Spurt og svarað

Er 17 ára með vefjagigt og vantar smá hjálp!!

Halló, já ég ætla byrja hérna með smá "pistil"

Þannig er mál með vexti að ég var að komast að því fyrir nokkrum dögum að ég væri með vefjagigt. Ég er 17 ára gömul og búin að vera með verki síðan ég var 12 ára og var það "dáldið mjööööög mikill léttir" að fá að vita við hvað maður er að kljást við en ekki bara að maður sé að ljúga eða þetta sé bara í hausnum á manni. Og það sem ég er mest að pæla í er það að mér var bannað að vinna eða gera nokkurn skapaðan hlut (af læknum).

Hvernig væri best fyrir mig að reyna að vinna mig upp aftur? Því ég vil meira en allt gera til að verða sem "venjulegust’". Svo sagði góð kona mér að margir í dag væru t.d öryrkjar í dag útaf þessu, sem mig langar alls ekki því ég er að læra.  Mig langar  svo að verða hjúkrunarfæðingur því að mig langar að hjálpa fólki!

Svo hvaða ráð hefurðu fyrir mig?

Hvert er best að leita og þannig ( er hjá geðlæknir og sálfræðingi og er í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð) ?

Vona ég fái svar - Takk fyrir mig. 


Sæl 

Og ég svara þér með öðrum pistli grin, sem gæti verið æðilangur ef að ég ætti að gefa þér ráð við öllum þínum vandamálum. 

Þá er bara að byrja: 

Ungur aldur þinn vinnur með þér þ.e. ef að þér tekst að aðlaga líf þitt að vefjagigtinni .

Ekki hugsa um þig sem fórnarlamb sjúkdómsins, vefjagigt er ekki það versta sem yfir mann getur dunið.

Það sem að þú ert að gera nú þegar það er að vera í meðferð hjá geðlækni, sálfræðingi og í höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun er gott innlegg í meðferð við vefjagigt  en þú þarft að bæta fleiru við og má þar nefna eftirfarandi :

Að einn meðferðaraðili t.d. heimilislæknir þinn eða geðlæknir haldi utan um meðferðina og fylgi henni eftir m.a. með tilliti til lyfjameðferðar. Það eru til nokkur lyf sem að hafa reynst vel í meðferð við vefjagigt.

Að þú tileinkir þér svefnbætandi aðgerðir og fáir hjálp við svefntruflunum með lyfjum ef með þarf.

Að þú stundir reglulega þjálfun og undir eftirliti sjúkraþjálfara til að byrja með.

Að fá meðferð við stoðkerfiskvillum hjá sjúkraþjálfara sem þekkir til vefjagigtar.

Að þú stundir slökun daglega eða jafnvel oft á dag í stutta stund og dragir úr streituþáttum úr lífi þínu.

Að þú passir upp á að borða reglulega 5 sinnum á dag og það sem hollasta fæðu. Forðastu t.d. sætindi, kaffein, aukaefni í mat, og að borða mikið að brauði eða öðrum hröðum kolvetnum. Taktu vel eftir hvernig þér líður af mat og sneiddu hjá þeim fæðutegundum sem fara illa í þig t.d. eikenni eins og aukin þreyta, magaverkir, að hjartsláttur eykst eða að þú fáir höfuðverk.

Bætiefni eins og omega 3 og 6 fitusýrur, lýsi,  D vítamín og magnesíum er góð viðbót.

Ef að þú reykir hættu þá strax.

Hafðu í huga að góðar breytingar gerast hægt, ætlaðu þér því ekki um of til að byrja með. Settu þér markmið sem að þú ræður við. Reyndu að sækja stuðning og aðhald hjá fólkinu í kringum þig og þínum meðferðaraðilum. Haltu ótrauð áfram með það markmið þitt að læra hjúkrun eða annað. Að vera í námi og að vinna úti hjálpar til við að draga úr einkennum vefjagigtar þ.e. dregur hugann frá verkjum og vanlíðan, eflir sjálfstraust, eykur virkni og styrkir þig félagslega.

Gangi þér vel,
Sigrún Baldursdóttir

Til baka