Meltingarvegur


Einkenni frá meltingarvegi
• Iðraólga/órólegur ristill
• Lekar garnir
• Vélindabakflæði


Iðraólga/órólegur ristill (e. irritable bowel syndrome)
Iðraólga eða órólegur ristill eru íslensk læknisheiti sem notuð hafa verið yfir “irritable bowel syndrome”. Iðraólga er nokkuð algengur kvilli og greinist hjá 10-15% fólks, en um 70% vefjagigtarsjúklinga uppfylla greiningu á iðraólgu (25). Einkennin geta verið uppþemdur kviður, vindverkir, loftgangur, slím með hægðum, niðurgangur, hægðatregða og ristilkrampar (26). Ekki er óalgengt að fólk hafi til skiptis hægðartregðu og niðurgang. Kviðverkir geta verið nær stöðugir eða með hléum, þeir liggja oft mjög djúpt inni í kviðnum og erfitt er að staðsetja hann nákvæmlega. Engar bólgubreytingar finnast í ristlinum og blóðprufur eru eðlilegar.
Talið er að iðraólga orsakist af starfrænni truflun sem stafar af auknu næmi taugaenda í meltingarvegi og/eða vegna truflunar í stjórnun miðtaugakerfisins á starfsemi meltingarvegarins (26). Þetta veldur því að hreyfingar ristils og spenna í sléttum vöðvum er ekki eðlileg. Sléttir vöðvar ristils hreyfast með ákveðinni bylgjuhreyfingu (e. peristaltic) til að færa hægðirnar áfram niður meltingarveginn. Ef þessar bylgjuhreyfingar eru ekki eðlilegar er hætta á að hægðirnar stoppi eða að ristillinn hleypi öllu innihaldinu beint niður.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að spenna í smágirni og ristli eykst við ákveðin áreiti eins og reiði, depurð og kvíða (21). Meltingarvegurinn getur því endurspeglað andlega líðan. Fleira kemur þó til sem truflar meltingarstarfsemina, það virðist sem sumir séu ofurnæmir fyrir ákveðinni fæðu. Feitmeti, sérstaklega feitar mjólkurafurðir, eru þekktir orsakavaldar fyrir að hleypa einkennum iðraólgu af stað (8). Aðrar fæðutegundir sem geta framkallað kast eru margar og mjög einstaklingsbundnar má þar nefna kornvörur, kaffi, te, léttvín, bjór, súkkulaði, lauk og sítrusávextir. Krydd og matur sem inniheldur MSG er einnig þekkt fyrir að valda óþægindum frá meltingarvegi (8).

Lekar garnir – “the leaky gut syndrome”
Heilkenni tengt lekum görnum hefur nýlega verið lýst en er enn nokkuð umdeilt. Kenningin á bak við þetta heilkenni er sú að garnir fari að hleypa í gegnum sig stærri sameindum en þær eiga að gera (8) .  Garnirnar eiga ekki að frásoga næringarefni fyrr en þau hafa verið brotin niður í mjög smáar sameindir. Ef  of stórar sameindir komast út í blóðrásina í of miklu magni þá getur það virkjað ónæmiskerfið. Þetta gæti verið skýringin á óljósri vanlíðan tengdri ákveðinni fæðuinntöku. Það fer ekki á milli mála ef að líkaminn er með ofnæmi fyrir einhverju, því að þá myndar ónæmiskerfið mjög kröftugt ónæmissvar, sem bæði er hægt að prófa fyrir og svo eru einkennin oft nokkuð augljós. En ef að alltof stórar fæðusameindir leka út í blóðrásina þá er ónæmiskerfið í stöðugri baráttu við þessar sameindir. Hefðbundin ofnæmispróf mæla ekki óþol, þannig er erfitt að finna út úr þessu nema með því að sneyða algjörlega hjá ákveðnum fæðutegundum um nokkurn tíma og setja viðkomandi fæðutegund svo aftur inn og sjá hvort að það hafi einhver áhrif á líðan. Oft er fólk með óþol fyrir fleiri en einni fæðutegund.


Vélindabakflæði
Vélindabakflæði er talið nokkuð algengur kvilli hjá fólki með langvinna verki (27,28). Algengustu óþægindi við vélindabakflæði eru brjóstsviði, nábítur og kyngingarörðugleikar. Önnur einkenni geta verið uppþemba, hæsi, þörf fyrir að ræskja sig og næturhósti, en öll þessi einkenni versna eftir máltíðir og við að beygja sig niður eða liggja útaf. Fæðutegundir sem auka sýrumyndun í maga auka á einkenni vélindabakflæðis og má þar nefna fæða sem inniheldur koffín, mikið kryddaðan og brasaðan mat (29) .