Vefjagigt

Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni (e. syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon), dofi í útlimum, bjúgur, kraftminnkun, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð. 

Vefjagigtin getur þróast á löngum tíma og viðkomandi gerir sér litla grein fyrir í fyrstu að eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Verkir sem hlaupa til dag frá degi, stirðleiki og yfirþyrmandi þreyta af og til eru oft byrjunareinkennin. Einkennin eru ekki viðvarandi í fyrstu, koma og fara, ný einkenni bætast við. Smám saman vindur sjúkdómurinn upp á sig þar til einkenni hverfa ekki langtímum saman. Einkennin eru mjög mismunandi milli einstaklinga, bæði af fjölda og hversu slæm þau eru. Vefjagigt getur verið mildur sjúkdómur þar sem viðkomandi heldur nær fullri færni og vinnugetu, þrátt fyrir verki og þreytu, en hann getur líka verið mjög illvígur og rænt einstaklinginn allri orku þannig að hann er vart fær um annað en að sofa og matast. Oftar rænir vefjagigtin aðeins hluta af færni til vinnu og athafna daglegs lífs. Þar sem ekki sjást nein ummerki um sjúkdóminn, hvorki á sjúklingnum, né í almennum læknisrannsóknum þá hafa þessir einstaklingar oft á tíðum mætt litlum skilningi heilbrigðisstarfsfólks, aðstandenda, vina eða vinnuveitenda. Enn þann dag í dag telja sumir að vefjagigt sé í raun ekkert annað en verkjavandamál sem geti talist eðlilegur hluti af lífinu og enn aðrir telja að um sé að ræða “ruslafötu greiningu” það er að allt sé kallað vefjagigt sem ekki er hægt að greina sem aðra “almennilega sjúkdóma”.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á vefjagigt sem hafa leitt í ljós að truflun er í starfssemi margra líffærakerfa hjá fólki með vefjagigt m.a. í tauga-hormóna kerfi líkamans ( e. neurohormonal abnormality) (1-6), ósjálfráða taugakerfinu ( e. autonomic nervous system dysfunction) (6,7) og truflun er á framleiðslu ýmissa hormóna ( e. reproductive hormone dysfunction) (8). Svefntruflanir sem eru eitt af höfuðeinkennum vefjagigtar eru taldar orsakaþáttur fyrir mörgum einkennum einkum þreytu og stoðkerfisverkjum (9).