Reynslusögur

Þér á eftir að líða betur – sagði hún – og núna þá er ég í bata. Takk fyrir það.........

Þessa sögu skrifaði ég fyrir 10 árum, en henni sagði ég frá á samnorrænni gigtarráðstefnu RHEUMA sem haldin var hér í Reykjavík 1997. Að beiðni Sigrúnar Baldursdóttur sjúkraþjálfara míns til margra ára deili ég þessari reynslusögu minni á www.vefjagigt.is .

Fyrir um tveimur árum þá 18 ára var ég fyrst greind með vefjagigt, en ég held nú samt að ég hafi verið haldin þessum sjúkdómi frá barnsaldri. Þrátt fyrir ungan aldur þá á ég að baki langa sjúkrasögu og má þar nefna að ég hef verið með óþægindi og sýkingar í þvagblöðru frá 5 ára aldri. Ég var (og er) mikill hrakfallabálkur, átti erfitt með að standa í fæturna, var dettin og í gegnum árin hef ég endurtekið beinbrotnað. Afleiðing þessara óhappa var að ég þjáðist af langvinnum verkjum meðal annars í baki og í handleggjum og var því send til sjúkraþjálfara og í gegnum tíðina hef ég verið hjá þeim nokkrum. Ég var síðan fyrir þeirri hræðilegu reynslu að kærasti minn fyrirfór sér, sem ég er enn að jafna mig á.

Fyrir nokkrum árum fór ég að finna fyrir miklum kviðverkjum. Ég var að endingu lögð inn á spítala þar sem ég gekk í gegnum allar hugsanlegar rannsóknir en niðurstöður þeirra gáfu engar skýringar.
En vanlíðan mín jókst verulega eftir bílslys og líkamsárás sem ég varð fyrir. Mér fór að ganga illa í skóla, ég gat einfaldlega ekki einbeitt mér að neinu og mér leið oft eins og ég væri að sjá skólabækurnar mínar í fyrsta sinn. Á þessum tíma fór ég að gnísta tönnum svo mikið að það brotnað upp úr 5 eða 6 þeirra. Mér leið orðið hræðilega, svefninn var verulega truflaður og ég var með stöðuga vöðvakippi um allan líkamann.

Eftir að hafa gengið á milli lækna hitti ég að endingu einn sem greindi mig með vefjagigt. Að fá greiningu var á vissan hátt léttir, að fá að vita að það sem að mér gekk var ekki ímyndun og ekki bara eitthvað geðrænt ( sem ég hafði fengið að heyra oftar en einu sinni), en að fá vefjagigtargreininguna var líka mikið áfall fyrir mig. Á þessari stundu ákvað ég að takast á við sjúkdóminn og gera allt sem í mínu valdi stóð til að endurheimta heilsu mína. Í fyrsta sinn fór ég með þetta hugarfar, að fara að vinna í sjálfri mér fyrir sjálfa mig, á fund sjúkraþjálfa. Sem betur fer annars hefði ég gefist upp, því að heilir sex mánuðir liðu áður en að ég fór að finna fyrir bata. Sjúkraþjálfarinn minn fékk mig til að taka 2ja mánaða frí frá vinnu þannig að ég gæti gefið mig betur að meðferðinni þ.e. hvílt mig og æft reglulega. Á sama tíma byrjaði ég að taka inn amilín til að bæta svefninn.

Þegar ég hitti sjúkraþjálfarann minn fyrst þá var öll húð mín stíf og spennt og andlit mitt svo stíft að það var eins og steypuklumpur. Ég var undirlögð af vöðvabólgu, liðir stirðir jafnvel svo að hreyfingar þeirra voru skertar. Þegar sjúkraþjálfarinn minn fór að losa um allan stífleikann í húðinni, bandvefnum og vöðvunum og liðka upp á mér stífu liðina, þá hrundi ég og mér leið verr um tíma. En um síðir þá fór að létta til og mér fór að líða smám saman betur og betur.
Síðan þá hef ég lent í tveimur bílslysum og fleiri óhöppum. Ég er greinilega enn jafn óstöðug á fótum og á yngri árum, en er að vinna í því. Mér líður reyndar miklu betur en fyrir tveimur árum. Ég hef breytt mörgu meðal annars mataræði mínu, en ég reyni að halda mig frá fæðutegundum sem innihalda mikinn sykur og/eða ger, en viðurkenni þó að falla einstöku sinnum.

Stundum fell ég í þá gryfju að nenna þessu ekki en ég held áfram að reyna að ná mér milli þess sem ég verð fyrir einhverju slysi eða öðru óhappi. Ég tel mig heppna að hafa hitt sjúkraþjálfara sem hefur þekkingu á vefjagigt, hún er alltaf til staðar og hvetur mig áfram í baráttunni einkum þegar vonleysið hrynur yfir mig. 

Þér á eftir að líða betur – sagði hún – og núna þá er ég í bata. Takk fyrir það.........

Ég veit að ég á langt í land, ég þarf að taka 100 mg af amilíni til að sofa, minni mitt er enn mjög dapurt, en ég hef í huga að það styttir alltaf upp um síðir og aftur sér til sólar.

Ég veit líka að ég á aldrei eftir að ná fullri heilsu – því miður.
Þó að mér finnist það dálítið hart þá hugga ég mig við það að það eru ýmsir sem þjást meira en ég og hver veit nema að þessi veikindi mín styrki mig og þroski og geri mig jafnvel að betri manneskju.

F.F.

06.11.2007 | Reynslusögur

Til baka