Spurt og svarað

Afleiðingar hálsáverka?

Spurning: 
Ég lenti í aftanákeyrslu erlendis 1997 og var marga mánuði að ná mér, aftur var ekið aftan á mig hérlendis 1998 og var lengi að ná mér. 
Allavega líkamleg einkenni komu upp og hef ég ekki verið söm síðan, hef gert ýmislegt gott til að ná mér upp líkamlega en allt of lítið er gert úr afleiðingum aftanákeyrslna. Fékk síðan að vita að ég færi með vefjagigt rúmlega yfir meðallagi og það var óskemmtileg niðurstaða. Fyrir rúmum tveimur árum minnkaði allt í einu sjónin hjá mér og hefði ég þurft að hætta að vinna o.s.frv. en síðan lagaðist hún, enginn veit hvers vegna. Sjónin hefursíðan staðið í stað sí. Niðurstaðan var að þetta væri hrörnun í augnbotnum.

Það sem mig langar að heyra er það hvort ekki geti verið að ég sé að fá þennan augnsjúkdóm sem afleiðingu af þessum aftanákeyrslum? 
Ég spyr því að ef maður getur fengið vefjagigt sem afleiðing af þeim þá er hitt líklegt ekki satt? Talað er um súrefnisskort í höfði, blóðstreymisvandræði, eðlilega þegar tognar svo mikið á hálsinum að allt stífnar og nær sér aldrei? 


Sæl
Einkenni fá augum eins og augnþurrkur, sjóntruflanir, ljósfælni og breytt sjón eru vel þekkt í vefjagigtinni, en ég hef aldrei heyrt eða séð skrifað um að hrörnun í augnbotnum geti verið afleiðing þessa sjúkdóms. 
Sjón vefjagigtarsjúklinga getur breyst og lagast svo aftur, en líkleg ástæða fyrir því er að spenna í augnvöðvum hafi áhrif á sjónina. 
Tengsl vefjagigtar og slæmra áverka á hálsi hafa fengist staðfest með rannsóknum og virðist sem að áverkar á taugakerfi séu líklegri orsakavaldar en aðrir áverkar t.d. beinbrot. Mikilvægt er eftir hálsáverka að fá hjálp frá sjúkraþjálfara til að meðhöndla stirðleika í hálsliðum og baki, að bæta stöðugleika ofhreyfanlegra liða (sem hafa tognað) og til að kenna rétta líkamstöðu, vinnu- og hvíldarstöður. Til að draga úr afleiðingum hálsáverka er mjög mikilvægt að æfa reglulega og halda stoðkerfinu í sem bestu ástandi. 

Gangi þér vel, 
Sigrún Baldursdóttir 

19.07.2007 | Spurt og svarað
 

Til baka