Hjarta- og æðakerfi


Einkenni frá hjarta- og æðakerfi

• Hraður hvíldarpúls
• Hjartsláttartruflanir
• Lágur blóðþrýstingur
• Brjóstverkur
• Kuldanæmi /Raynaud´s einkenni
• Mígren höfuðverkur
• Bjúgur


Ýmis einkenni sem tengjast hjarta- og æðakerfinu hrjá fólk með vefjagigt (32-34). Einkenni frá hjarta geta verið hraður hvíldarpúls, hjartsláttarköst og hjartsláttartruflanir meðal annars aukaslög. Þessi starfræna truflun verður m.a. vegna truflunar á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins (e. autonomic nervous system) (32-34). Einkennin geta verið viðvarandi eða komið í köstum.

Hraður hvíldarpúls er nokkuð algengur og hjá einstaka er hann allt of hraður (33). Eðlilegur hjartsláttur í algjörri hvíld er á bilinu 60-80 slög á mínútu, og jafnvel 45-50 slög á mínútu hjá vel þjálfuðum einstaklingi, en þegar hjartað slær að jafnaði 100 slög á mínútu eða meira þá er hjartað farið að vinna hraðar en það á að gera. Ég hef haft nokkra vefjagigtarsjúklinga sem hafa verið með meira en 130 slög á mínútu að staðaldri í hvíld og jafnvel í slökun. 

Hjartsláttartruflanir eru algengar í vefjagigt, en eru ekki hættulegar. Stundum koma hröð hjartsláttarköst án ástæðu, allt í einu fer hjartað á fullt og jafnvel með aukaslögum og það er eins og hjartað sé að slá út í brjóstkassann. Þetta getur gerst jafnt á nóttu sem degi og á nóttunni vekur það viðkomandi upp og þá er hann jafnvel í svitabaði. Sumir finna fyrir þessu eftir kolvetnisríkar máltíðir og getur þá tengst blóðsykursfalli (e. hypoglycemia) (35).

Blóðþrýstingur er mælist oft lágur hjá fólki með vefjagigt (34,35) en lágur blóðþrýstingur getur valdið svima og yfirliði, sérstaklega þegar staðið er snöggt upp. Þetta fyrirbæri er talið tengjast truflun er á starfsemi undirstúku-heiladinguls-nýrnahettu-öxuls ( e. hypothalamic-pituitary-adrenal axis).


Brjóstverkur
Brjóstverkir eru alltíðir hjá fólki með vefjagigt og skapa hræðslu hjá viðkomandi um að nú sé yfirvofandi kransæðastífla. Algengasta ástæða brjóstverkja eru virkir "trigger punktar" í stóra brjóstvöðvanum og/eða í litlum vöðva við bringubeinið (10). Eins er það nokkuð algengt að millirifjagigt valdi einkennum sem svipar mjög til hjartaverks. Millirifjagigt er það kallað þegar mikil spenna og eymsli verða í millirifjavöðvum, sem vill gjarnan gerast hjá kyrrsetufólki og er oftar til staðar vinstra megin eða hjarta megin. Ástæðan fyrir því er að rétthendir hreyfa meira hægri líkamshluta og þar með er meiri hreyfing á millirifjavöðvunum hægra megin, en ekki vinstra megin.
Vélindabakflæði og vöðvasamdráttur í vélinda eru aðrar ástæður brjóstverkja. Erfitt getur reynst að greina á milli "saklausra" orsaka brjóstverkja og hjartaverks vegna kransæðaþrengsla og er full ástæða að taka nýtilkomna brjóstverki alvarlega, sérstaklegan þegar verkirnir koma fram við áreynslu.
Í einstaka tilfelli geta brjóstverkir stafað af samdráttum í kransæðum vegna aukinnar virkni í ósjálfráða taugakerfinu.

Kuldanæmi
Fólk með gigt er almennt næmt fyrir kulda og veðrabrigðum. Margir telja sig versna af gigtareinkennum þegar veður kólnar og í umhleypingum.

Raynaud´s einkenni er það kallað þegar einn eða fleiri fingur hvítna eða jafnvel öll hendin og er einkenni sem fylgir mörgum gigtarsjúkdómum meðal annas vefjagigt (36). Til er Raynaud´s í tám og fótum, en það er mun sjaldgæfara. Raynaud´s einkenni koma yfirleitt fram við kulda og raka. Spasmi í slagæðum veldur blóðþurrð til viðkomandi svæðis. Fleiri einkenni eru vegna spasma í slagæðum m.a. mígren höfuðverkur og jafnvel einkenni frá meltingarvegi.

Mígren höfuðverkur
Mígreni er sérstök tegund höfuðverkja sem tengist truflun á starfsemi slagæða í höfði. Í kjölfars samdráttar í slægæðum í höfði verður snögg útvíkkun á þeim sem getur valdið miklum höfuð- og augnverkjum, ógleði, svima og jafnvel uppköstum. Algeng foreinkenni mígreniskasts eru sjóntruflanir.
Stór hluti vefjagigtarsjúklinga er með mígreni (44,45) og um 20% mígrenissjúklinga eru einnig haldnir vefjagigt (43). Vitað er um ýmsa þætti sem geta stuðlað að mígreniskasti má þar nefna andlegt og líkamlegt álag, tíðarblæðingar, áfengi og ýmsar fæðutegundir.
Meira um mígren höfuðverk er að finna á vefsíðunni http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=596

Bjúgur
Bjúgur eða þroti verður vegna óeðlilegrar uppsöfnunar vökva milli fruma í líkamanum. Bjúgur getur verið fylgikvilli ýmissa sjúkdóma m.a. í nýrum og hjarta. Bjúgur eða þroti getur þó komið á útlimi án þess að um undirliggjandi sjúkdóm í fyrrnefndum líffærum sé að ræða. Margir vefjagigtarsjúklingar finna fyrir bjúg eða þrota á höndum, fótum, fótleggjum og jafnvel í andliti. Það sem stuðlar að bjúgmyndun er þreyta, kyrrseta, tíðarblæðingar og neysla á ýmsum fæðutegundum. Saltaður og mikið kryddaður matur eykur vökvasöfnun.