Verkja-og bólgueyðandi lyf

Verkjalyf
Áhrif verkjalyfja á vefjagigtarsjúklinga eru mjög breytileg, allt frá því að vera engin yfir í það að vera þokkaleg eða góð. Sjaldan hafa verkjalyf þó verulega gagnleg áhrif. Markmið verkjameðferðar í vefjagigt er ekki að taka allan verkinn í burtu heldur að draga nægilega úr gigtarverkjum þannig að einstaklingurinn sofi betur og nái meiri starfrænni færni til að sinna betur öðrum þáttum vefjagigtarmeðferðarinnar og öðrum hlutverkum sínum í daglegu lífi. Mikilvægt er fyrir sjúklinga sem taka verkjalyf að spyrja sjálfan sig að því hvort verkjalyfjameðferðin sé að skila þessum árangri.
Notkun paracetamóls og bólgueyðandi gigtarlyfja í vefjagigt er almennt viðurkennd af læknum en skiptari skoðanir eru á meðal lækna hvort nota eigi parkódín og tramadól í vefjagigt. Notkun enn sterkari verkjalyfja (s.s. morfíns, oxycodons og fentanyls) er mjög umdeild.

Bólgueyðandi gigtarlyf
Hafa í raun ekki læknisfræðilega sönnuð verkjastillandi áhrif í vefjagigt. Gagnsemi er einstaklingsbundin og lyfin geta hjálpað vefjagigtarsjúklingum gegn tilteknum verkjum en ekki öllum. Bólgueyðandi gigtarlyf eru líklegri til að skila árangri þegar saman fara verkir vegna vefjagigtar og annars gigtarsjúkdóms, t.d. slitgigtar eða liðagigtar. Lyfin er hægt að taka í stökum skömmtum eftir þörfum gegn slæmum verkjum eða reglubundið í vikur eða mánuði sem viðhaldsmeðferð. Lyfin á að taka með fæðu til að vernda magaslímhúðina.
Bólgueyðandi gigtarlyf eru gjörn á að valda vægum óþægindum, s.s. brjóstsviða, velgju og svima. Þau valda stundum bjúg og vægri blóðþrýstingshækkun. Lyfin geta einnig haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér, sérstaklega fyrir þá sem eru eldri en 65 ára. Þar má nefna maga-/skeifugarnabólgur eða -sár, skert nýrnastarfsemi og vökvasöfnun sem getur leitt til hjartabilunar í einstaka tilfellum.
Fjölmörg lyf tilheyra þessum lyfjaflokki en á Íslandi eru eftirfarandi lyf á lyfjaskrá:

Ibuprófen (Ibufen®, Ibukód®)
Diclophenac (Voltaren®, Vostar®®, Voltfast®, Klófen®, Modifenac®, Arthrotec®) Piroxicam (Felden®)
Tenoxicam (Tilcotil®)
Naproxen (Naproxen®)
Ketoprofen (Orudis®)
Celecoxib (Celebra®)
Parecoxib (Dynastat®)
Etoricoxib (Arcoxia®)
Nabumeton (Relifex®)

Parasetamól
Hefur væg verkjastillandi áhrif og er hægt að nota í stökum skömmtum eftir þörfum eða reglubundið í viðhaldsmeðferð. Þegar parasetamól er notað í viðhaldsmeðferð er heppilegra að nota forðatöflur (t.d. paratabs retard) sem verka í um 12 klukkustundir. Einn megin kostur parasetamóls felst í því að aukaverkanir eru sjaldgæfar. Mikilvægt er að fara ekki yfir leyfðan hámarksskammt vegna hættu á lifrarskemmdum. Einnig er vert að hafa í huga að parasetamól og umtalsverð áfengisneysla fara illa saman og getur leitt til alvarlegra lifrarskemmda, jafnvel þótt lítils skammts sé neytt.
Algengur dagsskammtur er 2 töflur (500 mg hvor) tvisvar til þrisvar sinnum á dag.

Parkódín
Parkódín er samsett lyf sem inniheldur parasetamól og kódín. Efnasambandið kódín hefur lítil verkjastillandi áhrif en umbreytist í líkamanum í morfín. Parkódín er talsvert notað til verkjastillingar í vefjagigt en notkun þess í vefjagigt og öðrum tegundum krónískra verkja er umdeild á meðal lækna. Lyfið er selt sem parkódín og parkódín forte. Bæði lyfjaformin innihalda sama magn af parasetamóli (500 mg/tafla) en parkódín forte innheldur þrefalt hærra magn af kódíni (30 mg/tafla) samanborið við parkódín (10 mg/tafla). Engar rannsóknir hafa verið gerðar á virkni parkódíns (eða annarra morfínlyfja) í vefjagigt.
Helstu aukaverkanir eru velgja, hægðatregða og syfja. Langvarandi notkun parkódíns (forte) getur leitt til höfuðverkja og sinnuleysis.

Tramadól
Tramadól (Nobligan®, Tramól®, Zytram®, Tradolan®) er miðlungssterkt verkjalyf, fjarskylt morfíni. Lyfið gefur allgóða verkjadeyfingu án þess að virkja morfínviðtakana í heilanum sem valda vímuáhrifum. Þannig er ávanahættan af tramóli mun minni en af t.d. parkdódíni. Rannsóknir hafa sýnt að tramadól dregur úr verkjum og bætir líðan vefjagigtarsjúklinga.(1) Áhrif tramadóls eru oft meiri ef lyfið er gefið með paracetamóli.
Aukaverkanir eru alltíðar, sérstaklega ef lyfjaskammtur er aukinn hratt og ef háir skammtar eru notaðir. Algengustu aukaverkanir eru ógleði, svimi, slappleiki, sljóleiki og hægðatregða. Lyfið er varasamt fyrir einstaklinga með flogaveiki því tíðni floga getur aukist, sérstaklega í hærri skömmtum. Ef tramadol meðferð er hætt snögglega er hætta á fráhvarfseinkennum.
Algengir byrjunarskammtar eru 50 mg einu sinni eða tvisvar á dag, hámarksskammtur er 300 mg á dag fyrir eldri einstaklinga og 400 mg fyrir yngri eintaklinga. Mikilvægt er að hækka ekki lyfjaskammta án samráðs við lækni.

Sterk verkjalyf
Til þessara lyfja teljast oxykódón, fentanýl, ketógan og morfín. Þessi lyf ber að forðast í verkjameðferð í vefjagigt. Lyfin á einungis að nota við sérstakar aðstæður og þá undir umsjón læknis sem hefur reynslu og þekkingu í notkun þeirra.