltann á milli baks og veggs. Svo er bara að beygja sig í hnjánum og færa sig til hliðar og láta þannig boltann nudda sig.

Andlitsvöðvar verða stífir og spenntir eins og aðrir vöðvar, en við viljum gjarnarn gleyma þeim. Það fylgir því mikil vellíðan að losa um spennu í andlitinu. Gott er að nudda ennið í litla hringi með fingurgómunum og strjúka síðan eftir augabrúnunum eins og maður sé að strekkja á þeim. Kinnum og höku gefur maður létt nudd í hringi og þrýstir svo aðeins, alls ekki fast, á auma punkta neðan við kinnbeinin og á punkta sitt hvoru megin við miðlínu á höku. Það koma taugar út um göt á andlitsbeinunum á sex stöðum og þar eru þessir aumu punktar.

Að halda líkamanum í sem bestu formi
Ef vefir líkamans eru undir of miklu álagi eða röngu álagi þá valda þeir verkjum dæmi um það eru stirðir liðir, ofhreyfanlegir liðir, liðbönd sem eru undir álagi, slappir og yfirteygðir vöðvar, stífir og spenntir vöðvar.
Hægt er að draga verulega úr þessum verkjaboðum með því að:
• Að gera liðkandi æfingar daglega
• Að stunda styrktar- og þolþjálfun
• Að viðhalda góðri líkamsstöðu og beita líkamanum rétt bæði í leik og við störf
• Að forðast langa kyrrstöðu

Hæfileg hreyfing sem stunduð er reglulega virkjar verkjakerfi líkamans.
Ítarlegri umfjöllun um áhrif þjálfunar er að finna undir Þjálfun

Að draga úr varnarspennu
Líkaminn bregst við röngu álagi eða áverka með því að byggja vörn í kringum viðkomandi svæði með vöðvaspennu. Þessi aukna vöðvaspenna getur valdið viðvarandi verkjum.
Það getur gefist vel að létta á álagi á viðkomandi lið og að framkvæma litlar endurteknar hreyfingar. Eftirfarandi eru dæmi um hvernig hægt er að minnka vöðvaspennu og hafa áhrif á verki.
Hægt er að lina þrautir frá stirðum og sárum axlarlið með því að halla sér fram og láta handlegginn dingla og hreyfa hann svo rólega í litla hringi, eins og handleggurinn væri pendúll. Í þessari æfingu látum við þyngdarkraft jarðar toga í liðinn og létta á honum og við það að endurtaka þessar litlu hreyfingar þá minnkar spennan í vöðvunum í kringum liðinn og sársaukinn dvínar.
Við bakverk spennast bakvöðvarnir og auka á verkina enn frekar. Hægt er að draga úr vöðvaspennunni og lina verkina með því að framkvæma endurtekið fettu og kryppu í mjóbaki. Þessa æfingu er hægt að framkvæma liggjandi, standandi og jafnvel sitjandi.
Ég tek þessi tvö algengu dæmi fyrir en hægt er að nota þessa aðferð þar sem mikil vöðvaspenna veldur verk, en hreyfingarnar verða að vera litlar og innan sársaukamarka (ekki það sárar að þær auki enn frekar á vöðvaspennu).

Að ofgera sér ekki
Að þekkja sín mörk og ofgera sér ekki er nauðsynlegt til að ná árangri. Ofþreyta veldur verkjum og spennu í öllum líkamanum og fólk með vefjagigt nær ekki að afþreyta sig með því að hvíla sig stundarkorn, heldur tekur það oft marga daga að jafna sig og ná upp fyrra ástandi. Að læra sín takmörk og virða þau er því einn liður í verkjastjórnun.

Slökun
Slökun er aðferð þar sem huganum er beitt til að slaka á vöðvum, draga úr kvíða og minnka verki. 
 

Verkjameðferð með hjálp fagaðila
• Verkjalyf
• Bólgueyðandi lyf
• Þunglyndislyf
• Verkjasprautur
• Sjúkraþjálfun

Oft þarf hjálp fagaðila til að ná stjórn á verkjum. Fagaðilar geta hjálpað við að greina orsakaþætti langvinnra verkja og að rjúfa verkjavítahring. Fræðsla, ráðgjöf, stuðningur, lyfjameðferðir, líkamsþjálfun, streitustjórnun eru dæmi um þá meðferð sem fagaðilar geta veitt. 

Verkjalyf
Ýmis verkja- og bólgueyðandi lyf eru oft nauðsynleg hjálp í meðferð langvinnra verkja, en þau eru ekki læknandi heldur einungis til að draga úr verkjum og vanlíðan tímabundið. En það verður að fara sparlega í notkun þeirra þar sem allir þessir verkir eru ekki tímabundið fyrirbæri, heldur viðvarandi fylgikvilli vefjagigtar. Mörg verkjalyf eru vanabindandi og er því varasamt að nota þau að staðaldri í langan tíma.  Sjá verkja- og bólgueyðandi lyf

Bólgueyðandi lyf
Vefjagigt er ekki bólgusjúkdómur, því eru áhrif bólgueyðandi lyfja ekki veruleg. Þau daga þó aðeins úr verkjum, einkum ef að þau eru notuð með lyfjum sem dýpka svefninn (þríhringlaga geðdeyfðarlyf). Sjá verkja- og bólgueyðandi lyf

Geðdeyfðarlyf
Þríhringlaga geðdeyfðarlyf sem gefin eru til að bæta svefninn hafa áhrif á framleiðslu taugaboðefna sem draga úr verkjum, þannig getur það verið verkjameðferð í raun að meðhöndla svefninn.  Sjá geðdeyfðarlyf

Verkjasprautur
Margir læknar, einkum svæfinga- og deifingalæknar og gigtarlæknar, sprauta í virka “trigger punkta” og í sárar vöðvafestur með ágætum árangri.

Ítarlegri umfjöllun um lyf er að finna undir Lyf

Sjúkraþjálfun
Stór hluti verkja vefjagigtarsjúklinga er frá stoðkerfi líkamans. Sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar í meðferð á því og er sjúkraþjálfun því oft nauðsynlegur þáttur í meðferð vefjagigtarsjúklinga.
Meðferð sjúkraþjálfara við verkjum frá stoðkerfi byggir á greiningu vandans. Þannig er leitast við að bæta starfræna færni líkamans og draga með því úr álagi á vefi líkamans. Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand og draga úr verkjum. Markmið meðferðar er að bæta líkamsstöðu, bæta styrk og úthald vöðva, viðhalda eðlilegum liðleika liða, mýkt og lengd vöðva og bæta almenna líkamlega færni.

Verkjameðferð sem sjúkraþjálfarar beita eru m.a.:
Líkamsþjálfun
Mjúkpartameðferð - nuddmeðferð, bandvefslosun ofl.
Sérhæfð liðlosun
Stöðugleikaþjálfun
Bylgjumeðferð - hljóðbylgjur, laser, stuttbylgjur
Rafstraumsmeðferð- blandstraumur, TNS
Nálastungur
Slökun
Heitir/kaldir bakstrar
 
Ítarlegri umfjöllun um sjúkraþjálfun er að finna undir Sjúkraþjálfun

Verkjameðferð með óhefðbundnum meðferðum
Mörk milli hefðbundinnar lækninga og óhefðbundinna meðferðar eru frekar óljós. Það sem við í daglegu tali köllum óhefðbundin meðferð er oft gömul hefðbundin meðferð, oft fleiri þúsund ára gömul. Margir langveikir sjúklingar leita sér hjálpar með ýmissi óhefðbundinni meðferð sem oft beinist að því að draga úr verkjum. Þekkt er að heilbrigðisstéttir nýti sér óhefðbunda meðferð í störfum sínum. Sem dæmi um það má nefna notkun nálastungna við verkjum og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun. Framboð óhefðbundinna meðferðargreina er fjölbreytt og listinn hér fyrir neðan engan veginn tæmandi.

Dæmi um óhefðbundnar meðferðir eru:
Aromatherapy (Ilmolíumeðferð)
Bowen tækni
Dáleiðsla
Grasa- og náttúrulækningar
Heilun
Huglækningar
Hnykkingar
Hómapatía (Smáskammtalækningar)
Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun
Nálastungur
Nudd
Osteopathy (Beina- og liðskekkjulækningar)
Reiki
Svæðanudd
Þrýstipunktanudd 
 
Ítarlegri umfjöllun er að finna undir Óhefðbundnar meðferðir