Hvíld-Slökun- öndun

Regluleg slökun og hvíld getur hjálpað til við að draga úr mörgum einkennum vefjagigtar. Líkaminn þarf að hvílast til að safna orku og slökun er nauðsynleg til að draga úr virkni ósjálfráða taugakerfisins (e. autonomic nervous system). Áhrif djúpslökunar á starfsemi líkamans eru margvísleg m.a. dregur hún úr kvíða, þunglyndi og streitu, minnkar vöðvaspennu og verki.

Hvíld
Hvíldu þig, því hvíld er líkamanum nauðsynleg til að safna upp orku. Æskilegt er að hvíla daglega í 15-30 mínútur. Ekki er æskilegt að sofna því að það getur truflað nætursvefninn. 

Slökun
Slökun er andstæða streitu. Hún dregur úr vöðvaspennu, verkjum, kvíða, eykur viðnám gegn streitu, bætir einbeitingu, svefn og endurnærir líkamann. Margar slökunaraðferðir vinna bæði með líkama og huga saman. Þannig er verið að vinna með vöðvana samhliða djúpri öndun og einbeitingu hugans með það að markmiði að hægja á starfsemi líkamans, slaka á vöðvum, hvíla huga og sál. Hægt er að stunda slökun á margan hátt með einfaldri slökunartækni, með hugarsjón, með innhverfri íhugun og með bænum.
Til að ná tökum á slökun verður hún að vera stunduð að alúð daglega og helst oft á dag til að byrja með. Það sem skiptir máli er að ná tökum á slökuninni á þann hátt að geta hratt og örugglega komið sér í það ástand sem gefur líkama og huga hvíld og endurnæringu. Allir geta gert slökun að hluta af sínum lífsstíl. 
Til er lesefni um slökunaraðferðir, geisladiskar með slökunaraðferðum og/eða með rólegri slökunar- tónlist.

Öndun
Grunnur að góðri slökun er öndun. Öndun er stýrt af ósjálfráða taugakerfinu (e. autonomic nervous system) en við getum samt haft meðvituð áhrif á hana. Streita veldur því að öndun verður grynnri og hraðari, en þá er einungis lítill hluti lungnanna notaður. Því dýpra sem maður andar að sér því meira af lofti kemst í samband við blóðið og mettar það súrefni. Til að frumur líkamans geti starfað þá þurfa þær súrefni og sumar frumur eins og t.d. heila- og taugafrumur eru mjög viðkvæmar fyrir súrefnisskorti. Ef að öndunin er grunn þá kemst einungis lítið magn af súrefni í sambandi við blóðið og til að tryggja nægilegt súrefnismagn til blóðsins, þá bregst líkaminn við með því að hraða önduninni. Þessi hraða öndun viðheldur spennu og streitu í líkamanum. En með því að staldra aðeins við og ná stjórn á önduninni, dýpka  og hægja á henni, getur maður dregið úr streituviðbrögðum líkamans.

Aðal öndunarvöðvinn er þindin, en hún einskonar vöðvaskál sem skilur að brjóstholið og kviðarholið. Fleiri vöðvar hjálpa til við öndun eins og millirifjavöðvar og vöðvar sem tengjast brjóstkassanum frá hálsi. Öndunarvöðvarnir hafa það hlutverk að stækka brjóstkassann til að lungun geti aukið rúmmál sitt sem mest. Þindin þreytist ekki en aðrir öndunarvöðvar geta hæglega þreyst við mikið álag og orðið spenntir og aumir.

Heilbrigð og eðlileg öndun er grunnur að góðri heilsu og grundvöllur þess að ná tökum á slökun og streitustjórnun. Gefa verður sér tíma daglega og helst oft á dag til að leiðrétta öndunina. Þindaröndun er hægt að æfa hvar og hvenær sem er, sitjandi, standandi, í bílnum, í vinnunni o.s.frv.. En gæta verður þess að axlir séu slakar og að þindin sjái að mestu um öndunarhreyfingarnar. Með æfingunni verður róleg og afslöppuð þindaröndun ómeðvituð.