Vefjagigt


Fréttir

Nýtt - Vefjagigt staðfest með blóðrannsókn

Hingað til þá hefur vefjagigt  verið greind með klínísku mati þ.e. sögu, spurningalistum og með kvikupunktaprófi (ACR1990 greiningarferli). Þó að þessi greiningaraðferð hafi reynst mjög góð þá hefur verið ákall um hlutlæga aðferð til að greina vefjagigt, það að hægt sé að staðfesta sjúkdóminn með blóðprufu eða annarri hlutlægri rannsóknaraðferð. Það eru, því miður,  enn nokkrir sem efast um tilurð vefjagigtar einvörðungu út af því að ekki hefur tekist að greina meinið með hefðbundum rannsóknaraðferðum. Þó hefur verið sýnt fram á sjúkleika og truflun í ýmsum líffærakerfum með rannsóknaraðferðum sem ekki er hægt að nota í klínik, má þar vefna röng hlutföll í taugaboðefnum í heila- og mænuvökva, skert blóðfæði í heila (SPECT), aukin virkni í verkjakerfi heilans ( F-MRI), truflun í ósjálfráða taugakerfinu (ANS).

Ítrekað hefur verið reynt að finna þætti í blóði sem eru sértækir fyrir vefjagigt og á síðust 3 árum hefur verið þróað blóðpróf sem talið er að geti staðfest vefjagigt með 99% vissu. 

Blóðprófið (FM/a® ) er byggt upp á mælingum á próteinum í blóði sem nefnast frumuboðar ( e. cytokine) og flakkboðar (e. chemokine) en hvít blóðkorn seita þessum próteinum og eru þau hluti af varnarkerfi líkamans. Fólk með vefjagigt mælist með minna magn af þessum efnum heldur en heilbrigðir og fólk með aðra gigtarsjúkdóma eins og iktsýki, rauða úlfa eða sóragigt.

Aðferðarfræði FM/a®  blóðprófsins er byggð á þekkingu sem hefur verið í þróun síðustu 10 árin um vægar cytokine og chemokine breytingar í fólki með vefjagigt, og hafa þessar mælingar meðal annars verið gerðar í rannsókn sem var gerð í Þraut 2012 (Mat á lífeðlisfræðilegri svörun hjá vefjagigtarsjúklingurm við væga líkamlega áreynslu

Fólk með vefjagigt er með  truflun í ónæmiskerfinu - þeirra kerfi er veikara en heilbrigðra og fólks með aðra gigtarsjúkdóma. Í vefjagigt eru ekki merki um gigtarþætti í blóði sem valda bólgusvörun í vefjum sem er grunnþáttur í meingerð annarra gigtarsjúkdóma.

EpicGenics kynntu þetta blóðpróf fyrst 2013 og  töldu það þá 93% markvisst en nú er prófið talið hafa 99%  sértækni fyrir vefjagigt.

Farið er að bjóða upp á þetta blóðpróf í Bandaríkjunum en ekki í öðrum löndum svo að vitað sé.

ACR1990 greininaraðferðin er sú greiningaraðferð sem er enn notuð til að greina vefjagigt og hefur góða sértækni fyrir vefjagigt en auðvitað er krafan um sannanlegan vefrænan þátt í vefjagigt undirliggjandi svona prófi og líklegt að það verði notað  þegar það kemur á almennan markað.


Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari MT'c, MPH.

 

Heimildir

1. http://www.healthist.co/2016/01/24/new-blood-test-for-fibromyalgia-is-99-accurate-everyone-must-know-advanced-mold-remediation/ -sótt 28. febrúar 2016

2. https://thefibromyalgiatest.com/?page_id=1402- sótt 28. febrúar 2016

3. Wallace DJ, Gavin IM, Karpenko O, Barkhordar F, Gillis BS. Cytokine and chemokine profiles in fibromyalgia, rheumatoid arthritis and systemic lupus erythematosus: a potentially useful tool in differential diagnosis. Rheumatol Int. 2015 Jun;35(6):991-6. doi: 10.1007/s00296-014-3172-2. Epub 2014 Nov 7.

4. Hildur Þóra Franklín, Arnór Víkingsson. Mat á lífeðlisfræðilegri svörun hjá vefjagigtarsjúklingum við væga líkamlega áreynslu: Samanburðarrannsókn.

Til baka