Vefjagigt


Fréttir

“ Við erum það sem við endurtökum. Afrek eru því ekki athafnir heldur venjur.”

Þennan pistil skrifaði ég fyrir tveimur árum og finnst hann eiga svo vel við þegar lagt er af stað inn í nýtt ár. Ég held áfram að skrifa mína lífsbók og  ætla að leggja mitt að mörkum að næsti kafli þ.e. 2018 verði skemmtilegur, spennandi, árangursríkur og ekki síst hamingjuríkur. Auðvitað læðast inn erfiðir og daprir kaflar en þannig er lífið það er kryddað með alls konar kryddum.  

Mín saga - bókin sem allri skrifa

Mig langar –Ég ætla – Ég skal – Ég get

Ég er í þessum ham þessa dagana, held reyndar að ég hafi verið í svona ham oft yfir ævina.
Ég er að skrifa mína sögu.
Ég er sögumaðurinn.
Ég ræð þó ekki alveg framgangi sögunnar og verð bara að vera auðmjúk gagnvart þeirri staðreynd. En ég reyni að öllum mætti að skrifa mína sögu.
Kaflarnir í bókinni minni eru orðnir bísna margir og ég vona að ég eigi eftir að skrifa marga nýja og skemmtilega kafla. Ég veit þó að þeir óskrifuðu eru færri en þeir sem  ég er búin með – það er augljós staðreynd.

Að glíma við erfiðleika og sjúkdóma er það sem litar  lífssögu margra og það er stór áskorun og oft erfið.  Margir sjúkdómar búa í genum okkar og við ráðum engu um þau.  En við getum svo miklu breytt varðandi gang mála og þar liggja tækifærin.  Erfiðleikar og sjúkdómar eru áskoranir og geta gefið lífinu enn meiri tilgang, styrkt mann og hert. Að sigrast á erfiðum verkefnum  gefur manni gleði, ánægju og lífsfyllingu.

Starf mitt er risastór áskorun. Hvern einasta dag þarf ég að sannfæra fólk og gefa því trú um að það sé til betra líf með vefjagigt. Og trúið mér það er ekki auðvelt!! Ég reyni að fá fólk til að skrifa nýja kafla í lífsbókina sína, kafla sem fela í sér markmið, athafnir sem verða að venjum sem að endingu leiða til stórra sem smárra sigra. Það geta allir verið sigurvegarar í sínu lífi, maður þarf bara að vita hvað maður vill og getur. Óraunhæf markmið gera mann óhamingjusaman því að þá er maður alltaf tapari. Hamingjan er það sem við sækjumst eftir og í raun er hægt að fullyrða að það að vera hamingjusamur einstaklingur sé ákvörðun.

Mér verður stundum hugsað til þess þegar ég hitti vin minn sem átti langveikt barnabarn, en ég vissi þá að einn mesti sérfræðingur í þessum sjúkdómi hefði komið til landsins og öll fjölskyldan batt miklar vonir við að hann gæti gert kraftaverk á litlu stúlkunni.  Svar vinar míns við spurningu minni var “ Já hann hjálpaði okkur rosalega mikið en ekki á þann hátt sem við bjuggumst við. Hann hjálpaði okkur að finna hamingjuna með því að setja  hamingjuna upp í þríliðu þ.e. raunstaða deilt með væntingum og útkoman er x mikil hamingja. Nú skoðum við dag hvern raunstöðuna og  væntingar okkar eru í takt við það og útkoman er góð, við gleðjumst yfir öllum litlu smáatriðunum, njótum hvers dags sem við fáum að hafa litlu stúlkuna hjá okkur. Við erum hætt að bera hennar líf saman við það líf sem börn á hennar aldri lifa og það hjálpar.”  Sumum finnst þetta  fáránleg afstaða og óraunhæf leið en að taka bestu afstöðuna, bestu ákvörðunina sem er í takt við raunstöðu það hjálpar.

Við verðum að vera auðmjúk gagnvart því sem við getum ekki breytt en jafnframt áköf í að breyta því til batnaðar sem hægt er að breyta. Skref fyrir skref þarf að innleiða góða hluti inn í líf sitt og kallinn hann Aristoteles hitti sko naglann á höfuðið þegar hann ritaði eftirfarandi:

“ Við erum það sem við endurtökum. Afrek eru því ekki athafnir heldur venjur.”

 

Já gerið góðu hlutina að venjum  - Gangi ykkur vel að skrifa ykkar lífsbók

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari, MTc, MPH

Til baka