Vefjagigt


Fréttir

Jólin, jólin… Í amstri jólanna þarf að huga að heilsunni

Aðventan og jólaundirbúningurinn á að vera tími til að njóta, EN margir gera svo miklar kröfur til sjálfs sín og alls sem þarf að "gera og vera" að jólaundirbúningurinn getur orðið að martröð hjá þeim sem ekki hafa heilsu í allt "puðið og stuðið".

Allir þeir sem búa við skerta orku eins og fólk með vefjagigt og síþreytu þurfa að huga vel að því að tæma ekki tankinn - að verða ekki gjaldþrota. Það er gott að hugsa um orku eins og peningainnistæðu sem við eigum mismikið af og líkt og með fjárhaginn þá er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir hversu mikla innistæðu við eigum og haga sér eftir því. Sömu lögmál gilda nefninlega fyrir orku og peninga. Ef innistæðan er lítil og eyðslan um of þá endar þetta á einn veg þ.e. í hruni. Því er gott að huga að því hvernig maður safnar orku og í hvað henni er eytt. Allir vefjagigtarsjúklingar þekkja það að gleyma því að þeir glími við þreytu og orkuskort og haga sér alveg eins og þeir eigi ómælt af orkunni OG vakna síðan næsta dag alveg í rúst og ná sér jafnvel ekki fyrr en eftir marga daga eða vikur. Passið ykkur að fara ekki á eyðslufyllerí, því það kemur að skuldadögunum og þeir geta verið bæði erfiðir og sárir.

Ég á eina uppáhaldsbók sem ég las reglulega fyrir börnin mín en það er um tvíburasysturnar Snuðru og Tuðru í jólaskapi eftir Iðunni Steinsdóttur. En mamma fjörugu tvíburanna ofgerir sér í jólaamstrinu og sofnar ofan í súpudiskinn á aðfangadag með óvæntum afleiðingum. Hún kunni ekki að setja mörk hvorki öðrum né sjálfri sér og missti af aðfangadagskvöldinu.

Passið að virða mörkin ykkar til að þið getið notið jólanna!!

Dæmi um hvað eyðir orku:

 • Allt sem veldur aukinni streitu eyðir orkubirgðum líkamans m.a. tímaskortur, skipulagsleysi, spennuástand, reiði, pirringur, áhyggjur.
   
 • Allt sem skynfærin nema sem álag eyðir orkubirgðum líkamans eins og hávaði, kuldi/hiti, birta, lykt, verkir.
 • Og fólk getur tekið frá okkur orku meira að segja okkar kærustu aðstandendur.

Já sumu getum við ekki breytt, við getum til að mynda ekki skilað börnunum okkar eða foreldrum þó að þau reynist okkur erfið EN það er svo margt sem við getum svo auðveldlega breytt sem hjálpar til við að draga úr orkueyðslunni.

 

Dæmi um hvernig hvernig hægt er að draga úr orkueyðslunni og jafnvel safna henni:

 • Að byrja hvern dag á að kortleggja orkustöðuna og hvað sé mikilvægt að eyða orkunni í.
 • Að eyða ekki orku í pirring/reiði og/eða óþarfa áhyggjur.
 • Að skipuleggja tíma og verkefni vel og dreifa álagi yfir lengri tíma.
 • Að næra sig vel og reglulega.
 • Að draga úr neyslu á koffeini, sykri, einföldum kolvetnum.
 • Að taka öndunaræfingar og slökun af og til yfir daginn, bara einnar mínútna slökun af og til getur dregið úr spennu í líkamanum.
 • Að klæða vel af sér kuldann.
   
 • Að hætta að svekkja sig yfir ástandinu.
   
 • Að læra að njóta...


Gleðileg jól,
með kveðju, Sigrún Baldursdóttir

Til baka