Spurt og svarað

Vöðvakippir

Spurning: 
Er með vefjagigt og finn fyrir einkennum eins og vöðvakippum sem koma þegar ég er í slökun og sérstaklega þegar ég er að sofna. Þessir kippir vara alla nóttina og er mjög óþægilegt að vera nálægt mér á meðan þessu stendur. Hefur farið versnandi. Eru þessir kippir fylgifiskur gigtarinnar eða eitthvað annað og hvað er til ráða? 

Sæl/l 
Ósjálfráðir vöðvakippir eru eitt af einkennum vefjagigtar og er ein birtingarmynd truflunar í stjórnun taugakerfisins. Ég myndi mæla með að þú byrjaðir á að taka inn reglulega magnesíum (sem að hjálpar til að ná slökun í vöðvafrumur) og taka það bæði kvölds og morgna. Forðastu allt kofffein, guarana og sykurrík matvæli.Til viðbótar er gott ráð að stunda reglulega slökun og/eða hugleiðslu. 

Ef viðunandi árangur næst ekki með þessum aðgerðum haldu þá áfram leitinni og hugsanlega gæti lyf eins og Lyrica hjálpað eitthvað. Lyrirca er flogaveikislyf sem að notað er í meðferð við vefjagigt. Flogaveiki einkennist af tímabundinni of mikilli rafspennu í taugavef sem flogaveikislyf draga úr eða hemja. Í vefjagigt er örlítið aukin virkni í rafboðum, samt ekki nálægt því sem gerist í flogaveiki. Engu að síður virðast þessi stillandi áhrif sumra flogaveikislyfja geta haft jákvæð áhrif í vefjagigt. 

Gangi þér vel, Sigrún Baldursdóttir

Til baka