Vefjagigt


Fréttir

HBOT - áhugaverð nýjung í meðferð vefjagigtar sem vert er að fylgjast með

Stöðugt er leitað að nýjum meðferðarúrræðum til að hjálpa fólki með langvinna verki og vefjagigt og  eitt af nýjum uppgötvunum er súrefnismeðferð í þar tilgerðum súrefnisklefa (hyperbaric oxygen chamber, HBOT). Slík meðferð hefur verið notuð til að meðhöndla sár sem gróa illa, Heilablóðfall, eitranir,  þrenndartaugabólgu (Idiopadic Trigeminal Neuralgia), RSD (Reflex Sympathetic Dystrophy Syndrome), kafaraveiki og fleira.

Í nýlegri yfirlitsgrein um  HBOT meðferð og verki fundust 25 rannsóknir  sem voru rýndar en flestar þeirra eru dýrarannsóknir en niðurstöður þeirra sýna að HBOT dregur úr verkjanæmi. Þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar á mönnum benda einnig til að þessi meðferð dragi úr verkjum.

Ein rannsókn er til frá 2004 en í rannsóknarhópi voru 24 einstaklingar og í viðmiðunar hópi voru 26 einstaklingar. Niðurstöður þessarar rannsóknar gáfu vísbendingar um marktækan árangur HBOT merðferðar á einkennum vefjagigtar, en  ekki var gerð önnur rannsókn fyrr en um tíu árum síðar  en sú rannsókn sem gerð var af Efrati og félögum var gerð á 48 konum með vefjagigt. 24 þeirra voru í rannsóknarhópi og 24 í viðmiðunarhópi. Viðmiðunarhópur fékk enga meðferð í upphafi, en meðferð rannsóknarhópsins var 2ja mánaða HBOT meðferð með 100% súrefni við tvöfaldan loftþrýsting (2ATA), alls 40 skipti, 5 daga í viku í 90 mínútur í senn. Viðmiðunarhópurinn fékk síðan HBOT meðferð tveimur mánuðum síðar. HBOT meðferðin hafði marktæk áhrif á öll vefjagigtareinkenni sem voru metin og má þar nefna fjölda kvikupunkta, vefjagigtarskor og lífsgæði. Það sem þessi rannsókn hefur umfram fyrri rannsóknir er að metin var með SPECT heilaskanna virkni ýmissa heilastöðva og hafði HBOT bætandi áhrif á virkni þ.e. dró úr ofvirkum svæðum (í afturhluta heila) en jók virkni í svæðum í framhluta heila sem voru með minnkaða virkni.  Engin breyting var á einkennum hjá viðmiðunarhópnum þegar hann fékk enga meðferð.

Þessi rannsókn gefur vísbendingar um að HBOT  geti bætt líðan og aukið lífsgæði margra vefjagigtarsjúklinga. Í þessari rannsókn var sýnt fram á, í fyrsta sinn, að HBOT meðferð  stuðlar að nýmyndun taugasprota í heila (e. neuroplasticity)og stuðlar þannig að því að kjarnar í heila fari aftur að starfa eðlilega, einkum kjarnar sem hafa með úrvinnslu verkja að gera.

Það ber að fagna öllum nýjum meðferðarúrræðum í vefjagigt en niðurstöðum einnar rannsóknar verður þó að taka með fyrirvara. Þessi rannsókn var t.a.m. mjög fámenn og viðmiðunarhópur fékk enga meðferð þannig að ekki er hægt að meta þátt lyfleysuáhrifa (placebo). Líklega hefði fengist önnur niðurstaða ef viðmiðunarhópur hefði fengið sömu meðferð og rannsóknarhópurinn það er verið í súrefnisklefanum en án súrefnismeðferðar.  Ekki hafa verið birtar niðurstöður um langtímaárangur HBOT meðferðar sem er miður því að þetta er mjög tímfrek meðferð. En áhugaverð nýjung í meðferð vefjagigtar sem vert er að fylgjast með.

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjáfari MT´c, MPH

 

Heimildir

Efrati S, Golan H, Bechor Y, Faran Y, Daphna-Tekoah S, Sekler G, Fishlev G, Ablin JN, Bergan J, Volkov O, Friedman M, Ben-Jacob E, Buskila D.
Hyperbaric oxygen therapy can diminish fibromyalgia syndrome--prospective clinical trial.
Sótt 22. 07.2016 af http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4444341/

Sutherland AM, Clarke HA, Katz J, Katznelson R. J Int Med Res. 2004 May-Jun;32(3):263-7.
A new treatment modality for fibromyalgia syndrome: hyperbaric oxygen therapy.
Sótt 22.07.2016 af http://imr.sagepub.com/content/32/3/263.long

Yildiz S1, Kiralp MZ, Akin A, Keskin I, Ay H, Dursun H, Cimsit M.
Hyperbaric Oxygen Therapy: A New Treatment for Chronic Pain?
Sótt 22.07.2016 af http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/papr.12312/epdf

Hyperbaric hope for fibromyalgia sufferers - Mike Williams – June 2, 2015
Sótt 22.07.2016 af http://news.rice.edu/2015/06/02/hyperbaric-hope-for-fibromyalgia-sufferers-2/
Myndir sóttar 22.07.2016 af http://news.rice.edu/2015/06/02/hyperbaric-hope-for-fibromyalgia-sufferers-2/

Til baka