Vefjagigt


Fréttir

Eru tíðahvörf orsakavaldur vefjagigtar??

Undanfarið hef ég endurtekið fengið þessa spurningu, því ákvað ég að leggjast yfir vísindarannsóknir á þessu sviði. Forvitnilegt að vita hverjar niðurstöður þeirra eru.

Mig langar til að deila minni sýn sem er byggð á 25 ára reynslu í skoðun og meðferð á fólki með þennan sjúkdóm sem og reglulegri yfirferð á nýjustu vísindagreinum í gagnreyndum vísindabönkum eins og Pubmed og reglulegum skrifum um vefjagigt á ýmsum vetvangi meðal annars hér á vefjagigt.is.

En fyrst nokkrar staðreyndir um vefjagigt:

  • Vefjagigt er sjúkdómur/heilkenni sem getur birst á hvaða aldursskeiði sem er.
  • Börn og ungmenni greinast með vefjagigt og í yngsta aldurshópnum þá eru jafn margir strákar greindir með vefjagigt og stúlkur.
  • 10-20 prósent af fullorðnu fólki sem greinist með vefjagigt eru karlmenn.
  • Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem þýðir að sjúkdómurinn fylgir viðkomandi ævilangt. Sumir verða þó það góðir á tímabilum að þeir uppfylla ekki skilmerki vefjagigtar en vefjagigtin getur þá birst af og til.
  • Vefjagigt er algengust í hópi fólks á aldrinum 40-60 ára. Ein ástæðan fyrir því er uppsöfnunar áhrif þ.e. þeir sem fengu greininguna vefjagigt á yngri árum detta ekki út úr þessum hópi.
  • Það sem veldur því að vefjagigtarferli fer af stað er ofálag á kerfið og álagið getur verið af ýmsum toga. Tíðahvörf þar sem mikið fall verður í framleiðslu á kvenhormónum veldur auknu álagi á líkamann og þeir einstaklingar sem eru með vefjagigt fyrir geta orðið verri af einkennum og líklega geta tíðarhvörf virkjað vefjagigtarferlið í einstaklingum sem eru mjög tæpir fyrir .
  • Skortur á karlhormóni, testosteroni, hefur einnig verið tengt við einkenni vefjagigtar.

Tíðarhvörf og vefjagigt

Einkenni tíðarhvarfa líkjast nokkrum einkennum vefjagigtar, svo sem svefntruflanir, pirringur og aukið verkjanæmi. Hitakóf sem er grunneinkenni tíðarhvarfa er ekki algengt einkenni í vefjagigt fyrr en á efri árum og háfullorðnar konur með vefjagigt finna sumar verulega fyrir hitakófum þó að langt sé liðið frá tíðarhvörfum.

Í nýlegri rannsókn ca. og I reyndust fleiri konur sem voru komnar í tíðarhvörf uppfylla vefjagigtargreiningu heldur en aðeins yngri konur sem ekki voru komnar í tíðarhvörf. En konur í yngri hópnum sem voru byrjaðar með einkenni tíðhvarfa voru líklegri til að vera með vefjagigt en þær sem ekki voru með einkenni tíðarhvarfa. Þessi rannsókn bendir þannig til að einhver tengsl séu á milli framleiðslu á östrogeni og vefjagigtar.

Eins og miklar vangaveltur eru um tengsl tíðarhvarfa og vefjagigtar þá eru sárafáar haldbærar rannsóknir til um þetta efni. Eina rannsókn fann ég frá 2011 þar sem skoðuð voru áhrif hormónagjafar á einkenni vefjagigtar kvenna í tíðahvörfum. Helmingur kvennanna fékk estrogen (transdermal 17β-oestradiol (50 µg/day) ) í 8 vikur hinn helmingurinn lyfleysu.

Niðurstaðan kemur á óvart – enginn munur var á verkjum, verkjaþröskuldi, verkjamati þessarar tveggja hópa. Aukið estrogen hafði ekki áhrif á þessa þætti umfram lyfleysu.

Ljóst er að þekking á tengslum hormóna og tilurðar vefjagigtar er enn mjög óljós og hvort að hormónameðferð sé æskileg fyrir konur með vefjagigt er enn óljósara. Það sem liggur ljóst fyrir er að það þarf miklu fleiri og betri rannsóknir til að fá haldbærari niðurstöður.

 

Heimildir:

Rheumatology (Oxford). 2011 Mar;50(3):544-51. doi: 10.1093/rheumatology/keq348. Epub 2010 Nov 14.
Hormonal replacement therapy does not affect self-estimated pain or experimental pain responses in post-menopausal women suffering from fibromyalgia: a double-blind, randomized, placebo-controlled trial.
Stening KD1, Eriksson O, Henriksson KG, Brynhildsen J, Lindh-Åstrand L, Berg G, Hammar M, Amandusson A, Blomqvist A.
Maturitas.

 

2012 Oct;73(2):87-93. doi: 10.1016/j.maturitas.2012.06.001. Epub 2012 Jul 7.
Fibromyalgia part of the climacteric syndrome?
Blümel JE1, Palacios S, Legorreta D, Vallejo MS, Sarra S.

Prz Menopauzalny. 2014 Jun;13(3):169-73. doi: 10.5114/pm.2014.43819. Epub 2014 Jun 30.
Prevalence of fibromyalgia in premenopausal and postmenopausal women and its relation to climacteric symptoms.
Carranza-Lira S1, Hernandez IB1.

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari, MTc, MPH

Til baka