Vefjagigt


Fréttir

Af glútamati, MSG og fleirum fæðutegundum

Talið er að allt að 20% mannkyns fæðist með aukið næmi í taugakerfi sínu, en það að vera með aukið næmi er ekki sjúkdómur “per se” heldur eru þessum viðkvæmu einstaklingum hættara við að þróa upp sjúkdóma eins vefjagigt, mígreni, iðraólgu, millivefjablöðrubólgu, fótapirring, svefnraskanir og fleira og fleira. Og sjúkleikamerkin fara oft að birtast þegar viðkomandi hefur verið í löngu og viðvarandi álagi og það getur bæði verið líkamlegt og/eða andlegt.

Eitt af því sem fundist hefur í rannsóknum á fólki með vefjagigt er að hjá sumum einstaklingum mælist aukið magn af taugaboðefninu glútamat ( e. glutamate) á ákveðnum stöðum í heilanum. Taugaboðefni eru flokkuð í örvandi og hamlandi og á milli þeirra þarf að ríkja jafnvægi. Þannig er taugaboðefnið glútamat að öllu jöfnu örvandi en taugaboðefnið GABA hamlandi. Bæði þessi taugaboðefni gegna mikilvægu hlutverki í taugastarfsemi. Myndrænt er hægt að sjá fyrir sér virkni þessara taugaboðefna þannig að ef heilanum er líkt við kappakstursbíl þá væri glútamatið bensíngjöfin en GABA bremsurnar – og öll vitum við að það getur endað illa ef bensíngjöfin er stigin í botn. Og þannig er það með glútamatið; ef of mikið er af því er hætta á að það valdi sjúkleika í taugakerfinu.

Glútamat er amínósýra og þannig einn af mörgum grunnþáttunum í byggingu próteina (eggjahvítu). Með því að hafa prótein í fæðunni fær líkaminn nauðsynlegt magn glútamats á hverjum degi fyrir eðlilega líkamsstarfsemi. En auk glútamats í venjulegum fæðutegundum er algengt að fólk fái viðbótarmagn af glútamati í gegnum fæðubót, t.d. MSG (mono sodium glutamate) sem er bragðaukandi og því oft bætt út í unna matvöru. Í ljósi þess að taugaboðefnið glútamat getur haft örvandi áhrif á heilastarfsemi hafa því vaknað spurningar um hvort óhóflegt magn glútamats í fæðu geti haft neikvæð áhrif á sjúkdóma sem tengjast of mikilli virkni í heila- og taugastarfsemi. Ekki hefur fengist staðfest í rannsóknum að glútamat í fæðu hafi áhrif á magn taugaboðefnisins glútamats í heila – þær rannsóknir hafa einfaldlega ekki verið gerðar enn. Tvær rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum MSG (mono sodium glutamate) á einkenni vefjagigtar og í fyrri rannsókninni samanstóð hópurinn (n=56) af vefjagigtarsjúklingum með iðraólgu (IBS) en í þeirri síðari var valinn hópur (n= 72) vefjagigtarsjúklinga en ekki sérstaklega þeir sem eru með iðraólgu. Fyrri rannsóknin sýndi fram á marktækan árangur á vefjagigtareinkenni á MSG-snauðu fæði en sú síðari ekki. Þannig séð eru ekki sterkar vísindalegar sannanir fyrir áhrifum MSG.

EN það eru margir sem telja sig versna af einkennum sínum þegar þeir neyta ákveðinnar fæðu. Mígrenisjúklingum hefur t.a.m. lengi verið ráðlagt að borða ekki sterka osta og hvað haldið þið, í sterkum ostum er mjög mikið af glútamati.

Áðurnefnt MSG (mono sodium glutamate) er bragðaukandi efni sem talsvert er notað í unninn mat og margir telja sig þola illa. Er hugsanlegt að það geti verið út af því að þeir sem hafa of mikið af glútamati fyrir hreinlega “overdósi”?.

Matur getur svo sannarlega verið áhrifaþáttur í virkni sjúkdóma og því er mikilvægur meðferðarþáttur í vefjagigt, iðraólgu, mígreni og öðrum sjúkdómum taugakerfisins að tryggja næringu sem líkamanum líður vel af. Gott ráð til handa þessum hópi fólks er að forðast fæðu sem er rík af örvandi glútamati og að passa vel upp á blóðsykursstjórn – það hvorttveggja stuðlar að meiri ró í taugakerfinu, er hættulaust og þarf ekki að kosta neitt extra. Það er líka vert að geta þess að það eru fleiri fæðutegundir sem vefjagigtarfólk með iðraólgu er viðkvæmt fyrir og er það mjög mismunandi milli einstaklinga og dæmi um það er að sumir eru viðkvæmir fyrir mjólkurvörum og/eða fyrir glúteni í kornvörum. Það er því mikilvægt fyrir hvern og einn að læra inn á sig, prófa sig áfram með því að taka fæðutegundir út í 2-3 vikur og setja þær síðan inn aftur og athuga hvort viðkomandi finni einhvern mun á sér. Viðkvæmni fyrir fæðutegundum getur líka sveiflast og á góðum tímabilum þá er þol fyrir ýmsum fæðutegundum meira. Dæmi um það er þegar fólk er búið að vera í slökun og ró á Spánarströnd þá allt í einu getur viðkomandi borðað eða drukkið eitthvað sem þolist verr á erfiðari tímabilum vefjagigtar þegar taugakerfið er þanið ( þetta er einungis byggt á reynslusögum fólks með vefjagigt).

Mikilvægt er að hafa það hugfast að góð næring er bara einn liðurinn í að bæta heilsu sína, allt hitt þarf að fylgja með – regluleg hreyfing, slökun og hugarró, nægilegur og reglulegur svefn, bætt áreitis- og streitustjórn og ekki síst að vera hamingjusamur J

En í hvaða fæðutegundum er mest glútamat að finna?

Sumar fæðutegundir innihalda frítt glútamat sem myndast við niðurbrot á próteinum í fæðunni og glútamatið getur bundist fríu sódíum (natríum) og myndað þannig MSG. Fyrir þá sem eru mjög viðkvæmir þá gætu þeir þurft að forðast fæðutegundir sem eru ríkar af glútamati. Og hér fyrir neðan er listi yfir fæðutegundir sem eru ríkar af glútamati, en hafið í huga að þetta er ekki bannlisti heldur forðastlisti og gott að passa upp á að í sömu máltíðinni séu ekki margar glútamínríkar fæðutegundir.

Glútamat er í talsverðu magni í:

- öllu sem er maltað

- þroskuðum ostum og einna hæst í parmesan osti og Rocquefort

- kjötvörum - þá finnst mest af glútamati í kalkúni

- kjötkrafti

- öllu sem er gerjað eins og sojasósa, fiskisósa, edik, bjór

- tofu

- geri

- sveppum

- kartöflum

- tómötum

- baunum – peas

- valhnetum

Ath. Að þessi listi er ekki tæmandi.

 

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjáfari MT´c, MPH

 

Heimildir:

Ciappuccini R, Ansemant T, Maillefert JF, Tavernier C, Ornetti P (2010) Aspartame-induced fibromyalgia, an unusual but curable cause of chronic pain. Clin Exp Rheumatol 28:131–133

Holton KF1, Taren DL, Thomson CA, Bennett RM, Jones KD. The effect of dietary glutamate on fibromyalgia and irritable bowel symptoms. Clin Exp Rheumatol. 2012 Nov-Dec;30(6 Suppl 74):10-7. Epub 2012 Dec 14.

Logan A (2003). Dietary modifications and fibromyalgia. Complement Health Pract Rev 8:234–245

Smith JD, Terpening CM, Schmidt SO, Gums JG (2001). Relief of fibromyalgia symptoms following discontinuation of dietary excitotoxins. Ann Pharmacother 35:702–706

Vellisca MY1, Latorre JI. Monosodium glutamate and aspartame in perceived pain in fibromyalgia. Rheumatol Int. 2014 Jul;34(7):1011-3. doi: 10.1007/s00296-013-2801-5. Epub 2013 Jun 14.

https://www.verywell.com/gaba-glutamate-fibromyalgia-chronic-fatigue-716010 - sótt 15. desember 2016.

http://leavesoflife.com/blog/2014/11/glutamate-food-list/ - sótt 15. desember 2016.

Mynd sótt 3.01.2017 af http://www.foodnavigator.com/Market-Trends/Does-MSG-have-a-future-in-Europe-as-umami-gains-flavour-favour

Til baka