Vefjagigt


Fréttir

Lækna ofurhlaup vefjagigt??

Á DV.is var birt grein sem unnin var upp úr viðtali við Sigríði Sigurðardóttur sem var í viðtali  í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2. 

Í greininni kemur fram að það sem hafi breytt lífi Sigríðar var að hún byrjaði að þjálfa sig upp í hreint frábært líkamlegt form. Fyrst byrjaði hún hægt og rólega að þjálfa sig, skref fyrir skref, en er nú mörgum árum seinna er hún búin að hlaupa mörg maraþon og klára járnkarlinn. Þetta er frábær árangur hjá þessari konu sem glímir við vefjagigt og heldur sínum einkennum niðri með þessari gífurlega miklu þjálfun.  Það eru ekki allir svona heppnir.

En ég las yfir viðbrögðin við þessari grein og að sjálfsögðu  pirrast margir yfir þessum skrifum því að þeim finnst að það sé verið að fullyrða að það sé bara hægt að lækna vefjagigt með því að gerast hlaupari eða járnkarl.  Það er einfaldlega ekki raunin og ástæðurnar eru nokkrar.
EN á sama tíma  get ég leyft mér að fullyrða að ALLIR sem æfa reglulega innan sinna marka líður betur af einkennum vefjagigtar. Mörk hvers og eins eru bara svo mismunandi og það á ekki bara við um fólk með vefjagigt heldur alla. Það er til fullt af heilbrigðu fólki sem getur ekki hlaupið maraþon eða náð því að þjálfa sig upp á járnkarlinn. Þeirra þolmörk eru einfaldlega allt önnur heldur en hinna sem ná því.

 

Hér koma nokkrar staðreyndir um þjálfun og vefjagigt:

* Það er til keppnisfólk sem er með vefjagigt sem þarf að æfa með tilliti til vefjagigtarinnar en nær að halda sér í keppnisformi.

* Það er til fullt af fólki sem hefur verið í góðu formi og þarf stöðugt að vera að draga úr æfingaálagi því að það veldur versnun á einkennum.

* Það er til fullt af fólki sem er með vefjagigt sem hefur verið keppnisfólk m.a. í maraþoni sem hefur "krassað"og ekki komist í keppnisform aftur.

* Það er til fullt af fólki sem er mjög veikt af vefjagigt þó að það þjálfi sig reglulega og stundi góðan lífsstíl.

* Það er til fullt af fólki sem heldur niðri sínum vefjagigtareinkennum með reglulegri þjálfun og  góðum lífsstíl.

Hvað segja þessar staðreyndir okkur?  Að vefjagigt er mjög misjöfn milli einstaklinga og þolmörk fólks eru mjög ólík.  Það geta hreinlega ekki allir orðið járnkarlar ekki frekar en að það geta ekki allir náð ólympíugulli.

Að lokum - Vefjagigt er misillvíg, sumir eru svo heppnir að fá vægt form af sjúkdómnum  en aðrir fá illvígara form hans sem ræna þá heilsu og lífsgæðum. Þetta á við um svo marga sjúkdóma, tökum liðagigt (RA) sem dæmi. Sumir einstaklingar sem greinast með liðagigt fá bólgur í einn og einn lið, fá góð lyf og sjúkdómurinn hefur lítil sem engin áhrif á þeirra líf meðan aðrir fá illviðráðanlega liðagigt sem étur upp liðina þeirra, með stöðugri bólguvirkni. Lyf hafa einhver bætandi áhrif, halda einkennum niðri , en þetta er veikt fólk, jafnvel öryrkjar sem búa við skerta heilsu, skerta færni og oft skert lífsgæði.  Sá hópur fólks sem glímir við illvíga gerð af sjúkdómum getur ekki þjálfað sig upp í að verða ofuríþróttamenn en  regluleg þjálfun virkar samt vel  og er oft á tíðum "líklega langbesta lyfið" en það á sérstaklega við í vefjagigt.

Ef haldnir væru ólympíuleikar vefjagigtar þá stæði Sigríður örugglega á palli með gull í hendi - en við vitum öll að það  eru fáir sem hljóta gullið - því er  verr.

En það geta allir stundað reglulega  hreyfingu til góðs - ögrað aðeins mörkunum sínum og náð meiri  og meiri árangri, gleði  og endorfín bústi.

 

 Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfarai MT´c, MPH

Til baka