Vefjagigt


Fréttir

Líklega besta lyfið

Já hvaða lyf skyldi það vera? Er komið eitthvað nýtt lyf við vefjagigt? Það kemur í ljós síðar í þessum pistli grin

Eins og flestir vita sem hafa reynt það á eigin skinni að vera með vefjagigt og gengið á milli lækna í leit af lækningu þá eru sárafá lyf til sem hjálpa fólki með vefjagigt. Flestir hafa þó fengið uppáskrifuð hin ýmsu lyf eins og amityptilin, cymbalta, gabapentin eða lyrica svo eitthvað sé nefnt. Fyrri tvö lyfin tilheyra lyfjum í geðdeyfðarflokki og hin seinni flogaveikislyfjum.  Lyf í þessum lyfjaflokkum verka á miðtaugakerfið á mismundandi hátt og draga oft á tíðum aðeins úr einkennum vefjagigtar. En engin lyf hafa verið framleidd sem eru beinlínis við vefjagigt.

Það sem er verst við lyf sem gefin eru við vefjagigt er að þau virka misvel á einstaklinga, sumir verða aðeins betri af einkennum, sumir finna engan mun og enn aðrir versna af einkennum því að aukaverkanir eru svo miklar. Þegar gefin eru sýklalyf  þá er stefnt á 100% bata en það þykir gott ef lyfjabati í vefjagigt er um 30%. Þegar lyf eru gefin þá þarf að byrja í litlum skömmtum og fikra sig svo í átt að hæfilegum skammti. Það þarf að taka lyfin á sama tíma á hverjum degi og passa að missa ekki úr skammt og það þarf að passa upp á víxlverkanir við önnur lyf og hvort að megi drekka áfengi samhliða lyfjatöku.  Ávísaðir lyfjaskammtar þurfa sem sagt að vera nógu öflugir til að halda einkennum sem mest niðri en nógu lágir til að valda ekki alvarlegum aukaverkunum.

Þá er komið að “líklega besta lyfinu” það heitir á enskri tungu “Exercises” og bætandi áhrif þess á vefjagigt hafa margsinnis verið sannreynd í vísindarannsóknum og niðurstöður þeirra verið birtar í virtum ritrýndum vísindaritum. Líkt og með önnur lyf þá virkar þetta lyf einungis ef að það er innbyrt í hæfilegum og einstaklingsmiðuðum skömmtum helst daglega. Ef lyfið er innbyrt í ofstórum skammti í einu þá versna einkenni til muna en í hæfilegum daglegum skömmtum þá fara ýmis einkenni að minnka. Nokkrar gerðir eru til af lyfinu  “ Exercises”  og stundum þarf fólk að prófa sig áfram til að finna út hvaða tegund hentar best og stundum getur það verið samsett tegund. Lyfið “Exercises” heitir á íslensku “Líkamsþjálfun” og það er líklega besta lyfið í vefjagigt.

Dæmu um mismunandi tegundir þessa lyfjaflokks eru:

Þolþjálfun

Styrktarþjálfun

Liðleikaþjálfun

Jafnvægisþjálfun

Stöðugleikaþjálfun

Vöðvateygjur

Öndunaræfingar

Spenna- slaka æfingar

 

Flestir þurfa að innbyrða lyf í öllum þessum flokkum já og í hæfilegu magni. Byrja verður á microskömmtum og fikra sig svo áfram. Þegar farið er af stað í “Exercises” lyfjameðferð þá er gott að fá handleiðslu og stuðning frá sérfræðingi sem þekkir vefjagigt t.d. sjúkraþjálfara og  stuðning og aðhald er einnig hægt að fá í gegnum Hreyfiseðil. Gott er að hafa í huga að lyfið “Exercises” læknar ekki að fullu vefjagigt frekar en önnur lyf, en hægt er að lofa að lyfið bætir heilsu og líðan þessa sjúklingahóps. Allir geta notað þetta lyf jafnvel þó að þeir séu nær rúmliggjandi – bara í hæfilegum skammti.

 

U-áhrif “Exercises/líkamsþjálfunar”

 

* Of lítill skammtur  - einkenni aukast

* Hæfilegur skammtur – einkenni minnka

* Of stór skammtur – einkenni aukast

 

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari, MTc, MPH

Til baka