Algengi

Niðurstöður rannsókna á algengi* (e. prevalence) vefjagigtar víða um veröld eru mismunandi. Talið hefur verið að vefjagigt hrjái 2 - 13 % fólks á hverjum tíma (1-5).Líklega er það of há tala því yfirlitsgrein frá 2006 reiknar með að algengi vefjagigtar sé á bilinu 0,66% - 4,4%, en höfundarnir skoðuðu 30 rannsóknargreinar sem uppfylltu skilyrði um greiningu á vefjagigt í þýði (6).

Vefjagigt finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið a.m.k. 3 - 4 konur á móti einum karli (6). Sjúkdómurinn er þekktur í öllum aldurshópum og er algengastur hjá konum á miðjum aldri, en börn, unglingar og aldraðir geta líka fengið vefjagigt. Fáar og ófullnægjandi rannsóknir eru til um algengi vefjagigtar meðal barna og unglinga (1). 

Vefjagigt greinist í öllum þjóðfélagshópum, en er þó algengari meðal fátækra þjóðfélagshópa, innflytjenda og þeirra sem eru illa staddir félagslega (7). Vefjagigt er m.a. nokkuð algeng meðal Amish fólks eða hjá um 7% fullorðinna (8). Þetta er forvitnileg niðurstaða þar sem vefjagigt hefur af sumum verið tengd við nútíma lífstíl, streitu og álagi sem Amish fólk sneiðir hjá. 

Ein rannsókn hefur verið gerð til að meta algengi vefjagigtar og langvinnra útbreiddra verkja á Íslandi (9). Niðurstaða þeirrar rannsóknar bendir til að algengi vefjagigtar sé mjög hátt hér á landi eða 9,8% hjá konum og 1,3% hjá körlum. Algengi langvinnra útbreiddra verkja reyndist vera 26,9% hjá konum  og 12,9% hjá körlum. Heildarsvörun rannsóknarinnar var einungis 53,4% sem takmarkar ályktunarhæfni á niðurstöðum rannsóknarinnar. Samkvæmt þessum rannsóknarniðurstöðum þá gætu yfir 20 þúsund einstaklingar, á aldrinum 18-79 ára, verið haldnir vefjagigt hér á landi. 

*Algengi (e. prevalence) sjúkdóma segir til um hversu margir einstaklingar eru haldnir sjúkdómi á hverjum tímapunkti, en tíðni (e. incidence) sjúkdómstilfella segir til um hversu margir einstaklingar eru greindir með sjúkdóminn ár hvert.