Sveppasýkingar


Sveppasýkingar

Gersveppir eru hluti af eðlilegri flóru slímhúðar m.a. í munni, þörmum og í leggöngum. En gersveppir eru tækifærissinnar og fjölga sér hratt ef að skilyrði fyrir vöxt aukast. Sykursýki, ónæmisbælandi sjúkdómar og notkun breiðvirkra sýklalyfja, steralyfja og mikil neysla á sykri er talin geta stuðlað að sveppasýkingu (51). Yfirleitt eru sveppasýkingar staðbundnar og geta þær verið í munni, leggöngum, hársverði, fótum, tám og í meltingarvegi. En í sjúkdómum þar sem ónæmisbæling er til staðar getur sveppasýking komist á útbreiddara stig og lagst á mörg líffærakerfi líkamans (35,51).

Einkenni útbreiddrar sveppasýkingar af völdum gersvepps af tegundinni candida albicans svipar um margt til einkenna vefjagigtar og síþreytu og eru sumir sérfræðingar á því að tengsl séu á milli gersveppasýkingar og vefjagigtar (50). Engar haldbærar rannsóknir eru til um tengsl sveppasýkingar og vefjagigtar, því er ekki er vitað hvort að sveppsýking geti átt þátt í orsakaferli vefjagigtar. Til eru margar frásagnir af einstaklingum sem hafa lagast mikið af vefjagigtareinkennum við meðferð gegn sveppasýkingu og margar sjálfshjálparbækur fyrir fólk með vefjagigt og síþreytu leggja mikið upp úr meðferð við sveppasýkingum.
 


Helstu einkenni sem hafa verið tengd við langvinna sveppsýkingu af völdum candida albicans eru:
• Þreyta
• Særindi í hálsi
• Ennis- og kinnholusýkingar
• Höfuðverkur
• Minnisleysi og einbeitingarskortur
• Iðraólga/órólegur ristill
• Svimi
• Kláði í húð, leggöngum, eyrum
• Særindi í augum