Vefjagigt


Fréttir

Tíðahvörf og vefjagigt

Tíðahvörf nefnist það þegar konur hætta að hafa blæðingar, þegar eggjastokkarnir hætta að mynda kynhormón, en breytingaskeið nefnist nokkurra ára tímabil fyrir og eftir tíðahvörf. Breytingaskeið kvenna er eðlilegur gangur náttúrunnar sem allar konur ganga í gegnum á ákveðnum aldri. Algengast er að þetta tímabil sé á aldursbilinu 45 til 55 ára, en það getur byrjað fyrr eða seinna. Mjög einstaklingsbundið er hversu mikil áhrif breytingaskeiðið hefur á líðan kvenna, en flestar finna fyrir aukinni þreytu, svefntruflunum, leiða og kvíða.

Nokkuð algengt er að konur séu greindar með vefjagigt í upphafi breytingaskeiðs, en líklega hefur minnkandi framleiðsla á östrogeni þar einhver áhrif. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að konur með vefjagigt eru verri af sjúkdómseinkennum sínum á þessu tímabili. Í rannsókn Pamuk og Cakir (2005) taldi 25% kvennanna með vefjagigt einkenni sjúkdómsins hafa byrjað á breytingaskeiðinu og 26,4% þeirra að sjúkdómseinkenni sem þær höfðu fyrir breytingaskeiðið hefðu versnað á því tímabili. 

Einkenni
Minnkandi framleiðsla kynhormóna veldur ýmsum breytingum á starfsemi líkamans, blæðingar verða óreglulegar, oft minni en geta einnig aukist. Auknar blæðingar geta leitt til blóðleysis sem lýsir sér sem þreyta og magnleysi. Minnkuð framleiðsla á östrogenhormóni veldur meðal annars hitaköstum og svitakófi, þurrki í slímhúð leggangna, breytingum á húð og hári. 

Eftirfarandi eru algeng einkenni breytingaskeiðs:
• Svitakóf
• Nætursviti
• Depurð/þunglyndi
• Skapsveiflur
• Þurr húð og þurrt hár
• Aukinn hárvöxtur í andliti
• Kvíði
• Svefntruflanir
• Þyngdaraukning
• Þurrkur í slímhúð leggangna
• Minnkuð kynhvöt og ánægja af kynlífi 

Reglulegur tíðahringur með mánaðarlegri hækkun á östrogeni ver konuna fyrir ákveðnum hjartasjúkdómum og beinþynningu. Eftir tíðahvörf er konum því hættara við þessum sjúkdómum og er því mikilvægt að sporna við framgangi þessara sjúkdóma með mataræði og góðum lífstíl. 

Meðferð
Flestir eru sammála um að breytingaskeiðið er erfitt tímabil, tímabil þreytu, pirrings, svefnleysis, vanmáttarkenndar. Hægt er að kenna minnkaðri hormónaframleiðslu um hluta einkenna, en hluta orsakanna er að leita í félagslegum þáttum sem fylgja þessu æviskeiði.

Tíðahvörf eru upphaf að nýju tímabili æviskeiðsins, 30-40 ára tímabili (stundum enn lengra tímabili), sem vert er að nýta sér til gagns og ánægju. Flestar konur hafa á þessum tíma orðið meiri tíma fyrir sjálfa sig, tíma til að bæta andlega og líkamlega vellíðan.
Með bættum lífstíl má draga verulega úr einkennum breytingaskeiðsins. Passa verður vel upp á að fá næga hvíld og nægan svefn, að hreyfa sig daglega sér til ánægju og heilsubótar, að hugsa vel um mataræðið meðal annars inntöku á kalki, D-vítamíni og járni. Mikilvægt er að huga andlegum og félagslegum þáttum, að halda áfram að vera virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, að halda sambandi við vini og kunningja o.s.frv..

Ef einkenni breytingaskeiðsins hafa verulega truflandi áhrif á líf og líðan konunnar og einfaldar ráðleggingar duga ekki þá er mikilvægt að leita læknishjálpar. Sumar konur velja að fara á hormónameðferð til að draga úr einkennum, einnig þarf oft að hjálpa með lyfjum til að bæta svefn, draga úr þunglyndi, kvíða og svitaköstum.

Æviskeiðið eftir tíðahvörf er þriðjungur og jafnvel helmingur ævinnar. Mikilvægt er að horfa til tækifæra þess tíma – möguleikarnir eru óþrjótandi.

Heimildir 

Eichling PS, Sahni J (2005). Menopause related sleep disorders. J Clin Sleep Med.;1(3):291-300.

Nýi kvennafræðarinn. Handbók fyrir konur á öllum aldri (1981). Reykjavík: Mál og Menning.

Pamuk ON, Cakir N (2005) . The variation in chronic widespread pain and other symptoms in fibromyalgia patients. The effects of menses and menopause. Clin Exp Rheumatol.;23(6):778-82.

Wilbur J, Shaver J, Kogan J, Buntin M, Wang E (2006). Menopausal transition symptoms in midlife women living with fibromyalgia and chronic fatigue. Health Care Women Int.;27(7):600-14.

21.05.2008 | Pistlar/fréttir - Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari, MTc, MPH

Til baka