Vefjagigt


Fréttir

Mataræði og vefjagigt?

Nýjasta æðið  hér á landi er lágkolvetna mataræði og líklega er óhætt að segja að fáar tegundir af mataræði hafa fengið jafnmikla umfjöllun og lágkolvetna mataræði hér á landi  á síðustu misserum. En það er margt sem bendir til að lágkolvetna mataræði henti þeim sem þurfa að létta sig. Hvort lágkolvetna mataræði sé  besta mataræði fyrir fólk með vefjagigt get ég ekki fullyrt um þar sem engar vísindarannsóknir liggja fyrir.

En getur mataræði bætt heilsu fólks með vefjagigt?

Svarið við því er JÁ eins og bætt  mataræði getur haft áhrif á heilsu allra sem glíma við heilsubrest.

Hvað á fólk með vefjagigt að borða og hvað á það að forðast í mataræði?

Þessari spuringu er aðeins erfiðara að svara og ekki er til nein ein uppskrift sem hæfir öllum. En almennt gildir að fólk með vefjagigt verður að gæta vel að næringarinnhaldi í fæðu sem það neytir. 

Ég horfði á  þáttinn  “Í garðinum með Gurrý” og þar var Gurrý að tala við konu sem ræktar orma og hún hafði kortlagt mjög ítarlega næringarþarfir ormanna og talaði meðal annars um mismunandi gæði kalks. Hún gefur sínum ormum bara náttúrulegt gæðakalk úr eggjaskurn. Og í sama þætti ræddi Gurrý við túnþökubónda  sem var með næringarþörf grastegunda og plantna á hreinu og hvaða næringu þyrfti að gefa ef plönturnar sýndu fram á skort. Ástæðan fyrir þessu innslagi er að við hugsum mun betur um næringu dýra, meira að segja orma, heldur en um eigin næringu. Ef að hundurinn á heimilinu fær exem eða kláða þá er strax farið að skoða, breyta og bæta fóðrið. Bændur passa vel upp á að húsdýrin fái sölt, omega fitusýrur og hvaðeina sem þau þarfnast. En börnin okkar fá að drekka gosdrykki, borða bland í poka í öllum regnbogans litum, jógúrt með 10 - 15 sykurmolum í, djúsa, snúða, pítsur, pylsur, sósur…. allt stútfullt af efnum sem við höfum ekki hugmynd um hvaða áhrif hafa á starfsemi líkamans. Og á sama tíma þyngist og þyngist þjóðin, tíðni ýmissa sjúkdóma eykst og sterkar vísbendingar eru um að einhver tengsl séu þar á milli. Ég heyrði um daginn í útvarpi viðtal við næringarfræðing sem sagði að við værum að neyta yfir 100 þúsund efna í fæðu okkar og hefðum í mörgum tilvikum litla þekkingu á áhrifum þeirra á líkamann. “Sel það samt ekki dýrara en ég keypti.”

Já næring hefur áhrif á heilsu okkar mannfólksins eins og það hefur á allar lífverur.

Við þurfum að vanda næringuna og hlusta á líkamann, það er hvort að honum líður vel af henni eða ekki. Til þess þarf að einfalda mataræðið og forðast fæðutegundir sem að eru næringasnauðar og innihalda mikið af aukaefnum – sá listi er langur og því er betra að beina augunum að fæðu sem inniheldur góða næringu.  Lágkolvetnafæði getur verið mjög næringarríkt og hreint, en kolvetni er góður orkugjafi og ætti að vera hluti af reglulegu mataræði en að sjálfsöguð  þarf maður að vera vandfýsin á þau. En þeir einstaklingar sem líður ekki vel af brauði og öðrum bakstri, pasta og öðrum kolvetnum ættu að prófa að fara á glutenfrítt mataræði það eru nefninlega vísbendingar um að hluti fólks með vefjagigt sé með eitthvað glutenóþol (Non-coeliac gluten sensitivity). Að minnsta kosti sakar ekki að prófa en það geta liðið margir mánuðir áður en að áhrif koma í ljós þannig að það þarf þolinmæði.

Annað sem vísindarannsóknir benda til er að hluti fólks með vefjagigt þoli ekki glutamate en það er að finna í MSG eða þriðja kryddinu eins og það er stundum nefnt hér á landi. Þannig að ég hvet alla til að sneiða alfarið hjá vörum sem innihalda MSG.

Þrjár rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum hráfæðis (uncooked vegan) og bendir margt til að það fæði hafi bætandi áhrif á einkenni vefjagigtar og ein rannsókn sýndi að hreint grænmetisfæði  (vegetarian) lækkaði verkjaskor fólks með vefjagigt en hafði ekki áhrif á önnur einkenni.

Föstur hafa líka verið mikið í tísku og af sumum talin allrameinabót en ein rannsókn hefur verið gerð þar sem borið var saman að fasta annars vegar eftir ákveðinni leiðsögn og hinsvegar að  að fylgja Miðjarðarhafs grænmetisfæði. Rannsóknarniðurstöður sýndu ekki fram á að föstur hefði meira bætandi áhrif en Miðjarðarhafs grænmetisfæði.

Aspartam hefur löngum ekki verið talið hollt en erfitt hefur verið að staðfesta það með rannsóknum. Margir einstaklingar með vefjagigt telja sig þola það illa en það er einungis til ein rannsókn þar sem þetta var skoðað og  fannst ekki marktækur munur á þeim sem sniðgengu apartam (MSG reyndar líka) og þeim sem gerðu það ekki. En aspartam er ekki næringarríkt efni þannig að það er óhætt að sneiða hjá því.

Fólk með vefjagigt er með aukið næmi í taugakerfinu, er næmara fyrir blóðsykurssveiflum og er með ójafnvægi í ósjálfráða taugakerfinu þar sem að aukin virkni í streituhluta (sympaticus) þess er til staðar. Hægt er að minnka álag á þessa þætti með bættri næringarstjórn og það er kannski það sem hjálpar fólki með vefjagigt mest.

Líkaminn þarf ekki gosdrykki, sykraðar mjólkurvörur, sælgæti og unnar matvörur.

Líkaminn þarf prótein, góðar fitur, grænmeti, ávexti og góð kolvetni.

Næring er í tísku núna og heilbrigðiskerfið hefur opnað augu sín á áhrifaþætti nútímamataræðis á heilsu fólks og það eitt er stórt skref því stutt er síðan að fólkið þar í brúnni sagði flest “mataræði það skiptir engu máli” .

Næring er mikil pæling og um að gera að  huga að þeim þætti – Jú mataræði skiptir máli.

 

Heimildir:

* Fibromyalgia and nutrition: what news? A. Rossi1, A.C. Di Lollo2, M.P. Guzzo2, C. Giacomelli1, F. Atzeni3, L. Bazzichi1, M. Di Franco2

* http://hjartalif.is/201310141905/10-fáránlegar-fullyrdingar-um-lágkolvetnamatarædi

* KAARTINEN K, LAMMI K, HYPEN M, NENONEN M, HANNINEN O, RAUMA AL: Vegan diet alleviates fibromyalgia symptoms. Scand J Rheumatol 2000; 29: 308-13.

* HÄNNINEN O, KAARTINEN K, RAUMA AL et al.: Antioxidants in vegan diet and rheumaticdisorders. Toxicology 2000; 155: 45-53.

*DONALDSON MS, SPEIGHT N, LOOMIS S:Fibromyalgia syndrome improved using a mostly raw vegetarian diet: an observational study. BMC Complement Altern Med 2001;1: 7.

* AZAD KA, ALAM MN, HAQ SA et al.: Vegetarian diet in the treatment of fibromyalgia. Bangladesh Med Res Counc Bull 2000; 26: 41-7.

* MICHALSEN A, RIEGERT M, LÜDTKE R et al.: Mediterranean diet or extended fasting’s influence on changing the intestinal microflora, immunoglobulin A secretion and clinical outcome in patients with rheumatoid arthritis and fibromyalgia: an observational study. BMC Complement Altern Med 2005; 5: 22.

* SMITH JD, TERPENING CM, SCHMIDT SO,GUMS JG: Relief of fibromyalgia symptoms following discontinuation of dietary excitotoxins. Ann Pharmacother 2001; 35: 702-6.

* HOLTON KF, TAREN DL, THOMSON CA, BENNETT RM, JONES KD: The effect of dietary glutamate on fibromyalgia and irritable bowel symptoms. Clin Exp Rheumatol 2012; 30: 10-7.

* CIAPPUCCINI R, ANSEMANT T, MAILLEFERT JF, TAVERNIER C, ORNETTI P: Aspartame-induced fibromyalgia, an unusual but curable cause of chronic pain. Clin Exp Rheumatol 2010; 28 (Suppl. 63): S131-3.

* VELLISCA MY, LATORRE JI: Monosodium glutamate and aspartame in perceived pain in fibromyalgia. Rheumatol Int 2014; 34: 1011-3.

* HAUSTEINER-WIEHLE C, HENNINGSEN P: Irritable bowel syndrome: relations with functional, mental, and somatoform disorders.World J Gastroenterol 2014; 20: 6024-30.

* TOVOLI F, GIAMPAOLO L, CAIO G et al.: Fibromyalgia and coeliac disease: a media hype or an emerging clinical problem? Clin Exp Rheumatol 2013; 31: S50-2.

* TAUBMAN B, MAMULA P, SHERRY DD: Prevalence of asymptomatic celiac disease in children with fibromyalgia: a pilot study. Pediatr Rheumatol Online J 2011; 9: 11.

* RODRIGO L, BLANCO I, BOBES J, DE SERRES FJ: Clinical impact of a gluten-free diet on health-related quality of life in seven fibromyalgia syndrome patients with associated celiac disease. BMC Gastroenterol 2013; 13: 157.

* ISASI C, COLMENERO I, CASCO F et al.: Fibromyalgia and non-celiac gluten sensitivity: a description with remission of fibromyalgia. Rheumatol Int 2014; 34: 1607-12.

* RODRIGO L, BLANCO I, BOBES J, de SERRES FJ: Effect of one year of a gluten-free dieton the clinical evolution of irritable bowel syndrome plus fibromyalgia in patients with associated lymphocytic enteritis: a case control study. Arthritis Res Ther 2014; 16: 421.

 * SLIM M, MOLINA-BAREA R, GARCIA-LEIVA JM et al.: The effects of gluten-free diet versus hypocaloric diet among patients with fibromyalgia experiencing gluten sensitivity symptoms: Protocol for a pilot, open-label, randomized clinical trial. Contemp Clin Trials

2014; 40C: 193-8.

Til baka